28.02.1974
Sameinað þing: 62. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2431 í B-deild Alþingistíðinda. (2237)

417. mál, athuganir á Sandárvirkjun

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. iðnrh. greið svör við fsp. minni. Ég hef ekki miklu við þetta að bæta. Það er að sjálfsögðu Orkustofnunin, sem er sá aðili í landinu, sem fæst við þessar rannsóknir og á að meta slíkt og vega, hvert rétt sé að beina rannsóknum, og ég er ekki með neitt vantraust á hana í því efni. Ég get aðeins getið þess, að það er eins og ég sagði fyrr, það er áhugi á þessu í héraðinu. Mér er kunnugt um að heimamenn hafa litið svo til, að þetta gæti e.t.v. verið tiltölulega skjótvirk lausn og eins konar tryggingarvirkjun fyrir ákveðið svæði, sem er tengt við aðalorkuverið eða stærra orkuveitusvæðið með línum, sem hafa reynst tiltölulega veikar. Að þessum upplýsingum fengnum munu heimamenn væntanlega endurskoða afstöðu sína, og er ekki gott að segja, hvort meira verður gert í málinu eða ekki.