28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2426 í B-deild Alþingistíðinda. (2232)

217. mál, regnbogasilungseldi Skúla Pálssonar

Fyrirspyrjandi (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. hans ágæta svar. En ég verð að segja, að það hefði ekki alltaf þótt aðgengilegt eða gott, ef grunur væri um smitnæman sjúkdóm, hvort sem væri í mönnum eða dýrum, að vera 23 ár að komast til botns í því, hvort um þennan sjúkdóm væri að ræða eða ekki. Ég hef alltaf haldið, ef grunur væri um smitandi sjúkdóm, að eitt höfuðatriðið væri að komast sem allra fyrst að niðurstöðu um, hvort sjúkdómurinn væri fyrir hendi. Er það ekki aðeins vegna þess, sem dýrin á eða fiskana, heldur vegna fjölda annarra, allra þeirra, sem við fiskrækt fást í landinu.

Ég vil taka það fram, að ég held, að það sé algerlega ósannað, að heilbrigðisvottorð hafi ekki fylgt hrognum Skúla, þegar þau komu upp. Hitt er svo annað mál, að þetta vottorð fyrirfinnst hvergi. En annað eins hefur komið fyrir á Íslandi og að eitt vottorð gæti farist fyrir í meðferð opinberra stofnana, ekki síst þar sem skipt var um stofnun, sem hafði með þessi mál að gera, á tímabilinu.

Ég vil leggja áherslu á, að það er ekki óeðlilegt, þó að Skúli Pálsson sé að gefast upp á eldi þessa fisks. Hann er búinn að leggja í þetta mikið fjármagn, og mér finnst það vera mjög erfitt, ef hann á að biða endalaust eftir því, að hægt sé að ganga úr skugga um, hvort fiskurinn sé sýktur eða heilbrigður. Og ég vil sérstaklega taka þetta fram vegna þess, að ég held, að það séu alveg sérstaklega góðar aðstæður til þess að finna út, hvort um sjúkdóm geti verið að ræða, þar sem veirusjúkdómastofnun er á næsta leiti, og reyndar, eins og kom fram í svari ráðh., mun vera tekið til við að rannsaka þetta. En ég vil líka segja það, að ég hef haft samband og persónulega talað við aðila úti í Danmörku, sem hefur haft regnbogasilung frá Skúla Pálssyni í tvö ár í sinni stöð og hefur látið gera veirusjúkdómarannsóknir á stofninum og allar þær rannsóknir, sem gera þarf og krafist er þar, og hann álitur þennan stofn fullkomlega heilbrigðan. Ég held, að það væri ekki úr vegi, að rn. leitaði sér upplýsinga hjá þessum aðilum, ekki bara um heilbrigði stofnsins hjá Skúla, heldur einnig hvers virði er að eiga þennan heilbrigða stofn hér á landi og eiga kost á að selja hrogn til útflutnings næstu ár.

Þessi misskilningur eða hvað á að kalla það með heilbrigðisvottorðið byggist á því, að enda þótt Skúli Pálsson kunni að geta fengið heilbrigðisvottorð hjá fisksjúkdómanefnd, þá getur hann ekki fengið fullkomið heilbrigðisvottorð. Ef ég vil fá vottorð um heilbrigði manns, er ekki nóg, að ég fái vottorð um, að hann sé ekki holdsveikur, og það er sama, sem skeður hér. Ég býst við, að Skúli geti nú orðið fengið vottorð um það, að fiskurinn hans hafi ekki kýlapest. En hins vegar getur hann ekki fengið vottorð um, að hann hafi ekki veirusjúkdóma, og meðan svo er, er útilokað, að hann geti fengið sín hrogn seld eða flutt til útlanda. Þetta ætti nú öllum okkar yfirmönnum á þessu sviði að vera ljóst, að Skúli getur ekki heldur selt matarfisk til þeirra landa, sem eru mjög varfærin á þessu sviði.

Á sama hátt er það hjá okkur. Ef gin- og klaufaveiki kemur upp í einhverju landi eða ef grunur er þar um, þá er útilokað að ætla sér að flytja eina pylsu frá því landi eða nokkra þá vöru, sem gæti á nokkurn hátt borið með sér smitið.

Ég vil leggja áherslu á það, að þessi árafjöldi ætti að vera besti mælikvarðinn á það, hvort fiskurinn er sjúkur eða heill. Ef hrognin hefðu í upphafi verið sjúk, hvers konar ástand búast menn við, að væri í okkar fiskræktarmálum? Verið er að varast þessa sjúkdóma einmitt vegna þess, að þeir smita gjarnan frá sér og eyðileggja stofna, sem heilbrigðir eru.

Það verður ekki rætt til fullnustu um þetta á þessum vettvangi. Ég vil þó geta þess, að einmitt vegna þessa gruns hefur ýmiss konar misskilningur komið upp og varfærni gagnvart fiskum Skúla, þannig að þetta hefur að sjálfsögðu haft mjög alvarleg áhrif á alla hans starfsemi þessi mörgu ár. Það væri kannske nægjanlegt að geta um grein sem birtist í dagblaðinu Tímanum nú nýlega, þar sem þessum regnbogasilungi var líkt við minkinn. Og í Morgunblaðinu nýlega telur veiðimálastjóri, að svo geti verið, að stangveiðimenn í íslenskum ám gjaldi þess, að hrogn voru flutt inn frá Danmörku fyrir 23 árum.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. En mér finnst, að mjög sé óvenjulegt, hvernig að hefur verið farið hér, og það er fyrst og fremst ámælisvert, hve langur tími hefur farið í að rannsaka þetta mál.