26.02.1974
Neðri deild: 67. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

240. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Nál. á þskj. 418 hefur verið útbýtt hér fjölrituðu. Fjh.- og viðskn. hefur rætt þetta frv. á fundi sínum í dag, og orðið sammála um afgreiðslu þess. Ég vil geta þess, að einn nm., Gils Guðmundsson, var fjarstaddur, þegar málið var afgreitt í n., en hann dvelur erlendis og hefur tafist þar vegna verkfalls.

Í n. var dálítið rætt um það, hvort setja bæri ákvæði í l. um meðferð hugsanlegs tekjuafgangs Viðlagasjóðs að Vestmannaeyjamálunum fulluppgerðum. Þetta var nokkuð rætt í n., en nm. urðu ásáttir um, að slíkt kæmi til aðgerða Alþingis á sínum tíma eðli málsins samkv., og fóru ekki inn á það að flytja brtt. við frv. í þessa stefnu. N. leggur sem sagt til, að frv. verði samþ. óbreytt.