31.10.1973
Efri deild: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

56. mál, gengisskráning

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin í sumar og gera ráð fyrir því að heimila nokkur frávik frá eldri lögum varðandi gengisskráningu.

Eins og kunnugt er, eru ákvæði um það í lögum, að heimilt sé að skrá gengi krónunnar á þann veg, að frávik megi nema 2½% upp eða niður frá hinu ákveðna stofngengi krónunnar. Þetta er hið almenna mark, sem miðað er við hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hins vegar hefur raunin orðið sú, að margar þjóðir hafa vikið verulega frá þessu marki og heimilað svonefnt flot á sínum gjaldeyri, þannig að þær hafa getað vikið frá sínu stofngengi upp eða niður mun meira en sem þessu almenna marki nemur. Seðlabankinn óskaði eftir því að fá heimild til þess í samráði við ríkisstj. að breyta skráningu ísl. kr. þannig, að hér gæti verið um meiri hækkun að ræða á krónunni en sem næmi 2½% frá stofngengi, en án þess að sjálfu stofngenginu væri breytt. Það mátti því segja, að hér væri verið að opna fyrir þann möguleika að láta verðgildi krónunnar fljóta aðeins á annan veginn, eða upp á við, og þessi brbl. voru því sett til að afla þessarar heimildar. Þessi heimild hefur síðan verið notuð, og gengi ísl. kr. hefur hækkað nokkrum sinnum, eftir því sem ástæður hafa þótt til, og eins og kunnugt er, þá er nú skráð sölugengi krónunnar nokkru hærra gagnvart Bandaríkjadollar en það var fyrir gengislækkunina, sem ákveðin var í desembermánuði 1972.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja um þetta tiltölulega einfalda mál, sem öllum hv. þdm. er vel kunnugt um.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh: og viðskn. til fyrirgreiðslu.