31.10.1973
Neðri deild: 8. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

3. mál, Þjóðhagsstofnun og Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er flutt, gerir ráð fyrir, að sérstakri stofnun, Hagrannsóknastofnun, verði falið það verkefni að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarhússins, vinna að almennum hagrannsóknum og vera ríkisstj, til ráðuneytis í efnahagsmálum. Í reynd felur frv. í sér, að hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar verði breytt í sérstaka stofnun, og er þá gert ráð fyrir, að starfsaðstaða og starfslið deildarinnar færist til Hagrannsóknastofnunarinnar.

Með l. um Framkvæmdastofnun ríkisins 1971 var hagrannsóknadeild stofnunarinnar ákveðin sérstaða að því leyti, sem segir í 6. gr. l., að hún heyrir beint undir ríkisstj. Ástæðurnar til þess að marka deildinni þessa sérstöðu voru einkum tvær. Annars vegar var talið æskilegt, að almenn hagrannsóknastarfsemi hafi svo óháða stöðu sem kostur er. Hins vegar er sú staðreynd, að verkefni deildarinnar, einkum það að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarhússins, ráðuneyti við ríkisstj. í efnahagsmálum og almenn upplýsingaþjónusta á sviði efnahagsmála, eru afar umfangsmikil og falla að miklu leyti í sjálfstæðan farveg, sem er óháður annarri starfsemi Framkvæmdastofnunarinnar. Reynslan, sem hefur fengist á þeim tíma, sem Framkvæmdastofnunin hefur starfað, hefur staðfest nauðsyn sjálfstæðrar stöðu starfs hagrannsóknadeildar. Er eðlilegt að halda lengra í þá átt, sem mörkuð var fyrir stöðu deildarinnar með l. um Framkvæmdastofnun ríkisins, og í þeim tilgangi er þetta frv. um sérstaka Hagrannsóknastofnun flutt.

Ég vil leyfa mér að minna á það, að í framsögu fyrir frv., til l. um Framkvæmdastofnun á sínum tíma benti ég á, að reynslan kynni að leiða í ljós, að þörf væri á einhverjum endurbótum og hreytingum á hinni fyrirhuguðu löggjöf. Það var auðvitað ekkert óeðlilegt við það, að slíkt kæmi í ljós, þar sem farið var þá inn á nýjar brautir að verulegu leyti. Hér er einmitt um slíka breytingu að tefla, sem reynslan hefur að mínum dómi sýnt, að væri æskileg og það er auðvitað alltaf sjálfsagt að aðlaga sig, eftir því sem kostur er, að fenginni reynslu og breyta samkv. því.

Því hagkerfi, sem er háð svo örum sveiflum í náttúrufari og markaðsaðstæðum sem okkar hagkerfi, er mikil nauðsyn að hafa mikla árvekni við árferðisathuganir og hafa fljótt tiltækar upplýsingar og raunsætt mat á því, sem er að gerast í þjóðarbúskapnum. Jafnframt er afar mikilvægt að efla almenna hagskýrslugerð og almennar rannsóknir á samhengislögmálum efnahagslífs. Slíkar rannsóknir þurfa að hafa sjálfatæða stöðu, bæði til þess að þær megi njóta almenns trausts og til þess að fá þeim, sem að þeim vinna, hæfileg starfsskilyrði.

Frv. þetta er flutt til að staðfesta með formlegum hætti þá stöðu, sem hagrannsóknadeildin hefur með starfi sínu áunnið sér. Það er skoðun mín, að með flutningi þessa frv. sé verið að treysta undirstöðu skynsamlegrar hagstjórnar í landinu og jafnframt auðvelda hvers konar áætlunarstarf, því að undirstaða traustrar áætlunargerðar, bæði opinberra aðila og einkaaðila, er traustar almennar hagrannsóknir, sem verða verkefni Hagrannsóknastofnunar.

Ég skal þá aðeins með örfáum orðum víkja að einstökum gr. frv.

