04.03.1974
Neðri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2435 í B-deild Alþingistíðinda. (2244)

244. mál, veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelginni

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég þarf að svara því, sem um er spurt. — Það er í fyrsta lagi friðaða veiðisvæðið á Selvogsbanka yfir hrygningartímann, sem hafði verið lokað fyrir öllum veiðum á tímabilinu frá 20. mars til 20. apríl, en reglum hefur verið breytt um það þannig, að þetta svæði skuli vera lokað nokkru lengri tíma eða út aprílmánuð, alveg í samræmi við þær óskir, sem fram höfðu komið. Þessi breyting var af hálfu sjútvrn. tilkynnt utanrrn. og það beðið um að koma því á framfæri við Breta og sjá til þess, að þeir virtu þetta, og við höfum fulla ástæðu til að ætla, að þeir virði þessa reglu í samræmi við það, sem áður hafði komið fram hjá þeim. Það verður að sjálfsögðu gengið fast eftir því, að það gildi eitt og sama um íslensk skip eins og bresk á þessu svæði.

Varðandi fsp. um nótaveiði fyrir Norðurlandi get ég upplýst það, að þetta mál er nú til sérstakrar athugunar í rn. Hafði verið gert ráð fyrir því að banna að fullu og öllu veiðar í nót, en ákveðin undanþága var varðandi þessar veiðar fyrir hluta af Norðurlandi, og var búið að tilkynna mönnum með alllöngum fyrirvara, að að þessu væri stefnt, enda lágu þá fyrir mjög einróma samþykktir samtaka útvegsmanna um þetta og all flestra þeirra, sem um málið höfðu fjallað, að rétt væri að stefna að því að banna þessar veiðar með öllu. Vegna þess var sú ákvörðun tekin. En nú kemur það sem sagt upp, eins og oft vill verða, þegar bannið á að taka gildi, að þá er óskað eftir því að fá annaðhvort lengri framlengingu eða a.m.k. undanþágur fyrir vissa aðila frá banninu. Þetta er nú til sérstakrar athugunar. Mér er vel kunnugt um, að á hluta Norðurlands er nokkuð um það, að smærri bátar stunda svona veiðar og hafa gert allmikið gagn með þessu veiðarfæri. Því er hins vegar ekki að neita, að ýmiss konar vandkvæði hafa fylgt því að nota þetta veiðarfæri, bæði við veiðina og eins við vinnsluna. Og þeir aðilar eru æðimargir, sem hafa verið að sækja á um það að fá að kaupa sér veiðarfæri af þessari tegund, fleiri en þeir, sem stundað hafa veiðar með þessu veiðarfæri að undanförnu, og er hætt við, að ef hér yrði um verulega framlengingu að ræða, þá mundu bætast í hópinn allmargir aðilar, sem stunda mundu veiðar með þessu veiðarfæri.

Ég get sem sagt ekki sagt um það á þessari stundu, hvort vikið verður frá þessum reglum og veitt frekari undanþága. Málið er í athugun í samráði við fulltrúa frá Norðurlandi, sem hér eru staddir og hafa rætt við rn. um málið, og málið er í athugun einnig í samráði við Fiskifélagið, hvernig þessum málum megi koma fyrir, þannig að samkomulag geti tekist um það. En sem sagt, frekari niðurstöður get ég ekki sagt af þessu máli að svo stöddu.