26.02.1974
Sameinað þing: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2372 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Er aldrei bægt að standa beinn? Þarf alltaf að standa í keng? Ég veit ekki, hvort fleirum en mér hefur dottið í hug við þessi ummæli þessa hv. þm., þegar hann var svo borubrattur hér í stólnum að líkja Guðmundi Daníelssyni við Solzhenytsin skáld. Hann stóð ekki beinn þá. Þegar kemur að Sovétríkjunum, þá stendur þessi hv. þm. ekki beinn.

En út af því, sem hæstv. sjútvrh. sagði, hef ég tvennt við hann að segja. Í fyrsta lagi þetta: Ég man ekki betur en þessi hæstv. ráðh. hafi lýst því yfir hvað eftir annað úr þessum ræðustól, að Norðmenn og norska þjóðin hafi haft bein afskipti af íslenskum innanríkismálum. Og hvað er þetta annað en að sverta þá þjóð í hugum Íslendinga? Og hvernig stendur á því, að hæstv. sjútvrh. skuli koma með þetta hér upp í ræðustólinn eftir dúk og disk? Svo langar mig til að segja við þennan hæstv. ráðh. í öðru lagi, að hann hafði ekki algerlega sömu ummælin og hv. 5. þm. Vesturl., hæstv. sjútvrh., þegar hann var að bera mér á brýn eitt og annað hér í stólnum áðan og hafði ekki rétt eftir. Það, sem þessi hv. þm. sagði, var, að í skóla norska hersins væri það kennt, að íslensk ungmenni í Noregi væru hættuleg öryggi landsins. Þetta var það, sem þessi hv. þm. sagði. Hann sagði, að skóli, sem væri undir stjórn norska ríkisins, kenndi það, að íslensk ungmenni væru hættuleg öryggi Noregs. Ef þetta er ekki að sverta Noreg og norsku ríkisstj. í augum Íslendinga, þá veit ég ekki, hvað þetta er. Þá tala ég ekki sama tungumál og hæstv, ráðh.

Ég vil svo vekja athygli á því, að hv. 5. þm. Vesturl. tók hér aftur til máls án þess að gera grein fyrir því, hvað varð um undirskriftasafnanirnar, sem hann tók þátt í að safna gegn her í landi. Hvar eru þær niður komnar? Hvernig voru þær notaðar?