25.02.1974
Neðri deild: 66. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2339 í B-deild Alþingistíðinda. (2103)

240. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er sannarlega hæpið, að mörgum hafi dottið það í hug, að þessi hvíthærði, landsföðurlegi forustumaður þm. af Suðurlandi mundi láta verða af því hér í sölum hv. Alþ. að bregða ofan af sér sauðargærunni. Ég varð dálítið undrandi yfir þessu og reyndar einnig yfir mörgu því, sem hv. fyrrv. landsfaðir lét út úr sér. Í öllu því vandasama starfi, sem fylgt hefur þessu Vestmannaeyjagosi, höfum við þm. allra flokka reynt að vinna, að svo miklu leyti sem mögulegt hefur verið, að því að blanda ekki inn í þessa hluti neins konar flokkspólitík. Vissulega hafa menn einstaka sinnum orðið varir við einstaka smábrodda í þá veru, en ég get fullvissað hv. 1. þm. Sunnl. um, að þeir hafa ekki verið frá mér. Ég hef ekki vanið mig á það, hvorki nú né endranær, að miða alla mína hegðun og talsmáta við kosningasmölun, sem ég hef ansi mikinn grun um, að ýmsir aðrir hv. þm. hafi gert.

Ég vil ekki — með virðingu fyrir hv. þd. leyfa mér að lepja upp alla þá óhugnanlegu orðaleppa, sem hv. fyrrv. ráðh. Íslendinga lét velta upp úr sér áðan. Hann talaði m.a. um „ósæmilegt“, „vanþakklætistón“, „sundrungartón“, „sletta úr klaufunum“ og „haga sér eins og fífl“. Þetta er munnsöfnuður, sem ég kann ekki við að bera mér í munn. Og ég mun ekki í þeim efnum fara niður á plan í rökræðum, sem hv. 1. þm. Sunnl. virðist vera eðlilegast innst inni.

Það, sem ég sagði hér áðan, var það í örfáum orðum, að lausafjárstaða Viðlagasjóðs væri afarslæm, greiðslugeta hans að óbreyttum tekjum væri mjög lítil og skuld við Seðlabankann mundi ekki minnka, heldur vaxa, ef ekki væri úr bætt. Og í því sambandi vil ég vekja athygli á því, að þegar ég talaði um þessar vaxtagreiðslur áðan sagði ég: að óbreyttum tekjum Viðlagasjóðs. Þessar vaxtagreiðslur hef ég ekki reiknað út, eins og ég gat um áðan. En það er eins og annað hvert orð villist í gegnum höfuðið á þessum hv. þm. og út hinum megin. Ég hélt aðeins fram þeirri skoðun, sem var skoðun stjórnarmanna í Viðlagasjóði. Að vísu skal ég taka fram hér, til þess að það valdi ekki misskilningi, að einn hv. stjórnarmaður greiddi ekki atkv. við þessa atkvgr., og það var hans afstaða og hans skoðun, og ég skal ekkert setja út á það.

Einnig minntist þessi hv. þm. á það, að hæstv. forsrh, hefði tekið fram, að hann hefði mælt með því, að þetta yrði eins og n:í stendur til að afgreiða það. Hann sagði í sinni ræðu, að bann væri þeirrar skoðunar, að líklega hefði þurft að hafa þetta 2%. Maður á kannske eftir að fá að heyra hv. 1. þm. Sunnl. hafa uppi aðrar eins orðræður við hæstv. forsrh.

Ég skal ekki eyða tíma þingsins í að vanda um við 1. þm. Sunnl.. Ég nenni ekki heldur að rökræða mikið við hann um það, hver munurinn er á því að fá 2% fullt til áramóta. Allir vita hvað síðustu mánuðirnir gera nú í söluskatti á árinu, og allir vita, hver munur er að fá miklar tekjur inn á stuttum tíma, þegar skuldir eru miklar og vaxtagreiðslur háar. En reikning mun ég ekki taka að mér að kenna hv. 1. þm. Sunnl., þó að það hafi gengið þokkalega með unglingana. (Gripið fram í.) Það er víst langt í það, hv. þm.

En ég vil aðeins að lokum, vegna þess, að hann vildi gefa mér svolitla áminningu í hótunarstíl um það, að hann mundi ekki hlífa mér í væntanlegu framboði okkar tveggja, ef til kæmi á Suðurlandi. Ég kvíði því alls ekki að eiga við hann glímu, hvort sem er í rökræðu um þetta mál eða önnur. Við höfum bitist lítilsháttar áður, og ég get ekki séð, að hann hafi gengið þar með betri hlut frá borði heldur en ég, og ég vænti þess, að það muni ekki hallast á mig, þegar þar að kemur.