28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2419 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

214. mál, fjölgun starfsmanna í stjórnarráðinu

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á því í tilefni af því, sem hv. 3. landsk. þm. sagði, að einmitt með því að færa inn til ríkisbókhaldsins, ríkisfjárhirslurnar og til endurskoðunarinnar stofnanir, sem áður höfðu sjálfstætt bókhald og sjálfstætt uppgjör, hefur verið dreginn saman mannafli hjá slíkum stofnunum og komið í veg fyrir fjölgun hjá öðrum. Ég greindi frá því, að um 70 slíkar stofnanir hefðu verið teknar inn til þessara starfsgreina, sem ég nefndi hér áðan, svo að það getur átt við, sem hv. 3. landsk. þm. benti á, að ríkisbáknið sé dregið saman, þótt þessi fjölgun hafi átt sér stað þarna.