25.02.1974
Neðri deild: 66. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hér hefur verið sagt, að þetta frv. var til umr. í n., sem áður er getið um, og ég get sagt það, að ég fyrir mitt leyti er því hlynntur, að þessi sjóður sé stofnaður. En ég tók það fram, þegar rætt var um þetta, að ég vildi hafa allan fyrirvara um, hvernig þetta verður framkvæmt, hvernig fénu verður varið og hversu víðtæk olíuniðurgreiðslan ætti að verða.

Þegar hæstv. viðskrh. afhenti mér uppkast að þessu frv., tók ég fram við hann, að ég teldi eðlilegt að binda þetta ekki við íbúðarhúsnæði og strika bæri íbúðarhúsnæði át, en nefna aðeins húsnæði, og hélt ég, að hæstv. ráðh. ætlaði að gera það. En ég sé að það hefur ekki verið gert, og vil ég vekja athygli þeirrar n., sem málið fær, á því, að skv. 1. gr. er aðeins átt við íbúðarhúsnæði.

Ástæðan fyrir því m.a., að ég vakti athygli á þessu, er bréf, sem Sjálfstfl. skrifaði hæstv. ríkisstj. og vakti athygli á því, að nauðsynlegt væri að gera ráðstafanir til þess að greiða niður olíu, eftir að hún hefur hækkað eins og raun ber vitni, og sýnilegt er, að hún muni hækka enn þá meira. Í bréfinu var vakin athygli á þeim mikla mismun, sem einnig væri í atvinnurekstrinum. Þeir, sem þyrftu að nota dýru olíuna við atvinnureksturinn, hefðu vitanlega allt aðra aðstöðu heldur en hinir, sem hefðu raforku eða hitaveitu í sambandi við atvinnureksturinn. Bréfið var skrifað hæstv. ríkisstj. áður en málið komst á dagskrá eða umræðugrundvöll. Sjálfstfl. heldur sig að sjálfsögðu við þetta bréf.

Ég skildi hæstv. viðskrh. þannig, að hann ætlaði að taka fram, þegar hann talaði fyrir þessu frv. hér í hv. d., að hann vildi hafa samráð við stjórnarandstöðuna um samningu þess frv., sem verður flutt um framkvæmd á notkun þess sjóðs, sem stofnaður er með þessu frv., ef að lögum verður. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að hæstv. viðskrh. standi við það, og þætti mér vænt um, að það bærist til hans, að ég hef haft orð á þessu hér.

Það er vitanlega vandamál, hvernig framkvæmdin á að verða. Það er vandi að framkvæma þetta á réttlátan hátt. Í bréfi okkar sjálfstæðismanna var á það bent, að það væri nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess, að kostnaðarmismunurinn ykist ekki. Það er vitað mál, að það hefur alltaf verið mikill munur á olíukostnaði og hitaveitukostnaði. Það hefur verið misjafn munur á rafmagnsnotkuninni, vegna þess að rafmagnsverðið er ekki eitt og það sama víðs vegar um land, það er mjög misjafnt. En það er rétt, sem hér var minnst á áðan, að þetta þarf einnig að hafa t huga, þegar gengið verður frá því, hvernig þetta skuli framkvæmt.

Ég tel ekki ástæðu til þess að segja miklu meira um þetta mál að svo stöddu. Ég er því hlynntur, að sjóðurinn verði stofnaður, og ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt nú í þessu formi, er sú, að það þótti eðlilegt að lögfesta sjóðsstofnunina fyrir mánaðamót, af því að það er óneitanlega óeðlilegt að lækka söluskattinn um 1% um næstu mánaðamót og hækka bann svo aftur eftir einn mánuð. Það er miklu eðlilegra, að söluskatturinn sé þá óbreyttur frá næstu mánaðamótum og gjaldið fari að hálfu í Viðlagasjóð og að hálfu í þennan niðurgreiðslusjóð.

Ég get tekið undir það með hv. þm., sem talaði hér áðan, Bjarna Guðnasyni, um, að vitanlega væri æskilegast, að það þyrfti ekki að nota þetta gjald til þessarar sjóðsstofnunar, að ríkissjóður gæti tekið af tekjum sínum þá upphæð, sem til þess þarf, með því að spara útgjöld af þeim háu fjárl., sem nú eru. En það hefur ekki gefist tími til þess núna fyrir mánaðamótin að fá samkomulag um það við hæstv. ríkisstj. Ég vil aðeins minna á það, að það eru 360 millj. kr., sem búist er við, að ríkissjóður græði á bensínhækkuninni beinlínis, bæði í söluskatti og tolltekjum. Ég geri ráð fyrir, að það komi krafa um, að sú upphæð gangi til Vegasjóðs frekar en til olíuniðurgreiðslusjóðs. Og það vita allir hv. þm., að fyrir höndum er endurskoðun á vegáætluninni, og þar virðist vera mikil fjárþörf. Ég vil leggja til, að hæstv. fjmrh. afhendi Vegasjóði þennan óvænta gróða, sem ríkissjóður fær af bensínhækkuninni.

Ég tel, herra forseti, ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en vek athygli á því, að ég skildi hæstv. viðskrh, þannig, að hann vildi hafa samráð við stjórnarandstöðuna um samningu þess frv., sem kemur í kjölfar þeirra laga, sem af lögfestingu frv. leiðir.