Í 1. og 2. gr. eru verkefni og staða stofnunarinnar ákveðin. Ákvæðin um verkefni eru í þessu frv., nokkru ítarlegri en hliðstæð ákvæði í l. um framkvæmdastofnun ríkisins og þau, sem áður voru, að því er varðaði Efnahagsstofnunina. Einkum eru hér skýrari ákvæði um hirtingu skýrslna, auk þess sem almennt þjónustuhlutverk stofnunarinnar við aðila vinnumarkaðarins er hér beinlínis tekið fram, en það er ekki síst á þeim vettvangi, sem þörf er sjálfstæðrar stofnunar, sem allir aðilar geta borið traust til. En ég hygg, að ekki sé ofmælt, að hagrannsóknadeildin og forstöðumaður hennar hafi notið fyllsta trausts aðila vinnumarkaðarins, og á það jafnt við um launþegahliðina, að ég ætla, og atvinnurekendahliðina. Ég hika ekki við að fullyrða, að á því sviði hafi hún þegar unnið mjög gott starf og vil segja jafnvel ómetanlegt starf, t. d. í sambandi við kjarasamninga og upplýsingar, sem hún hefur getað látið í té í sambandi við þá. Og það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, að hvort sem okkur líkar betur eða verr, skipa nú kjarasamningar hvers konar sinn stóra sess í okkar þjóðfélagi, og það skiptir því miklu máli, hvernig að þeim málum er staðið.

Auk hinnar almennu lýsingar á verksviði stofnunarinnar, sem er í 1. gr. frv. og þegar hefur verið gerð grein fyrir, eru í 2. gr. talin nokkur helstu verkefni stofnunarinnar. Það er:

1) Að færa þjóðhagsreikninga.

2) Að semja þjóðhagsspár og áætlanir.

3) Að semja og hirta opinherlega tvisvar á ári, vor og haust, yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum, þ. á m. um framleiðslu, neyslu, fjárfestingu, viðskipta- og greiðslujöfnuð, verðlag og kaupgjald, atvinnu og tekjur almennings, afkomu atvinnuvega og fjármál hins opinbera. Auk þess skal stofnunin koma niðurstöðum athugana sinna á einstökum þáttum efnahagsmála fyrir almennings sjónir, eftir því sem kostur er.

4) Að annast hagfræðilegar athuganir og skýrslugerð um efnahagsmál fyrir ríkisstj. og alþjóðastofnanir á sviði efnahagsmála, eftir því sem ríkisstj. ákveður, og fyrir Seðlabanka Íslands og Framkvæmdastofnun ríkisins, eftir því sem um semst.

5) Að veita aðilum vinnumarkaðarins upplýsingar um efnahagsmál og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir, eftir því sem um semst.

Reyndar má segja, að hér sé í reynd lýst verkefnum hagrannsóknadeildarinnar, eins og þau hafa verið og þróast á starfstíma hennar. Þannig hefur deildin t. d. þegar hafið útgáfu yfirlitsskýrslna tvisvar á ári um þjóðarbúskapinn, og kom hin þriðja út í, júlí s. l. og vonir á hinni fjórðu, haustskýrslu ársins 1973, um framvindu efnahagsmála 1973 og horfur 1974, í næsta mánuði. Þá hefur deildin hafið útgáfu fastra skýrslna um sjávarútveg og iðnað. Ég skal ekki fara nánar út í að lýsa starfsemi hagrannsóknadeildarinnar. Hv. alþm. hafa fengið þessi rit, sem nefnd voru og gefin hafa verið út, og ég hygg, að þeir geti um það dæmt, hver styrkur er að því að hafa slík rit og fá þau reglulega. Og í reyndinni hefur það orðið svo, að starfsemi hagrannsóknadeildarinnar hefur orðið að mestu einmitt, eins og ég áðan drap á, fyrir ríkisstj., ráðuneytisstörf fyrir hana og upplýsingastarfsemi fyrir aðila vinnumarkaðarins hvers konar. Að sjálfsögðu hefur hún svo einnig unnið undirstöðustörf fyrir Framkvæmdastofnunina, fyrir áætlanadeild hennar.

Í 3. gr. eru ákvæði um aðgang stofnunarinnar að upplýsingum. Þarna er um að ræða sams konar ákvæði og er að finna í fyrri löggjöf um þessi efni. Ákvæði um byggingarskýrslur er nauðsynlegt vegna skýrslna um fjárfestingu og byggingarstarfsemi.

