27.02.1974
Neðri deild: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2388 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Þrátt fyrir stjórnvisku þeirra, sem ráða ríkjum á hv. Alþ. og í ríkisstj. Íslands, vakti það nokkra athygli á fundi í hv. d. í gær, að mjög var tafsamt að koma fram frumvörpum ríkisstj. Hins vegar vakti það nokkra athygli, að til höfðu verið kallaðir sjónvarpsmenn og þeir höfðu stillt sér upp í þá gætt, sem þeir eru vanir að stilla sér upp i, væntanlega þá til þess að mynda það, sem fram færi á fundi, annaðhvort í Nd. eða Sþ. Allir fengu svo að vita, af hverju þeir höfðu verið boðaðir, þegar fundur hófst í Sþ., enda hafði hv. 5. þm. Vesturl., hv. þm. Jónas Árnason, oftlega gengið til þeirra sjónvarpsmanna og miðað út, hvort öruggt væri, að hitt yrði á ræðumann í ræðustól, þegar hann tæki til máls. En því miður voru þeir horfnir á braut, þegar hv. formaður Alþb., Ragnar Arnalds, og hann sjálfur tóku til máls, og verður því miður að lá sjónvarpinu það að birta ekki myndir af flokksbræðrum hæstv. sjútvrh., en hann kvartar mjög um það, að myndir komi fram af hans pólitísku andstæðingum.

En ég hef veitt því athygli, að sjónvarpið er aldrei kvatt til, þegar hæstv. ríkisstj. er að leggja fram nýjar till. um nýjar skattaálögur á vora þjóð. Ég sé þá aldrei standa hér í gættinni, þegar hæstv. ráðh. leggja fram till. um það: Við skulum bæta 1% í dag við söluskattinn, við skulum bæta við 5% á morgun, við skulum leggja fram þennan skattinn í kvöld og svo annan í fyrramálið, — enda sé ég, að hv. fjármálaspekingur Framsfl. borar upp í nefið á sér núna, því að hann veit ekki, í hvora löppina hann á að stiga, þegar hann er beðinn um að flytja þetta fram á hv. þingi.

Nú skal ég taka það fram, að ég, eins og aðrir þm. Sjálfstfl., var sammála um það, og er sammála um það, að við þurfum og þurftum að koma til móts við þann mikla vanda, sem blasti við þjóðinni, þegar hinar miklu olíuhækkanir skullu yfir. En ég held, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. viðskrn. verði að svara þeirri spurningu, um leið og þetta frv. á að ná fram, hvort þetta sé jafnnauðsynlegt nú og það var þá. Við hvað var miðað og hvað er fram undan í þessum viðskiptum? Alls staðar kemur sú hin sama spá fram, að olíuverð muni lækka á næstunni. Ef svo er, þá finnst mér, eins og hv. 9. landsk, hv. þm., Ellert B. Schram, tók fram, að það vanti ekki einungis ákvæði um það, hvernig eigi að nýta þetta fé, sem kemur inn vegna þess söluskatts, sem nú á að leggja aftur á þjóðina, heldur vanti máske líka ákvæði um það, hvernig eigi að nýta, ef eitthvað verður þarna afgangs. Eða mættum við kannske eiga von á bótum, ef olíuverð lækkaði það mikið, að olíuhitun gæti orðið ódýrari, ef um fjölmenna fjölskyldu væri að ræða, fyrir jafnfjölmenna fjölskyldu, sem býr á hitaveitusvæði?

Það eru margar spurningar, sem hljóta að koma upp í sambandi við þetta mál, og ég held og tel persónulega, að það sé ekki hægt að afgreiða það öðruvísi en frv. um það, hvernig eigi að innheimta og hvernig eigi að útdeila þessu fé, liggi fyrir jafnframt.

Til þess að undirstrika enn betur þá skoðun mína, að ríkisstj. sjálf geti ekki talið jafnmikla alvöru fylgja hækkun olíuverðs á heimsmarkaði og áður var, bendi ég á nýgerða kjarasamninga verkalýðsfélaganna. Það er ekki ýkjalangt liðið, síðan ríkisstj. beitti sér fyrir samkomulagi við opinbera starfsmenn, sem m.a. byggðist á þáverandi heimsmarkaðsverði á olíu. Í sambandi við nýgerða samninga Alþýðusambands Íslands, — eða hluta Alþýðusambands Íslands, því að enn eru margir kjarasamningar ógerðir, — hefur ekki verið minnst á olíuverð á heimsmarkaði einu orði og reyndar nýgerðir samningar farið langt fram úr því, sem gert var við opinbera starfsmenn, þannig að í fljótu bragði mætti ætla, að þessi vá væri ekki fyrir dyrum, eins og var á sínum tíma.

