28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2408 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

199. mál, öryggi sjómanna á loðnuveiðum

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 349 leyft mér að leggja eftirfarandi fsp. fyrir samgrh.:

„1. Hvaða reglur gilda um hleðslu íslenskra fiskiskipa.

2. Er þeim reglum fylgt t.d. á loðnuveiðum?

3. Er fylgst með hæfni fiskiskipa af minni gerðum til þess að beita hinni viðamiklu loðnunót?“

Nokkrum dögum eftir að loðnuvertíð hófst, gaf að líta í dagblaði mynd af veiðiskipi, er var á leið til hafnar drekkhlaðið af loðnu. Manni virtist, að aðeins hnýfill og hekk stæði upp úr. Þegar manni verður svo hugsað til þess, að þessi skip þannig hlaðin sigla klukkustundum saman, jafnvel heilan sólarhring, stundum jafnvel umhverfis hálft landið gegnum verstu straumrastirnar í misjöfnu veðri, þá undrast maður í raun og veru, að slysin skuli ekki vera fleiri en þau eru. Á hverri vertíð verða þó óhöpp fleiri en eitt, þótt blessunarlega sjaldan hljótist manntjón af. Þó hefur því miður gerst á þessari vertíð, að mannslíf hefur tapast og skip sokkið. Augljóst virðist þó, að oft skellur hurð nærri hælum hjá þeim sjómönnum, sem þarna starfa. Fyrsti hluti fsp. beinist þess vegna að því að fá upplýsingar um það, hvernig reglum varðandi hleðslu fiskiskipa sé hagað.

Loðnuvertíðin fer fram á erfiðasta og hættulegasta tíma ársins, þegar allra veðra er von. Vegna ört vaxandi verðlags á loðnu og tregfiskis á öðrum veiðum hópast nú skipin okkar, stór og smá, á loðnuveiðar. Þau munu hafa verið 65 í fyrra og nú munu þau yfir 134. Hluti af okkar loðnuskipaflota er nýlegur, stór skip, gerð til þess að flytja mikinn afla að landi, skip, þar sem lestar eru vel hólfaðar og lokun örugg. Þrátt fyrir þetta má þó rýra öryggi og sjóhæfni þessara skipa með dekklest og háum skjólborðum, þannig að sjór og afli eigi örðugt með að renna nógu ört út, þótt nauðsyn krefji. Fleiri eru þó þau hin smærri skipin, þar sem ekki er unnt að gera jafnfullkomnar öryggisráðstafanir, og enn fremur skip, sem hafa verið lengd og lestar þannig stækkaðar, en slíkar breytingar á burðarhæfni geta haft mikil áhrif á sjóhæfni skipanna. Þessi skip hafa opna ganga, þar sem erfitt reynist að fyrirbyggja, að sjór geti komist inn í skipið. Þau eru einnig mjög viðkvæm, ef lestir eru ekki fullar. Þá getur farmur slegist til, og loðnan er jafnvel verri en síldin að því leyti, að hún liggur eins og klessa. Þess vegna er b-liður fsp. minnar: Hvernig er háttað eftirlíti með því, að reglum sé framfylgt?

Minnstu loðnuskipin eru án efa þau varasömustu, og þeim hefur fjölgað mjög nú á þessari vertíð. Vegna grófs garns og vegna þess, hve loðnunótin er þétt riðin, er hún mörgum sinnum þyngri en síldarnót af sömu stærð. Á síldarárunum veittist mörgum bátum erfitt að verjast áföllum, þegar verið var að spila inn nótina. Þess vegna er mjög líklegt, að þarna sé viðkvæmur punktur hjá litlu loðnubátunum. Það hlýtur því að vera mikil nauðsyn að hafa sem fullkomnasta þekkingu á hæfni bátanna og mikil ástæða til, að eftirlit sé gott, einkum þegar verið er að draga þunga nót fulla af niðþungri loðnu. Þess vegna spyr ég: Hefur athugun farið fram á hæfni litlu bátanna til að meðhöndla loðnunótina?