Í 4. gr. er gert ráð fyrir, að ákveðin verkefni, sem falin voru Efnahagsstofnuninni og síðan Framkvæmdastofnun ríkisins, flytjist til Hagrannsóknastofnunar. Þessi verkefni eru í fyrsta lagi oddamannsstarf í yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins, forstöðumaður hagrannsóknadeildar gegnir nú þessu hlutverki. Í öðru lagi samkv. 1. mgr. 11. gr. l. nr. 59 1965, 8. gr. l. nr. 60 1965 og 4. gr. og 1. mgr. 62. gr. l. nr. 58 1967: umsagnar- og tillöguhlutverk um rafmagnsverð Landsvirkjunar, Laxárvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins og sæti í tækninefnd Orkustofnunar. Hér er um að ræða verkefni, sem hagrannsóknadeildin annast í aðalatriðum nú.

Í 5. gr. eru ákvæði um greiðslu kostnaðar, og þar er gert ráð fyrir, að kostnaður af rekstri stofnunarinnar verði borinn sameiginlega af ríkissjóði og Seðlabanka Íslands og að þeir geri með sér samning um fjármál stofnunarinnar. Í þessum samningi verði kveðið á um gerð fjárhagsáætlana og samþykkt þeirra af hálfu kostnaðaraðilans. Svo er nú um fjárhagsmál stofnunarinnar. Ríkissjóður og Seðlabankinn greiða nú ásamt Framkvæmdasjóði og Byggðasjóði kostnað af starfsemi Framkvæmdastofnunar. Með tilliti til meginverkefna Hagrannsóknastofnunarinnar virðist eðlilegt, að ríkissjóður og Seðlabanki í sameiningu standi straum af rekstrarkostnaði hennar. Sú breyting, sem með þessu verður á kostnaði og kostnaðarþátttöku aðila frá því, sem nú gildir um Framkvæmdastofnun, kallar að sjálfsögðu á nokkra endurskoðun á núv. skiptingu kostnaðar af rekstri hennar.

6. gr. felur í sér till. um samræmingu á ákvæðum l. um Framkvæmdastofnun ríkisins og ákvæði þessa frv. Í l. um Framkvæmdastofnun er helstu ákvæðin um hagrannsóknir að finna í II. kafla, þ. e. 6. gr. 1. Í 38. gr. l. er að finna almennt ákvæði um, að framkvæmdastofnun verði falin þau verkefni, sem Efnahagsstofnuninni voru falin með öðrum l., auk sérstaks ákvæðis um, að forstöðumaður hagrannsóknadeildar gegni hlutverki oddamanns í yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins. Í l. gr. þessa frv. er skýrt frá, hvaða verkefni skuli falin Hagrannsóknastofnun, en almennt ákvæði í 38. gr. l. um Framkvæmdastofnun stendur áfram. Önnur ákvæði l. um Framkvæmdastofnun ríkisins, sem varða hagrannsóknir og starfsemi hagrannsóknadeildar, en það, sem hér er beinlínis breytt, eru öll þess efnis, að af sjálfu leiðir, hversu skilja skuli, ef þetta frv. verður að lögum, svo sem t. d. ákvæði 1. gr. um hagrannsóknir og deildaskiptingu stofnunarinnar.

Þetta frv. felur í sér skipulagshreytingu, sem stefnir að því að efla hagrannsóknir og efla ráðgjöf í landinu, yfirsýn yfir viðburði, er varða landsins hag. Vandleg könnun á afleiðingum þeirra er forsenda skynsamlegra ákvarðana á sviði efnahagsmála og undirstaða alls áætlanastarfs. Þetta verður meginviðfangsefni Hagrannsóknastofnunarinnar. Það hefur verið meginverkefni hagrannsóknadeildarinnar að undanförnu, og hún hefur bæði samkv. lögum og í reyndinni fengið mjög verulega sérstöðu innan Framkvæmdastofnunarinnar, þannig að ég lít svo á, að með þessu frv., ef að lögum verður, sé að verulegu leyti verið að staðfesta þá framkvæmd, sem átt hefur sér stað.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.