17.10.1973
Efri deild: 3. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

11. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég vildi undir þessum dagskrárlið í sambandi við brbl. um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu aðeins víkja að því, enda þótt það heyri ekki undir hæstv. sjútvrh., varðandi varðskipin eða vörslu landhelginnar, að það er þrálátur orðrómur um, að það hafi verið slakað verulega til í sambandi við gæsluna á svæðum nær landinu og sérstaklega hér t. d. í Faxaflóa. Það er kannske eðlileg afleiðing af því, að okkar fáu varðskip hafa mikil verkefni á fjarlægari miðum við að gæta 50 mílna landhelginnar. En það hefur verið um það rætt, sérstaklega á meðal sjómanna, hvort af opinberri hálfu væri ekki hægt á ódýrari hátt að ráða minni skip til vörslu, sem kæmu að fullum notum til þess að gæta landhelginnar, t. d. í Faxaflóa og á öðrum þeim svæðum, sem liggja nær landinu. Það mundi gera að verkum, að hin stærri varðskip væru óháðari eða þyrftu ekki að verja eins miklum tíma til þess að passa þessi svæði, þegar þau hafa miklum skyldustörfum að gegna í sambandi við 50 mílna vörsluna, sem vitanlega á sér stað á allt öðrum fiskisvæðum en hér er um að ræða.

Þá vildi ég líka spyrja hæstv. ráðh. um það, hvað hann hugsar sér til umbóta í sambandi við það, sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson kom hér með áðan og ráðh. viðurkenndi, að það væri mjög ábótavant í sambandi við eftirlit með veiðarfærunum, — hvort hæstv. ráðh. hefði gert sér grein fyrir því, hvað það væri, sem hann mundi hlutast til um í þeim efnum.