25.02.1974
Neðri deild: 66. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2337 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

240. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég held, að hv. 5. þm. Sunnl. sé farinn að búast við kosningum á næstu vikum eða mánuðum. En ósköp er málflutningurinn haldlítill. Ósköp eru nú þetta létt og aum högg, ef hv. þm. hefur ætlað að ná sér niður á andstæðingi með þessum málflutningi, sem hann viðhafði hérna áðan. Þetta er aum frammistaða af hv. 5. þm. Sunnl. Og hv. þm. fær engar þakkir frá Vestmanneyingum fyrir að haga sér eins og fífl hér í sölum Alþingis. Það er fíflaháttur að tala eins og hv. þm. gerði, tala um það, að stjórnarandstaðan hafi beitt sér fyrir því að skera niður tekjur Viðlagasjóðs, þegar stjórnarandstaðan og stjórnarstuðningsmenn koma sér saman um að afla fjár eins og þarf í sjóðinn, til þess að Alþ. geti staðið við þær skuldbindingar, sem það tók á sig á síðasta þingi með l. um Viðlagasjóð. Það er illt verk að reyna að sundra því samstarfi, sem náðst hefur hér í hv. Alþ. um að afla þess fjár, sem þarf, eins og tekið var fram af hv. 1. flm., forseta Sþ., eins og tekið var fram af hæstv. forsrh. og eins og allir hv. alþm. ætla sér að gera og standa við.

Í því frv.-uppkasti, sem hæstv. forsrh. sendi þingflokkunum, var gert ráð fyrir að framlengja 2% Viðlagasjóðsgjaldið til áramóta. Það er vitað, hvað það hefði gefið í tekjur fyrir sjóðinn. Í þessu frv.- uppkasti var ekki tekið fram, að það skyldi haldið áfram á árinu 1975 að afla fjár, ef með þyrfti. Það var ekki nefnt, það var ekki á það minnst. Eigi að síðum efast ég ekkert um, að þeir, sem stóðu að því frv., höfðu ætlað sér að gera það, ef þessi 2% dygðu ekki. Þeir, sem gerðu ráð fyrir 2% gjaldtöku, höfðu einnig búist við því, að tolltekjur af Viðlagasjóðshúsunum og söluskatturinn, sem af þeim fengist, rynni í ríkissjóð, en ekki uppbyggingu í Vestmannaeyjum. En tolltekjur og söluskattur af Viðlagasjóðshúsunum + 1% söluskattur í Viðlagasjóð í 12 mánuði gefa yfir 1200 millj., en 2% söluskattur í 10 mánuði gefur svipaða upphæð. Svo segir hv. 5. þm. Sunnl., að það sé verið að skera niður tekjur í Viðlagasjóð. Þessi hv. þm. hefur verið reikningskennari í Vestmannaeyjum, við barnaskólann (Gripið fram í.) Gagnfræðaskólann þá, því verra, ef hann heldur því fram, að með þessum aðgerðum sé verið að skera niður tekjuöflun fyrir Viðlagasjóð. Svona málflutningum er algerlega ósæmandi hér í hv. Alþ., þegar því er svo bætt við, að ef þær tekjur, sem hér er reiknað með, nægja ekki, þá verði gerðar ráðstafanir á næsta ári til að afla tekna fyrir sjóðinn. Hv. þm. er að reyna að gera þetta mál tortryggilegt, og fyrir það fær hann ekki þakkir frá neinum. Fyrir það verður hann minni maður.

Hv. þm. efast væntanlega ekki um, að Seðlabankinn muni lána áfram eins og þarf í þessu skyni. Þegar gert var ráð fyrir 2% í Viðlagasjóð á þessu ári, var búist við, að skuld Viðlagasjóðs yrði greidd tiltölulega fljótt. Við, sem stöndum að því að taka aðeins 1% og dreifa álögunum á lengri tíma, gerum ráð fyrir því, að þessi skuld við Seðlabankann verði því aðeins greidd, að tekjur sjóðsins nægi til þess, skuldin biði til ársins 1975 eða 1976, ef með þarf. Við erum allir, sem stöndum að flutningi þessa frv., sammála um, að það eigi ekki að tef,ja greiðslur úr sjóðnum til uppbyggingar í Vestmannaeyjum. En það er eitthvað breytt viðhorf, ef þessi hv. þm. vill endilega fara að hlífa Seðlabankanum.

Hv. þm. talar um vaxtagreiðslur, 300 millj. kr. vaxtagreiðslur. Það þarf ansi háa fjárhæð, til þess að vextirnir verði 300 millj. Við getum reiknað það bæði í huganum og á blaði, en ég held, að við getum frestað því til 2. umr. eða þangað til síðar, það breytir ekki dæminu.

En það er ástæða til þess að spyrja, hvort 1409 millj., sem voru útistandandi um áramót og gjaldfalla fyrir apríllok, hafi verið vaxtalausar, hvort það hafi verið ómögulegt fyrir Viðlagasjóð að fá einhverjar vaxtatekjur á móti af 1409 millj. kr. Ég efast ekkert um, að a.m.k. formaður Viðlagasjóðsstjórnarinnar væri líklegur til þess að gera ráðstafanir til þess, þótt hv. 5. þm. Sunnl. hefði kannske gleymt því. Yfirdrátturinn hjá Seðlabankanum, milli 700 og 800 mill,j. kr., það er ekki svo mikið, þegar útistandandi eru 1409 millj.

En hér er ekki um það að ræða að skera niður tekjur Viðlagasjóðsins. Hér er ekki um það að ræða, að nokkur vilji tefja uppbygginguna í Vestmannaeyjum. Þvert á móti eru allir alþm. með því að hraða því sem mest má verða, og þá er það ósæmilegt, að 5. þm. Sunnl. tali hér á hv. Alþ. í sundrungartón og vanþakklætistón til sumra þm. og dragi upp svarta bletti og sletti úr klaufunum og haldi því fram, að sumir í stjórnarandstöðunni séu að tefja fyrir framkvæmdum og hindra það, að nægilegt fjármagn fáist. Þetta er ósættanlegt og það er ódrengilegt.

Sá, sem hagar sér þannig hindrar það, að hann verði tekinn gildur í samningum eða samstarfi.

Ég sé ekki ástæðu til að segja öllu meira um þetta að svo stöddu. Ef við eigum það eftir, ég og hv. 5. þm. Sunnl., að fara í framboð á Suðurlandi, þegar kosningar verða, hvort sem þær verða á þessu ári eða næsta, þá getum við talað um þetta mál og fleira, og þá er ástæðulaust að hlífa hv. 5, þm. Sunnl. Þá getum við rætt um þessi mál og önnur og sjáum til, hvort það þykir sæmilegt í Vestmannaeyjum að halda því fram, að ég hafi hindrað, að Viðlagasjóður fái nægilegt fjármagn til uppbyggingarstarfsins. En hv. 5. þm. Sunnl. lét sér sæma að segja, að stjórnarandstaðan undir minni forustu hafi verið dragbítur í þessu efni.