25.02.1974
Neðri deild: 66. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2333 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

240. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að þakka þeim þm. frá öllum flokkum, sem hafa unnið að þessu máli og komið sér saman um að flytja þetta frv. Það er ánægjulegt, að um það hefur náðst full samstaða allra flokka, með því er sæmd þingsins aukin, en hitt hefði verið fullkomin vansæmd, ef það hefði komið til ágreinings í sambandi við þetta mál eftir þau stóru fyrirheit, sem gefin voru á síðasta Alþingi, bæði siðferðilegs og lagalegs eðlis, um samábyrgð allrar þjóðarinnar á því tjóni, sem Vestmanneyingar yrðu fyrir vegna jarðeldanna. En þá stóð svo á, að enginn lifandi maður gat sagt um, hverjar afleiðingarnar yrðu. Sem betur fer hefur framvindan í Vestmannaeyjum orðið öll önnur og á betri veg en jafnvel bjartsýnustu menn þá þorðu að vona. Bæði var það svo, að jarðeldarnir sjálfir hættu fyrr en var a.m.k. hægt að gera ráð fyrir með nokkurri vissu, og enn fremur er hitt hægt að segja, að þannig hefur verið unnið að hreinsunarstarfi, uppbyggingarstarfi og endurreisnarstarfi í Vestmannaeyjum, að það hefur tekið styttri tíma en menn gerðu almennt ráð fyrir. Þar er mörgum að þakka, og ég ætla ekki að fara að nefna nein nöfn í því sambandi.

Stjórn Viðlagasjóðs gerði uppkast að frv. um áframhaldandi tekjuöflun fyrir sjóðinn og sendi mér það. Ég taldi eðlilegast í framhaldi af þeirri skipan, sem höfð var á málinu hér í fyrra, að það yrði þingið sjálft, sem hefði frumkvæði í því, og sendi því frv. þingfl., eins og það kom frá Viðlagasjóðsstjórninni, með beiðni um, að þeir tilnefndu menn í n. til þess að kanna þetta mál og flytja það.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er að vísu í nokkuð annarri mynd en það frv. var, sem kom frá stjórn Viðlagasjóðs, eins og hér hefur verið gerð grein fyrir, þar sem var gert ráð fyrir, að 2% héldust, en aðeins til áramóta, en nú er gert ráð fyrir því, að um 1% viðlagagjald verði að ræða, en það gildi í eitt ár, til 28. febr. 1975. Má ætla, að munurinn á þessu sé á milli 300 og 400 millj. kr.

Ég dreg ekki í efa, að sú hv. þm: nefnd, sem hefur um málið fjallað, hafi kannað þá reikninga og þær áætlanir, sem fyrir lágu, og niðurstaða hennar sé byggð á þeirri skoðun, að þessar tekjur, sem hún gerir ráð fyrir, að nú séu samþykktar, nægi til þess, að hægt verði að standa við þær skuldbindingar, sem á Viðlagasjóði hvíla, og ekki þurfi að verða neinn verulegur dráttur á því, að greiðslur geti farið fram úr sjóðnum með eðlilegum hætti. Það er að sjálfsögðu svo, eins og hér hefur líka komið fram, að þeir útreikningar og þær spár, sem um þetta hafa verið gerðar, eru allar gerðar með fyrirvara, vegna þess að þar eru mörg óviss atriði, sem koma til greina, og þess vegna getur auðvitað skakkað einhverju í þeim áætlunum til eða frá. Ég gæti þó allt eins búist við, að ekki hefði veitt af þeirri fjárhæð, sem gert var ráð fyrir af hálfu stjórnar Viðlagasjóðs. Það er enn þá eftir að meta ýmislegt tjón í þessu sambandi, og þess vegna ekki hægt að segja um það með fullri vissu, hverju það muni nema. Þess er enn fremur að gæta, að þótt eign sé og sjálfsagt góð eign í Viðlagasjóðshúsunum, er ekki hægt að segja um það á þessu augnabliki, hversu fljótt sala þeirra getur gengið, og hitt er jafnvíst, að þau verða ekki seld með þeim hætti, að þau verði greidd út í hönd, heldur verður sjálfsagt um alllangt skeið að standa í þeim nokkur fjárhæð, sem hugsanlegt er auðvitað, að Viðlagasjóður geti samt komið í peninga með einhverjum hætti og fyrir velvild. Er tekið fram í frv., að treyst sé á það, að Seðlabankinn veiti fyrirgreiðslu, ef á þarf að halda. Ég ber ekkert vantraust til hans í þessu sambandi, enda má segja, að hann hafi verið mjög liðlegur í þessum viðskiptum á s.l. ári og það kannske að einhverju leyti um getu fram, þar sem um s.l. áramót stóðu inni í Seðlabankanum á milli 7 og 8 hundruð millj. kr.

Ég vil svo taka undir það, sem hér hefur verið sagt, að við Íslendingar höfum mikið að þakka í sambandi við þetta. Okkur hefur verið sýnd vinsemd, og veitt höfðingleg hjálp í þessu sambandi frá okkar frændþjóðum, sumpart beint til Viðlagasjóðs, en ekki má gleyma því, að margar stórar og góðar gjafir hafa farið fram hjá Viðlagasjóðnum og beint til Vestmanneyinga til þess að bæta úr þeim þörfum, sem þar hafa verið fyrir hendi. Þar er um að ræða yfirleitt frjáls framlög einstaklinga, ekki síst frá Norðurlöndunum, en líka komin viðar að. Þetta verður seint fullþakkað.

Ég vil taka undir þau tilmæli, sem komu fram hjá hv. frsm. þessa frv., að afgreiðslu þess verði hraðað á þann veg, að það sé tryggt, að það geti orðið að lögum fyrir mánaðamótin, og ég efast ekki um, að þau tilmæli verði tekin til greina. Þan tilmæli gilda raunar einnig um það frv., sem hér verður rætt um á eftir og segja má, að sé í nokkrum tengslum við þetta. Þess vegna tel ég eðlilegt, að þetta frv. og það frv., sem á eftir kemur, fari bæði til sömu n. Ég tel líka eðlilega og sjálfsagða tillitssemi gagnvart Ed., að nm. þar fái tækifæri til að fjalla um málið ásamt nm. Nd., þar sem svo hittist nú á að flm, og þeir, sem hafa fjallað um undirbúning þessa máls, eru úr Nd, en ekki Ed. Ég vænti, að það þurfi ekki að verða til þess að tefja neitt afgreiðslu málsins, heldur geti hún farið fram með þeim hætti, sem flm, gerði ráð fyrir, að n. skili áliti á morgun, og hægt verði að afgreiða það hér í d. og taka það svo fyrir í hv. Ed. í beinu framhaldi af því.

Ég vil svo endurtaka þakklæti mitt til þingfl. og þeirra manna, sem unnið hafa að þessu, og tel það sýna, að þótt oft sé deilt hér á Alþingi, eru þó alltaf til mál, sem allir þm. geta sameinast um, hvar í flokki sem þeir standa.