27.02.1974
Efri deild: 67. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

242. mál, gjald til að draga úr áhrifum olíuverðhækkana

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Frá afstöðu okkar sjálfstæðismanna hefur verið skýrt í Nd., og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það í þessari deild. En að gefnu tilefni síðustu orða hæstv. viðskrh. vil ég ekki láta undir höfuð leggjast, að það komi fram, að vegna stefnu ríkisstj. í verðlagsmálum Hitaveitu Reykjavíkur og vegna tregðu hennar á afgreiðslu á beiðnum Hitaveitunnar til að geta haft það verðlag, sem legði grundvöll að frekari hitaveituframkvæmdum, hafa hitaveituframkvæmdir í næsta nágrenni Reykjavíkur tafist um marga mánuði, jafnvel meira en heilt ár. Það er mjög illa farið og mjög miklir fjármunir, sem þar hafa farið í súginn. Nú hefur ríkisstj. hins vegar séð að sér, en ekki fyrr en nú á þessum vetri, eftir að olíukreppan hófst, og afgreitt í bili beiðni Hitaveitunnar, sem fyrir lá um hækkun á hitaveitugjöldum, og beiðni Hitaveitunnar um leyfi til lántöku, sem ætti að vera til þess fallin, að nú væri unnt að hefja framkvæmdir af fullum krafti. Hins vegar er ekki fyrir það að synja, að núverandi taxtar Hitaveitunnar eru bundnir verðlagi, eins og það var í okt. eða nóv. s.l., en það hefur farið mjög hækkandi síðan, þannig að búast má því miður við, að nauðsynlegt verði að hækka enn hitaveitugjöldin. Þau eru samt sem áður miklum mun lægri en kostnaður manna af olíukyndingu eða rafmagnshitun. Er því engum blöðum um það að fletta, að það, sem skiptir mestu máli til lengri framtíðar til úrlausnar á þessu vandamáli, er að flýta hitaveituframkvæmdum, og með því að flýta þeim á höfuðborgarsvæðinu er hægt að auka fjölda þeirra, sem njóta þess hagræðis, sem hitaveita hefur í för með sér, og spara þúsundir og jafnvel tugi þúsunda.

Ég vonast til þess, að hæstv. ríkisstj. standi ekki frekar í vegi fyrir hitaveituframkvæmdum en hún hefur þegar látið á sig sannast.