27.02.1974
Neðri deild: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2385 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það er kannske ekki ástæða til þess að ræða hér í löngu máli þá einkennilegu ræðu, sem hér var flutt, vegna þess að hv. þm. er kannske, eins og hann sagði, einn á báti og hann verður því að hafa það. En það, sem hann sagði hér, gat gefið til kynna, að haldið hefði verið á þessu máli á allt annan veg en gert hefur verið.

Það hafði komið hér fram í umr, á Alþ. nokkrum sinnum, að ríkisstj. hafði til athugunar, hvernig hægt væri að snúast við þeim vanda, sem upp var kominn með gífurlegri hækkun á olíuverði, þar sem það lá fyrir, að um helmingur landsmanna þarf að búa við það að hita húsnæði sitt með olíu, sem er orðin mjög dýr, á sama tíma sem um helmingur landsmanna býr við miklu hagstæðari kjör. Það hafði komið fram frá ég ætla öllum stjórnmálaflokkum, að hér þyrfti að gripa inn í og reyna að koma við leiðréttingu. Þingfl. Sjálfstfl. hafði m.a. ritað ríkisstj. bréf um, að hann væri reiðubúinn til samstarfs í þessum efnum, því að hér þyrfti að bregðast skjótt við, eins og sagði í bréfi flokksins, og hann skoraði á ríkisstj. að leggja fram till. til að draga úr þessum mikla aðstöðumun, sem upp kæmi. Flokkurinn lýsti sig þar andvígan því, að farið yrði að leggja á sérstakt orku gjald, þ.e.a.s. gjald á hitaveitur. Þar fór skoðun Sjálfstfl. alveg saman við skoðun ríkisstj. þegar hún hafði málið til athugunar, komst hún fljótlega að þeirri niðurstöðu, að það væri alrangt að fara þá leið.

Af þessum ástæðum var það, að ríkisstj. sneri sér til formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar og ræddi hugmyndir sínar við þá, og þeim var gerð grein fyrir því, hvernig ríkisstj. teldi, að eftir atvikum yrði helst hægt að bregðast við þessum vanda. Á þessum till. hefur ekki verið nein launung á neinn hátt, og væri hægt að sýna hv. þm. þessar hugmyndir, ef bann óskaði eftir því, því að fulltrúar hans þingflokks hafa fengið þessar hugmyndir.

Hér var um það að ræða, að gert var ráð fyrir því að fara þá tekjuöflunarleið í þessu skyni, sem m.a. hafði verið farin í sambandi við tekjuöflun til Viðlagasjóðs á sínum tíma, að leggja aukagjald á útsvör, sem næmi 10% á útsvör eða 1% á útsvarsstofn, og að þessi fjárhæð yrði notuð til þess að draga úr þessum mikla aðstöðumun, sem upp var kominn. Var gert ráð fyrir því, að tekjuöflun eftir þessari leið mundi gefa 550–600 millj. kr. á ársgrundvelli. Í viðræðum við fulltrúa stjórnarandstöðunnar kom í ljós, að þeir hölluðust að því að afla fremur teknanna í þessu skyni með því að nota annað prósentustigið af söluskatti, sem hafði runnið til Viðlagasjóðs, ef samkomulag tækist um, að Viðlagasjóður léti sér nægja 1%, en ekki 2% áfram, eins og till. var komin fram um. Það er því beinlínis svo, að sú tekjuöflun, sem er lögð til grundvallar í þessu frv., hefur komið fram í þeim viðræðum, sem átt hafa sér stað á milli ríkisstj, og fulltrúa stjórnarandstöðunnar, þar sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar lögðu áherslu á, að þeir óskuðu frekar eftir þessari tekjuöflunarleið en hinni, sem ríkisstj. hafði minnst á. En ég ætla, að allir sjái, að á því er tiltölulega mjög lítill munur, hvor leiðin er valin, þó að nokkrir aðilar komi þarna til með að borga viðbótargjald við söluskattsstigið, sem hefðu ekki þurft að borga það eftir útsvarsleiðinni, enda fæst með þessari söluskattsleið nokkru hærri fjárhæð.

Það hefur sem sagt tekist samstaða á milli stjórnmálaflokkanna hér um að velja þessa tekjuöflunarleið í þessu skyni, þar sem allir voru sammála um, að vandamálið þyrfti að leysa.

En það voru líka lagðar fram hugmyndir um það, hvernig ætti að standa að því að koma þessum greiðslum til þeirra, sem fyrir vandanum verða. Af skiljanlegum ástæðum komu þar upp mismunandi sjónarmið. Menn vildu gjarnan fá að athuga betur, hvort annar þáttur væri þar á hagkvæmari, og var engin fyrirstaða að fallast á það, að menn fengju lengri tíma til að athuga þær hugmyndir, sem fram hafa komið. Það er t.d. hægt að sýna þessum hv. þm., sem hér var að enda við að tala, þessar hugmyndir. Það er engin launung á því, og ég ætla líka, að þær eigi eftir að koma hér fram á Alþingi, hvernig réttast sé að dreifa fénu til þeirra aðila, sem hér verða hart úti. Ég heyri hins vegar á málflutningi þessa hv. þm., að hann er hér á allt annarri skoðun. Hann er á, að það eigi ekki að leysa olíuvandamálið, sem menn standa frammi fyrir, nema þá ríkisstj, viki frá völdum, og það eigi að reyna að stöðva jafnt þetta mál sem önnur, ef mögulegt væri. Hann er á þessari skoðun. Þessi skoðun hefur ekki komið fram hjá þeim fulltrúum stjórnarandstöðunnar, sem ríkisstj. hefur talað við um málið og gáfu sig strax fram og sögðu, að þeir væru viljugir til samstarfs um að leysa þetta sérstaka vandamál.

