28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2428 í B-deild Alþingistíðinda. (2234)

217. mál, regnbogasilungseldi Skúla Pálssonar

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem fram hefur komið í ræðu tveggja síðustu hv. ræðumanna, vil ég taka það fram, að að sjálfsögðu fer ég ekki út á það hála svell að svara í þessu máli, sem er sérfræðilegs eðlis. Ég efast ekkert um, að hv. þm. Oddur Ólafsson, 3. þm. Reykn., gerir sér grein fyrir því, að hann muni ekki sem læknir vilja láta ólæknisfróðan mann segja sér fyrir verkum í einu eða neinu, sem að slíku starfi lýtur. Þess vegna vil ég taka það fram, að niðurstaða mín, meðan ég er landbrh., hlýtur að byggjast á áliti þeirrar n., sem fer með þessi mál og lög ákveða, að skuli gera það, því að ég ætla ekki að taka á mig þá ábyrgð, sem fólgin væri í því að reyna að grípa fram fyrir hendur slíkrar sérfróðrar nefndar.

Hins vegar vil ég segja það, að mín persónulegu afskipti af þessum málum sem ráðh. hafa verið þau, að á s.l. vetri komu til mín Skúli bóndi á Laxalóni og lögfræðingur hans, sem mun heita Sveinn, og ræddu þetta mál við mig. Ég hafði tal af yfirdýralækni morguninn eftir, og árangurinn af því varð sá, að þá þegar var leitað til dönsku stöðvarinnar, sem hafði með veirurannsóknir að gera, þar sem sjáanlegt er, að hér á landi er hvorki vegna mannafla né kostnaðar hægt að koma upp slíkri stöð nú. Þetta tel ég, að hafi verið gert af minni hendi eins fljótt og vel og mögulegt er. Og ég vona, að sú rannsókn, sem þessi stöð innir af hendi, leiði til niðurstöðu í þessu máli. En að sjálfsögðu mun ég halda mig við álit sérfræðinganna hér um, því að annað tel ég mér ekki fært.