25.02.1974
Neðri deild: 66. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2349 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr, meira en góðu hófi gegnir, enda fámennt heldur orðið hér í hv. d. En ég taldi rétt að kveðja mér hljóðs út af þessu máli, ekki síst til þess að fara nokkrum orðum um það, sem kom fram í máli hv. 3. landsk., Bjarna Guðnasonar.

Ég vil þá fyrst gera aths. við það, sem hann taldi hér, að þetta væri í raun og veru ekkert sérstakt mál, sem hér væri á ferðinni. Hin mikla verðhækkun á olíu til upphitunar húsa sé aðeins hluti af því, sem menn hafa kallað byggðavandamál, og málið beri að leysa í samræmi við það. Ég er ekki alveg á sömu skoðun í þessum efnum. Ég lít á þetta sem alveg sérstakan vanda. Að vísu má til sanns vegar færa, að þetta snerti hið svonefnda byggðavandamál nokkuð. En ég vil benda á það í fyrsta lagi, að hér er um mjög snöggan og óvæntan vanda að ræða, sem steðjar að allri þjóðinni, og að þarna er um að ræða, að þetta bitnar ekki aðeins á fólki, sem býr úti í dreifbýlinu, eins og kallað er, á landsbyggðinni, heldur í þéttbýlinu líka, því að við vitum, að það búa ekki nærri allir hér í þéttbýlinu við hitaveitu. Ég vil líka benda á það, að kannske er þetta miklu stærra vandamál en komið hefur fram í þessum umr., sem hér eru. Nú er olían komin upp í 7.70 lítrinn til húshitunar, en það er jafnvel búist við því, að hún fari í 14 kr. og jafnvel meira, og þá mundi hækkunin valda, að mér skilst, um 800–900 millj. kr. bagga á það fólk, sem hitar hús sín með olíu, til viðbótar því, sem það borgar nú, en það er sennilega nokkru meira en helmingi meira en það fólk greiðir, sem býr á hitaveitusvæði. Ég vil vekja athygli á því, að með þessu frv. er ekki gengið lengra en svo, að það mundi e.t.v. vera hægt að draga nokkuð úr áhrifum þessara miklu hækkunar, en jafnast alls ekki bilið, sem er á milli þeirra, sem kynda hús sín með olíu, og hinna, sem nota til þess hitaveitu. Ég vil vekja athygli á því líka, að eins og hér hefur komið fram, þá er talið, að þessi hækkun ein á olíunni geti valdið um 60–80 þús. kr. útgjöldum fyrir hverja fjölskyldu. Sú útgjaldahækkun verður að greiðast af launum manna, og eins og menn vita, eru 2/3 launþega í hæsta skattþrepi. Þeir verða því að hafa nokkru hærra en 60–80 þús. kr. tekjur til þess að borga þessa hækkun, sem kemur á þá ofan á þann mismun, sem nú er fyrir um upphitunarkostnað hjá þeim og hinum, sem búa við hitaveitu. Mér reiknast, svo til, að venjuleg fjölskylda þurfi að hafa um 120–130 þús. kr. tekjur til þess að greiða þennan mismun vegna þess, hvernig nú er háttað skattkerfi okkar, að langflestir eru í hæsta skattþrepi með nálægt 55% skatt af sínum tekjum.

Ég ætla ekki að fara frekari orðum um þetta nú. Ég lofaði því að vera stuttorður, þegar ég tók hér til máls. En ég vil enda á því að segja, að hér er hreyft miklu sanngirnismáli. Það má eflaust deila um það, hvernig tökum á að taka slíkt mál, og þá ekki síst, hvernig á að afla fjár til þess að standa straum af þessum ráðstöfunum. En ég held, að hér sé spor í rétta átt í þessum efnum, þótt það sé jafnframt rétt, sem hér hefur komið fram, að að mörgu þarf að hyggja í sambandi við þetta mál og þá ekki síst að því að gera veruleg átök í því að virkja innlenda orkugjafa til þess að hita upp okkar húsnæði, Í því sambandi vil ég ljúka máli mínu með því að benda á það, að ég flutti hér strax í haust frv. til l. um breyt. á orkulögum, sem miðaði að því að styðja örlítið betur við bakið á sveitarfélögunum í þeim efnum, þegar þau eru að leita að jarðhita. Það er mjög mikil ástæða til að örva þau til þess meira en áður tíðkaðist vegna þeirra breyttu viðhorfa, sem nú blasa við í þessum málum. Og ég vildi vekja athygli á því, að þetta mál þarf að taka upp og það þarf að fá þinglega meðferð, hvort sem það verður samþ. í breyttu eða óbreyttu formi.