Það er auðvitað alger fjarstæða að tala um það, að hækkunin á olíuverði og sá mikil vandi, sem komið hefur upp gagnvart vissum aðilum í þjóðfélaginu af þeim ástæðan, standi eitthvað í sambandi við tekjur ríkissjóðs eða hinar almennu stjórnmáladeilur, sem eru uppi á Alþingi. Það má heita býsna furðulegt, ef þeir eru margir hér á Alþ., sem hafa þá skoðun, að það eigi ekki að reyna að leysa þann mikla vanda, sem þeir standa frammi fyrir, sem þurfa að hita upp húsnæði sitt með olíu, eins og nú er komið, heldur eigi að reyna að tvinna þau mál saman við aðrar deilur og jafnvel gersamlega óskyldar deilur. En það er mjög fróðlegt að fá að heyra það og sjá, að þeir menn eru einnig til á Alþ., sem slíka skoðun hafa.

Í sambandi við það, sem hv. 9. landsk, þm. sagði, að ég hefði svarað fsp. hv. 1. þm. Sunnl. á þann hátt, að það ætti að skilja ákveðið orð í frv. á allt annan veg en orðið segði til um, þá er hér auðvitað um hreinan útúrsnúning hjá þessum hv. þm. að ræða. Ég sagði ekkert á þá leið. Ég sagði, að það bæri að skilja orðið eins og orðið á að skilja, það er væntanlega skilið af öllum, að íbúðarhúsnæði er alveg ákveðið. Hins vegar sagði ég, bæði eftir að hafa hugleitt það sjálfur og borið míg undir aðra, að þó að frv. með þessu orðalagi sé hér samþ., tekur það engan rétt af Alþ. til þess að ákveða annað í síðari lögum, sem Alþingi setur. Auðvitað stendur það opið, þegar gjaldinu verður ráðstafað. Ef Alþ. vill ráðstafa því á enn annan hátt, hefur Alþ. alveg óbundnar hendur í þeim efnum. Það er það eina, sem ég hef sagt. En þessi gjaldtaka er gerð í því skyni að draga úr kyndingarkostnaði við íbúðarhúsnæði, og það er skoðun mín, að það eigi að binda þetta eingöngu við það. Hitt er alveg ljóst, að þegar frv. verður hér lagt fram um ráðstöfun á þessu fé og fyrirkomulag á greiðslunum, getur Alþ. ákveðið, að gjaldið skuli renna til fleiri aðila eða á annan hátt en hér er ákveðið. Það er ekkert slíkt vald tekið af Alþ. Þetta er það, sem ég sagði, og þannig ber vitanlega að skilja þetta, án þess að út úr orðum manns sé snúið á nokkurn hátt.

Það hefur komið hér fram áður, að m.a. hv. 1. þm. Sunnl. vill a.m.k. fyrir sitt leyti hafa það opið, að það sé hægt að ráðstafa þessu gjaldi til fleiri aðila en þeirra, sem hita upp íbúðarhúsnæði, Það er ekkert við því að segja. Hann athugar það á sínum tíma, hvort hann vill flytja till. um það eða ekki. En vegna þess, hvernig þessi gjaldtaka er og við hvað hún er miðuð, þá vil ég ekki:standa að því að flytja hér till. um annað en þessu sé varið í sambandi við íbúðarhúsnæði.

Ég skal svo ekki á þessu stigi efna til frekari umr. Það var auðvitað margt, sem kom fram hjá hv. 9. landsk, þm., af því tagi, að það hefði verið ástæða til að ræða það hér, en það mundi verða til þess, að umr. færu út á svo breiðan grundvöll, að ég skal ekki gefa frekari tilefni til þess. En ég legg á það mikla áherslu, að málið fái afgreiðslu í dag, svo að þessi gjaldtaka geti hafist strax um næstu mánaðamót og það söluskattsstig, sem hér er um að ræða að framlengja, falli ekki niður. Takist það ekki, sýnist mér, að komið sé í óefni, og þá er verið að fara með þetta mál þannig, að það sé verið að stefna því í beina hættu. Kemur þá auðvitað til mála, að ríkisstj. leggi fram sina till. um tekjuöflun og það verði þá að ráðast, hvernig það fer, hvort menn vilja leysa þetta vandamál eða ekki. En ég trúi því ekki, fyrr en ég tek á, að það samkomulag, sem gert hefur verið um þessa tekjuöflunarleið, eigi ekki eftir að standa við afgreiðslu þessa máls.