27.02.1974
Neðri deild: 70. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2392 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í umr. um þetta mál, en stóð upp vegna þess, að mér fannst gæta alvarlegs misskilnings hjá hv. 10. þm. Reykv. um samband sjónvarps og Alþingis, og máske eru fleiri hv. þm. þannig settir, að þeir vita ekki til fulls, hvernig því er háttað, og því tel ég rétt að upplýsa það. Sjónvarpsmenn eru ekki kallaðir hingað á Alþingi. Sjónvarpið ræður því alveg sjálft, hvenær það sendir sína fulltrúa hingað. Á hinn bóginn er það skoðun mín, og ég hygg, að mér sé óhætt að segja skoðun forsetanna, að þetta ætti að vera sem oftast. Þeir vita það vel hjá sjónvarpinu a.m.k., að það er mín skoðun, að þeir ættu að koma hér sem oftast. En þeir ráða því á hinn bóginn alveg sjálfir, hvenær þeir koma. Það er nauðsynlegt, að þetta sé alveg skýrt. Og þetta álít ég heilbrigða reglu. Ég álít að sjónvarpið eigi að meta það sjálft, hvenær það vill taka upp efni hér á Alþingi, og Alþingi eigi ekki að fara út á þá braut að panta sjónvarpið hingað. Þetta er reglan, og þetta vil ég, að sé alveg ljóst.