17.10.1973
Efri deild: 3. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

11. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Í tilefni af þessari fsp. skal tekið fram, að það er rétt, sem hér kom fram, að það hefur auðvitað gífurlega mikla þýðingu, að það sé raunverulegt eftirlit með framkvæmd á þeim reglum, sem settar eru varðandi fiskveiðar. Það eru einkum þrír aðilar, sem hafa átt að hafa með höndum þetta eftirlit. Það er í fyrsta lagi Landhelgisgæslan, í öðru lagi er það Fiskmat ríkisins í vissum tilfellum og svo Hafrannsóknastofnunin eða fiskifræðingar, sem hafa átt að líta þar eftir í vissum tilvikum. Í einstaka tilvikum er það svo, að settir hafa verið alveg sérstakir eftirlitsmenn með staðbundnum veiðum á takmörkuðum svæðum. Sjútvrn. hefur rætt hvað eftir annað við þessa aðila og ýtt á eftir því, að þeir hertu á sínu eftirliti, og það hefur auðvitað ekki staðið á því, að það hefur verið lofað bót og betrun í þessum efnum. En það er algengt viðkvæði hjá þeim, sem með þessi mál hafa að gera, þ. e. a. s. eftirlitið, að þetta sé mjög starfsfrekt, erfitt í framkvæmd og margir, sem virðast hafa hug á því að bregða sér fram hjá reglum.

Það hefur sem sagt verið gert talsvert að því núna að ýta á það að líta hér stranga, eftir en verið hefur. Þannig hafa þó nokkrir aðilar verið sviptir leyfum, sem þeir höfðu fengið, eða verið teknir til dóms, vegna þess að þeir hafa brotið settar reglur.

Þetta, sem hv. þm. minntist á um ýsunetin hér í Faxaflóa, er eitt dæmi um það, að eftirlitið, sem ég skal fullkomlega játa, að er engan veginn nægilega gott, komst þó að raun um, að hér var stunduð veiði með smærri möskva í þessum ýsunetum en heimilt er að hafa á þessu svæði, og viðkomandi aðilar voru auðvitað stöðvaðir við þessar veiðar. En þeir hafa borið því fyrir sig, að þeim hafi ekki verið fullljóst, að þessi ákvæði næðu einnig til ýsuveiða, þar sem í reglugerðinni hafi verið talað um þorskfiska og skilgreining vantaði á því. Og þeir hafa nokkuð til síns máls í þessum efnum, þessir menn, sem hafa borið þetta fyrir sig, að þarna kunni að hafa verið um misskilning að ræða. En veiðarnar voru stöðvaðar, og nú hefur sú nefnd, sem samið hefur þessa reglugerð, unnið að breytingum, sem koma til með að fjalla um þetta á nýjan leik.

Þetta eru þær upplýsingar, sem ég hef að gefa varðandi þetta atriði. En ég sem sagt tek undir það með hv. þm., að það er auðvitað mjög nauðsynlegt að herða á öllu eftirliti varðandi framkvæmd á þessum reglugerðum. Það er erfitt að sjá, að eftirlitið geti verið sæmilegt varðandi allar þær fjölbreytilegu reglur, sem hér er um að ræða, án þess að eitthvað beint viðbótarstarfslið verði ráðið til þessa eftirlits. Það er vægast sagt ekki mikið á það að treysta, að Hafrannsóknastofnunin eða fiskifræðingarnir þar geti haft með höndum daglegt eða almennt eftirlit, þó að þeir hafi starfs síns vegna aðstöðu til þess að líta eftir ýmsum greinum varðandi þessi mál.