25.02.1974
Neðri deild: 66. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2346 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði, þá er vafalaust rétt, að viðskrh. hafi látið einhver orð falla á þá leið, sem hann tók fram, því að þetta atriði hefur verið rætt í ríkisstj. og verið gert ráð fyrir því, að haft yrði samráð við stjórnarandstöðuna um samningu á því frv., sem þarf til að koma varðandi ráðstöfun á tekjum þessa sjóðs, þannig að ég geri ekki ráð fyrir, að það verði nein fyrirstaða á því. Þó að hæstv. viðskrh. sé ekki viðstaddur, tel ég mér óhætt að heita því í nafni stjórnarinnar, að þannig verði á þessu máli haldið. Ég undirstrika enn, eins og ég gerði áðan, að hér er aðeins um að ræða heimild til lögfestingar á gjaldinu, en tekið skýrum stöfum fram, að um ráðstöfun fjárins verði flutt sérstakt frv.

Það má auðvitað í sambandi við þetta mál segja og spyrja eins og hv. 3, landsk. þm.: Af hverju eru þessi mál ekki tekin fyrir meira heildstætt? Það er mismunur á aðstöðu á mörgum öðrum sviðum eftir því, hvar menn eru búsettir. — Það er alveg rétt. Ég held þó, að hér sé um alveg sérstakar aðstæður að ræða, — aðstæður, sem hafa komið til með sneggri og óvæntari bætti en menn gáfu almennt séð fyrir, og stendur að því leyti öðruvísi á en um ýmsan annan aðstöðumun. Annars vil ég í sambandi við það geta þess, að það eru starfandi, eins og menn þekkja, nefndir til að athuga þessi atriði, t.d. nefnd til að kanna möguleika á jöfnun flutningskostnaðar og svokölluð byggðanefnd, sem er kjörin af Sþ., og í henni eiga sæti fulltrúar frá öllum flokkum, sem eiga að fjalla um þessi mál almennt í heild. En einmitt hún tók þetta vandamál alveg sérstaklega út úr og skrifaði ríkisstj. bréf um þetta olíuvandamál og þan vandræði, sem risu út af þeim aðstöðumun, sem hlytist af þeirri verðbreytingu, sem þarna væri að eiga sér stað og ætti sér stað. Auk þess er það rétt, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að það kom bréf frá Sjálfstfl. einmitt um þetta atriði. Ég held því, að það séu gildar ástæður til þess, að þetta málefni sé alveg sérstaklega tekið út úr. Auðvitað hefði mátt hugsa sér aðrar leiðir til að safna fé í sjóð til að jafna þennan aðstöðumun. Auðvitað hefði mátt hugsa sér einhvers konar verðjöfnun í þessu sambandi, að láta þá, sem búa við hitaveitu og bera minni kostnað, taka þátt í þessu með því móti, að þeir legðu eitthvað af mörkum. Má segja, að vissulega væri það ekki óeðlileg leið. En þá er á það að líta, að þannig stendur á, að einmitt ýmsar hitaveiturnar eru með miklar fyrirætlanir um öra uppbyggingu og vilja gjarnan reyna að nota fé, sem þeim áskotnaðist e.t.v. í sambandi við einhverja hækkun á hitaveitugjöldum, til slíkrar uppbyggingar. Þess vegna held ég, að það geti verið eðlilegra, þegar alls er gætt, að leggja þetta gjald á alla landsmenn, láta alla landsmenn taka þátt í því, dreifa því þannig.

Hugleiðingar þær, sem hv. 3. landsk. þm. var með um ýmis atriði í þessu sambandi, eiga auðvitað rétt á sér. T.d. er sérstakt mál. sem hlýtur að koma til athugunar í sambandi við frekari athugun á þessu máli og ráðstöfun fjár úr þessum sjóði, þau hús, sem hituð eru með rafmagni, því að þar eru líka dæmi, þar sem er um mjög misjafna aðstöðu að ræða. Vissulega geta komið til athugunar ýmsar leiðir til þess að reyna að draga úr þessum aðstöðumun, og þá er auðvitað ekkert óeðlilegt, þó að upp í hugann komi þetta, sem kom fram hjá honum, að það væri æskilegt, að það væri hægt að nota eitthvað af slíkum sjóði til þess að létta undir með þeim mörgu aðilum, sem hafa hug á því nú að taka jarðvarma til upphitunar í stærri stíl en áður. Og ég hygg, að allir séu sammála um, að það sé hin mesta nauðsyn á að gera það átak í þeim efnum, sem kleift er, að sem flestir geti og sem fyrst komið því við að hita hús sin upp með jarðhita eða rafhitun. Þó að þetta frv. sé svona orðað og beri þetta heiti, get ég ekki séð, að það útiloki, að í sambandi við ráðstöfun á tekjum úr þessum sjóði komi slíkar og þvílíkar hugleiðingar til athugunar. Ég lít svo á, að það sé mjög óbundið og í rauninni algjörlega óbundið, hvernig nánar verður hagað ráðstöfun á fé úr þessum sjóði. Mér er ljóst ekki síður en öðrum, að það geta ýmis vandamál risið upp í því sambandi, og verður auðvitað að gefa sér góðan tíma til að athuga þá hlið málsins. Þess vegna er einmitt þessi háttur hafður á, að hér er um að ræða lögfestingu á tekjulindinni. En hitt var mönnum ljóst, að það var ekki hægt í skyndi að fara að setja saman reglur um úthlutun á því fé, heldur yrði að gefa sér betra tóm til þess að athuga margvíslegar hliðar á því málefni.

Auðvitað má segja það og getur verið sjónarmið hjá sumum, að það mætti spara á einhverjum lið og þyrfti ekki að afla sérstakra tekna, það væri ekki vandi að spara 200–300 millj., eins og hv. 3. landsk. þm. sagði og virtist ekki vera sérlega stórtækur í þetta sinn. Samt er það svo, að þó að það sé ekki stærri fjárhæð nefnd en þetta, þá getur vafist fyrir honum eins og fleirum að nefna það alveg ákveðið, hvað eigi að fella niður úr fjárl. og hvað eigi að spara. Það er miklu þægilegra að tala um þetta almennum orðum heldur en benda á þá liði, sem niður eigi að falla. Og ég býst við því, að það geti orðið erfiðleikar á því, þegar á að fara að skera eitthvað niður, þó að auðvitað geti komið til slíks, að þá leið verði að taka til athugunar.

Ég vil fyrst og fremst undirstrika og staðfesta það, sem hv. 1. þm. Sunnl. sagði, að það stendur, sem sagt hefur verið, að samráð verður haft við stjórnarandstöðuna, áður en gengið verður frá frv. um ráðstöfun á þessu fé, og jafnframt vil ég taka það fram, að ýmsar þær hugleiðingar, sem hv. 3. landsk. þm. var með, geta eðlilega komist að í sambandi við framhaldsmeðferð á málinu, þegar rætt verður um ráðstöfun fjárins.