04.03.1974
Neðri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2438 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

162. mál, ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er stjfrv, og komið frá hv. Ed., þar sem það hefur verið samþ. einróma að fengnum meðmælum aðila vinnumarkaðarins.

Um þetta frv. vil ég segja það fyrst, að í málefnasamningi núv. ríkisstjórnarflokka er vikið að því, að sett verði löggjöf, sem tryggi verkafólki greiðslu vinnulauna þrátt fyrir gjaldþrot atvinnurekenda, en löggjöf, sem gengur í þá átt, hefur verið sett fyrir alllöngu um flest Norðurlönd. Rök fyrir slíkri löggjöf eru svo augljós, að ekki þarf mörg orð um að hafa. Í velferðarþjóðfélagi þykir það óhæfa, að verkamaður verði fyrir meira eða minna fjárhagstjóni, þótt fyrirtæki verði gjaldþrota af ástæðu, sem hann fær að engu um ráðið og á engan þátt í að skapa, Í samræmi við þetta hefur félmrn. látið semja þetta frv., sem hér liggur fyrir og er ætlað að tryggja vinnulaun í gjaldþrotatilfellum með ábyrgð ríkisins að fullnægðum þeim skilyrðum, sem eðlilegt hefur þótt að setja og frv. gerir ráð fyrir.

Við samningu frv. hefur verið stuðst við lög um ríkisábyrgð á launum, sem sett voru í Svíþjóð 1970 og gengu þar í gildi 1971, og enn fremur hefur verið stuðst við dönsk lög um sama efni frá 1972 og uppkast að frv. um þessi mál í Noregi.

Sænsku l. taka eingöngu til gjaldþrotatilvika, og greiðir ríkið kostnað við framkvæmd laganna, en fær síðan kostnaðinn endurgreiddan úr sérstökum sjóði, sem fær tekjur sínar af sérstökum skatti atvinnurekenda, sem á þá er lagður í þessu sambandi.

Í Danmörku gilda þær reglur, að Tryggingasjóður launþega ábyrgist réttar kröfur launþega við gjaldþrot, en einnig, ef sannað þykir, að atvinnurekandi geti ekki greitt kröfurnar, þótt ekki sé tekið til gjaldþrotaskipta.

Í norsku drögunum að samsvarandi löggjöf er gert ráð fyrir ríkisábyrgð á launakröfum við gjaldþrot og sérstökum viðbótarskatti til almannatrygginga frá atvinnurekendum til að standa undir kostnaði.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, er farið að hætti Svía að því leyti, að ríkisábyrgðin nær aðeins til þeirra vinnulauna, sem forgangsréttur fylgir samkv. l. um skipti á dánarbúum, félagsbúum o.fl., og til bóta vegna riftunar á vinnusamningi eða uppsagnar á vinnusamningi, svo og orlofsgreiðslu. Ábyrgðin tekur samkv. 3. gr. frv. einungis til kröfu, sem lýst hefur verið lögformlega við gjaldþrotaskipti. Þetta gildir þó ekki um bú, sem reynast eignalaus og innköllun er því ekki gefin út.

Frv. gerir ráð fyrir, að félmrn. inni af höndum greiðslur þær, sem ríkissjóði ber að greiða samkv. því, ef það verður að lögum. En eigi má sú greiðsla fara fram, fyrr en úrskurður um gjaldþrotaskipti hefur gengið, og eigi heldur fyrr en krafan er komin í gjalddaga.

Við samningu þessa frv. hefur verið haft í huga að einfalda framkvæmd, eftir því sem frekast er kostur, þannig að af ákvæðum þess leiddi ekki neina óþarfa skriffinnsku. Hefur því m.a. ekki verið horfið að því ráði að leggja sérstakan skatt á atvinnurekendur, svo sem gert er í Svíþjóð og Danmörku. Þykir réttara að fara þá leið að taka tillit til þeirra útgjalda, sem af samþykkt frv. mundi leiða, í annarri skattgreiðslu atvinnurekenda, sem í ríkissjóð rennur, en hér yrði tæpast um mjög miklar hækkanir skatta að ræða. Má í því sambandi geta þess, að á þingi Norðurlandaráðs árið 1971 var lagt til, að fjár yrði aflað í þessu skyni með launaskatti, sem talið var þá, að hæfilega yrði metinn 0,5%. Virðist því ekki fjarri lagi að hækka núverandi launaskatt eða þann skatt, sem ákveðinn yrði án tillits til ákvæða þessa frv., um upphæð af slíkri stærðargráðu, meðan reynsla fengist af því, hvaða upphæð hér gæti orðið um að ræða. En útgjöld þau er auðvitað harla erfitt að áætla af nákvæmni, þar sem fjöldi gjaldþrota hlýtur jafnan að fylgja að mestu árferði hjá atvinnuvegum þjóðarinnar.

Herra forseti. Um frekari skýringar á einstökum frvgr. leyfi ég mér að vísa til ítarlegrar grg., er fylgir frv., en vil að lokum segja það, að með frv. er komið til móts við mjög ákveðnar kröfur verkalýðssamtakanna, sem fram hafa verið settar um árabil. Hugsanlegt kann að vera, að launþegasamtökunum þyki sum ákvæði frv. í þrengra lagi, og það er rétt, að hér er gætilega af stað farið, þannig að síðar gætu einstök atriði staðið til bóta að fenginni nauðsynlegri reynslu.

Ég legg svo til. herra forseti, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. félmn.