04.03.1974
Neðri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2434 í B-deild Alþingistíðinda. (2243)

244. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta mál úr hófi fram. Ég tek undir það með hæstv. sjútvrh., að þetta mál er þess eðlis, að því þarf að hraða í gegnum þingið, og hefði raunar þurft að vera fyrr á ferðinni. En ég get ekki tekið undir það með honum, að þetta sé svo lítilvægt atriði eins og fram kom í ræðu hans. Hér er m.ö.o. um það að ræða, að á 515 ferkm. svæði í geirum, sem eru utan 12 mílna radíusar sitt hvoru megin við Grímsey, er Bretum heimilt að veiða með botnvörpu fyrir Norðurlandi, en ekki Íslendingum, samkv. núgildandi lögum og samningunum við Breta. Hér er því um mál að ræða, sem er ekki lítilvægt, en ástæða til að undirstrika, að þurfi að leiðrétta hið bráðasta.

En í sambandi við þetta mál vil ég gjarnan spyrja hæstv. ráðh., hvernig hann hugsar sér að framkvæma reglur, sem eru misjafnar gagnvart Bretum og Íslendingum við Suðvesturlandið. Það er heimilt fyrir Íslendinga að veiða á Selvogsbanka frá 20. mars til 20. apríl, en fyrir Breta frá 20. mars til 1. maí, að mér skilst, þannig að þar er um að ræða, að Bretar hafa heimild til þess að veiða á einhverju viðkvæmasta hrygningarsvæði við landið lengur en Íslendingar með botnvörpu samkv. núgildandi lögum og reglugerðum. Ég vildi spyrja hæstv. ráðh., hvað hann hugsaði í þessum efnum, hvort hann hugsaði sér að knýja Breta til að virða þetta svæði jafnlangan tíma og Íslendingar.

Þá vildi ég einnig spyrja hæstv. ráðh. í tengslum við þetta mál, hvað hann hygðist gera út af nótaveiði við Norðurland. Eins og hv. þm. er kunnugt, hafa smærri bátar við Norðurland — haft heimild til að veiða þorsk í nót fram að þessu ári, en eftir þetta ár skyldi því hætt samkv. reglugerð, sem sjútvrh. hafði gefið út. Nú er þarna um að ræða verulegan flota smærri báta, sem hafa sáralitla möguleika á annarri veiði á ákveðnum árstíma en með þessu veiðarfæri. Því hefur stundum verið haldið fram, að í þetta veiðarfæri veiddist minni fiskur en í önnur veiðarfæri. En þeir, sem að því standa, telja, að það sé rangt, og hafa margoft óskað eftir fiskifræðilegum athugunum á því, hvort veiðarfæri þeirra drepi meiri smáfisk en önnur. Mér er ekki kunnugt, að þessar athuganir hafi farið fram, heldur ganga klögumálin á víxl í þessum efnum, og þetta tel ég alveg ótækt. Ég lít svo á, að ef eigi að gera svo afdráttarríkar ráðstafanir, sem algert bann á veiðarfæri, sem þannig kippir að verulegu leyti grundvellinum undan útgerð í stórum landshlutum, þá verði það að vera byggt á einhverri vísindalegri athugun, sem menn geti lagt fram með slíkum aðgerðum. Ég spyr sem sagt hæstv, ráðh., hvað hann hugsi sér að gera í þessu efni, hvort hann ætli ekki að framlengja um einhvern tíma leyfi fyrir þessum veiðiskap og hafa jafnframt með honum strangt eftirlit og sjá til, hvort þarna er um að ræða þann voða, sem ýmsir hafa viljað vera láta.