26.02.1974
Sameinað þing: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Mér þykir harla athyglisvert, að hv. þm., formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, skyldi ekki á þeim tveim mínútum, sem hann talaði hér, eyða einu einasta orði að efni þess máls, sem hér er verið að ræða um. Hér er verið að ræða um það, að verið er að breyta almennri undirskriftasöfnun í allt annað en það, sem fólk hélt, að þarna væri um að ræða, og þar af leiðir, að það er bara að snúa sig út úr málinu að fara að tala um undirskriftasafnanir almennt fyrr og nú.

Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svör hans, sem ég taldi eðlileg, eins og á stendur, enda lofaði hann að íhuga tilmæli mín nánar. Ég lagði á það áherslu hér, að sett yrðu lög, sem banna, að nútímalegri tölvutækni sé beitt til þess að koma upp pólitískri spjaldskrá. Það er að sjálfsögðu framtíðarverkefni, spursmál, sem Alþ. verður að taka til athugunar. Það, sem nú er um að ræða aftur á móti og er í raun og veru kannske bara dagaspursmál, er, að stemma á að ósi. Ef tilgangurinn með því að gera þessa tölvuspjaldskrá er enginn annar en sá, sem hann er sagður vera, og t.d. sá, sem hv. 3. þm. Sunnl. nefndi hér áðan, þ.e.a.s. sá að kanna listana nánar, þá trúi ég ekki að óreyndu, að aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar fáist ekki til þess að afhenda þessi tölvugögn, sem ella geta orðið grundvöllur persónunjósna í stærri stíl en áður hefur þekkst hér á landi. Mér sýnist því eðlilegast að fara fram á það við forsrh., að hann beini þeim kurteislegu tilmælum til aðstandenda undirskriftasöfnunarinnar, að um leið og þeir afhenda listana, þá afhendi þeir öll gögn, sem gerð hafa verið, því að þá hlýtur að hafa verið búið að nota þau. Ég trúi því ekki að óreyndu, að allir hv. þm. geti ekki verið sammála mér um réttmæti þessara tilmæla.