Þegar rætt var í þingfl., a.m.k. í mínum þingfl., um þessa vá, sem fyrir dyrum var þá og að sjálfsögðu er enn þá, — því að það viðurkenna allir menn, að á móti þessum vanda verður og á að koma, en okkur er auðvitað ekki sama, hvernig það eigi að gerast, — þá sagði ég m.a. við mína flokksbræður og systkin, að ég teldi ekki rétt, að lagður yrði á hitaveituskattur, það ætti ekki að refsa okkur hér í Reykjavík, Húsavík eða Sauðárkróki fyrir að hafa lagt á okkur sjálf skatt á undanförnum árum til þess að nýta þau landsgæði, sem við búum við og auðvitað hafa skapað búsetu á þessum stöðum og mest fjölmenni hér, vegna þess að landsgæðin eru mest. Það á ekki að leggja á okkur aukaskatt fyrir að hafa gert þetta, eins og ég sagði. Hitt er annað mál, að þeir, sem búa við betri kjör í þessu landi, hvort sem farið er eftir búsetu eða eftir öðrum kjörum, eiga að koma á móti, þegar bregður til hins verra fyrir aðra, og hjálpa þeim, þegar þannig stendur á, og því er ég með því, að þessi skattur verði lagður á þjóðina. En mér er ekki sama, hvernig honum verður útdeilt. Ég tel ákaflega varasamt, að honum verði útdeilt á þann hátt, eins og hugmyndir hafa komið fram um, einfaldlega vegna þess að ég held, að það verði um mikla misnotkun þar að ræða. Ég fæ t.d. ekki séð, hvers þeir eigi að gjalda, smáatvinnurekendur, þó að við undanskiljum alla aðra, eins og vörubilstjórar, þeir, sem gera út sína trillu hvort sem hún er gerð út frá Norðfirði eða annars staðar, eða þeir, sem þurfa að nýta sína traktora, hvort sem það er í Rangárvallasýslu eða annars staðar, eða heyvinnuvélar eða annað þess háttar. Og því má jafnvel bæta við, að það getur verið margt nauðsynlegt húsnæði, sem þarf að nýta, annað en íbúðarhúsnæði. Það getur verið sameiginlegt húsnæði félaga, félagasamtaka, það geta verið félagsheimili. Af hverju skyldi ekki mega greiða niður olíu hjá slíkum aðilum, sem virkilega þurfa á því að halda ekki síður en margir einstaklingar, sem búa í sínum einkaíbúðum? Mín fyrsta skoðun var því sú, að auðvitað ættum við að nýta það fé, sem inn kæmi, til þess að lækka olíuverðið og um leið ættum við að hjálpa íbúðareigendum að sjálfsögðu fyrst og fremst. En við þyrftum að líta til margra annarra um leið. En það, sem ríkisstj. er að fara, er þetta, að hún vill halda vísitölu niðri, og þess vegna er farið inn á þessa leið. Það er gott og vel. Auðvitað hljótum við allir að reyna að hjálpa aumingja ríkisstj. við að ná þeim árangri, og ekki skal standa á mér við það. En ég held samt sem áður, að við þurfum að líta á ýmsa meinbugi, sem koma fram um framkvæmd þessa máls, og ég held, að við ættum að flýta okkur hægt í þessu máli og við þyrftum hér í hv. þd. að fá að ~sjá, hvernig ríkisstj. hyggst útdeila þessu fé, þegar skatturinn verður kominn á.

Ég endurtek spurningu mína til hæstv. félmrh.: Ef afgangur skyldi verða, hvernig verður hann nýttur? Og ég endurtek aðrar spurningar mínar og þá kannske að síðustu þá spurninguna: Hefur hæstv. ríkisstj. og þá sérstaklega hæstv. viðskrh. leitað eftir því, hvort við getum náð fram kaupum á olíu á lægra verði en við höfum keypt hana á að undanförnu? Og kannske er það meginmál og mál málanna, hvort við getum ekki náð betri samningum um kaup á olíu en við höfum notið að undanförnu.