26.02.1974
Sameinað þing: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (2156)

Umræður utan dagskrár

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég held, að það sé full ástæða fyrir þm. að fá úrskurð um það vald, sem forseti og forsetar hér á Alþ. eru að taka sér í sambandi við umr. manna hér. Ég skal viðurkenna, að ég hef ekki lesið þingsköpin það nákvæmlega, að ég geti bent á þá gr., sem þeir vitna til. En ég held, að það verði að fara að ganga úr skugga um, hvort er verið að beita þm. réttum þingsköpum eða ekki. Ég skal láta þetta nægja um þetta atriði í bili.

Það þarf lítið um að fjölyrða, að ástæðan fyrir því, að þetta mál var dregið hingað inn í þingsalina af formanni Alþb., er sú, sem hv. 2. þm. Reykv. benti hér á. Það er gripin um sig almenn hræðsla hjá þessum pólitíska flokki við þá undirskriftasöfnun, sem átt hefur sér stað. Og það, sem nú fer mest í taugarnar á honum, er, að það er verið að tryggja það, að skrárnar verði örugglega réttar. Það er alveg vitað, að þeir hafa ætlað sér að geta gagnrýnt það og kannske getað fundið einhvern þar, sem ekki væri með kosningarrétt, eða einhvern, sem væri tvískráður. En það er búið að tryggja það, að þetta verður ekki, með spjaldskránni, þess vegna verður hræðslan og vonskan út í þetta nú.

Ég skal aðeins skjóta því til gamans að hv. 5. þm. Vesturl., fyrst hann var að tala hér um 5. herdeildarmennina á Íslandi, að það situr kannske frekar á öðrum en honum að tala um þá. Hann stóð hér upp fyrir ekki mörgum árum, 3–4 árum, og benti á þá hættu, sem íslensku þjóðinni stafaði af því, að Íslendingur, sem væri búsettur í Bandaríkjunum, væri að ferðast um hans kjördæmi, Snæfellsnes, með alls konar njósnir í sambandi við skólamál og mál unglinga. Honum fylgdi jafnvel amerískur prófessor. Þessi ágæti maður er nú fyrir tilstilli m.a. þessa hv. þm. orðinn fræðslumálastjóri landsins, getur vel verið, að prófessorinn fylgi honum enn þá. Þetta var Bragi Straumfjörð. Ég minnist þess, að þm. stóð hér upp utan dagskrár og benti þingheimi á þá hættu, sem af þessu kynni að stafa. (JónasÁ: Hann hét Bragi Jósefsson en ekki Bragi Straumfjörð.) Hann hét Bragi Straumfjörð þá og heitir víst enn þá, en skrifar sig nú Jósefsson. Þetta sýnir aðeins, hvernig menn geta farið kringum sjálfa sig og gegnum sjálfa sig, þegar þeir eru að fikta við það að brigsla öðrum mönnum um landráð og annað slíkt, og ég held, að þeir ættu þá að skoða í eigin barm frekar en að brigsla öðrum um það.