28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2430 í B-deild Alþingistíðinda. (2236)

417. mál, athuganir á Sandárvirkjun

Heilbr._ og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég hef beðið Orkustofnun að svara fsp. hv. þm., og er svar hennar á þessa leið:

Með 1. nr. 65 frá 8. maí 1956 var ríkisstj. heimilað að fela Rafmagnsveitum ríkisins að virkja Sandá í Þistilfirði til raforkuvinnslu í allt að 2900 hestafla eða 2134 kw. orkuveri og leggja frá því aðalorkuveitu til Þórshafnar og Raufarhafnar eða leggja aðalorkuveitu frá Laxárvirkjuninni um Norður-Þingeyjarsýslu. Svo sem kunnugt er, hefur þessi næstum því 20 ára virkjunarheimild ekki verið notuð, en í þess stað hafa Rafmagnsveitur ríkisins lagt aðalorkuveitu frá Laxárvirkjun til Þórshafnar og Raufarhafnar.

Áður en áðurnefnd lagaheimild var samþ., lét raforkumálastjóri gera frumáætlun um virkjun Sandár. Nokkrar, en mjög takmarkaðar mælingar voru gerðar sem grundvöllur þeirrar frumáætlunar. Engar jarðfræðirannsóknir munu hafa legið fyrir, þegar áætlunin var gerð. Þessi áætlun er að sjálfsögðu úrelt fyrir löngu. Heppilegra þótti að leggja orkuveitu frá Laxá. Frekari rannsóknir hafa engar farið fram síðan við Sandá, þó með þeirri mikilsverðu undantekningu, að reglubundnar vatnamælingar hafa verið gerðar við Sandá allt síðan 1956, en vatnamælingar eru jafnan tímafrekasti þáttur virkjunarrannsókna. Ef taka ætti virkjun Sandár til endurskoðunar, liggur þessi veigamikli þáttur fyrir, en allt annað er ógert. Óhjákvæmilega yrði að endurskoða virkjunartilhögunina frá 1956 frá rótum, þar eð nú yrði virkjað inn á allt Norðurlandskerfið, en ekki eingöngu fyrir Raufarhöfn og Þórshöfn, eins og ráðgert hafði verið 1956. Nauðsynlegt yrði að kortleggja mun stærra svæði en áður, og rannsaka verður jarðfræðialistæður. Raunar er þess að vænta, að þær séu góðar, þegar á heildina er litið, en samt er ekki forsvaranlegt að ráðast í virkjun án þess að kanna það.

Örðugt er að segja nákvæmlega til um, hve langan tíma þessar rannsóknir taka, en varla er þó unnt að ljúka þeim á skemmri tíma en tveimur sumrum.

Ekki er þess vænst, að Sandá gefi ódýra raforku á þann mælikvarða, sem nú á tímum verður að miða við, þ.e.a.s. verð frá allt að 10 sinnum stærri virkjunum en um yrði að ræða við Sandá. Þetta er ástæðan til þess, að Sandá hefur ekki verið rannsökuð, síðan hætt var við virkjun þar upp úr 1956.

Virkjun Sandár er ekki fljótvirk lausn á orkuvanda Norðurlands ná, svo sem ljóst verður af því, sem hér að framan er sagt um nauðsynlegan rannsóknartíma. Að auki mundi hún duga skammt fyrir allt Norðurland, jafnvel þótt hún yrði höfð mun stærri en ráðgert var 1956.

Þess skal getið hér, þótt það snerti ekki fsp. beinlínis, að mestu vatnsorkuna á Norðausturlandi er væntanlega að finna í ám, er falla til Vopnafjarðar. Þar er allmikil vatnsorka tæknilega virkjanleg, en fátt bendir til, að virkjunarstaðir þar standi samanburð hvað kostnað varðar við þann hluta vatnsaflans í landinu, sem hagkvæmastur er.