04.03.1974
Neðri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2447 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

232. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 396 hef ég ásamt tveim öðrum þm. Sjálfstfl. flutt frv. til l. um breyt. á l. nr. 45 1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Aðrir flm. frv. eru hv. 4. þm. Vesturl. og hv. 2. þm. Norðurl. v. Frv. þetta felur það í sér, að hækkað verði ríkisframlag til byggingar íbúðarhúsa í sveitum úr 120 þús. kr. í 200 þús. kr., og með sama hætti, að framlag til endurbyggingar íbúðarhúsa geti hækkað allt að þessu marki, ennfremur að framlög til byggingar og endurbyggingar gróðurhúsa hækki úr 120 kr. á fermetra í 200 kr. á fermetra.

Framlög til byggingar íbúðarhúsa í sveitum voru fyrst tekin í lög árið 1957 með þeim breytingum, sem þá voru gerðar á l. um landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Var framlag þetta þá 25 þús. kr. Síðan hafa framlög þessi verið hækkuð 4 sinnum, og þá nokkurn veginn til samræmis við verðlagsbreytingar. Fyrsta hækkunin var með samþykkt stofnlánadeildarlaganna 1962, og var framlagið þá hækkað í 40 þús. kr. Með breyt. á þeim l. árið 1963 voru framlögin hækkuð í 50 þús. kr. og aftur í 60 þús. kr. 1964. Síðast var þessu ákvæði breytt með setningu laga um Stofnlánadeild landbúnaðarins o.fl. 1971, og var framlagið þá ákveðið 120 þús. kr. Frá þeim tíma eru nú bráðlega liðin 3 ár, án þess að þetta framlag og framlög til gróðurhúsabygginga hafi verið hreyfð. Öllum er þó kunnugt, að á þessu tímabili hafa orðið gífurlegar verðhækkanir og verðlagsbreytingar meiri en nokkru sinni fyrr í okkar þjóðfélagi. Á þessu tímabili, frá 1. júlí 1971 til 1. nóv. 1973, hefur byggingarvísitalan hækkað úr 535 stigum í 913 stig eða um 70.65%. Enn er ekki búið að gefa út byggingarvísitölu frá 1. mars s.l., og er hún ekki væntanleg fyrr en nú um miðja þessa viku, en spádómar hafa verið uppi um það, að þá mundi byggingarvísitalan fara upp í 970 stig, og ef svo verður, þá verður hækkun hennar frá 1. júlí 1971 81,3%. Hér er því sannað, svo sem verða má, að um gífurlegar verðhækkanir hefur verið að ræða á þessu tímabili, og byggingarkostnaður þó kannske aukist hraðar en flestar verðlagsbreytingar aðrar. Það virðist því vera kominn tími til að fara að huga að því að hækka framlög til þessara framkvæmda, ef það er ekki meining núv. stjórnvalda að hverfa frá þeirri stefnu, sem mörkuð hafði verið, að réttmætt væri að styðja þessar framkvæmdir.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir því, að byggingarframlögin til íbúðarhúsa hækki úr 120 þús. kr. í allt að 200 þús. kr. Enda þótt þessi hækkun sé lögð hér til, er hún ekki að fullu í samræmi við byggingarvísitölu, því að hér er um að ræða hækkun, sem nemur einungis 66.7%. En vísitalan hefur þegar hækkað til 1. nóv., eins og ég sagði, um 70.65%, og hækkar til muna meira nú eftir fáa daga.

Eðlilegt er að skoða þessi mál í samhengi við lánveitingar til þessara framkvæmdaþátta. Á árinu 1971 voru lán Stofnlánadeildar landbúnaðarins til íbúðarhúsabygginga í sveitum 600 þús. kr. að hámarki. Nú eru þessi lán 800 þús. kr. Ef þeirri reglu hefði verið fylgt, að hækka lán til íbúðarhúsa í sveitum í samræmi við byggingarvísitölu, eins og hún var 1. nóv. s.l., ættu þessi lán nú að vera 1 millj. og 23 þús. kr. Ef byggingarvísitalan fer í 970 stig 1. mars, þyrftu þessi lán að vera 1 milljón og 87 þús. kr. Það er því auðséð, að lánin, enda þótt þau hafi nokkuð verið hækkuð, eru miklu lægri að raunvirði en þau voru árið 1971, þegar núv. hæstv. ríkisstj. kom til valda. Séu báðir þessir þættir teknir saman, sem eðlilegt er að gera, nam framlag og lán 1971, þegar núv. ríkisstj. kom til valda, 720 þús. kr., en nema nú 920 þús. kr. En ef höfð væri hliðsjón af byggingarvísitölu og miðað við 1. nóv. s.l., þá þyrfti framlag og lán að vera 1228 þús. kr. í stað 920 þús. kr., eins og er í dag. Og ef byggingarvísitalan fer í 970 stig 1. mars, þá þyrfti þetta að vera 1283 þús. kr. í stað 920 þús. kr., eins og raun ber vitni í dag.

Æskilegt væri að fá upplýsingar um það hjá hæstv. ríkisstj., enda þótt enginn ráðherra þeirrar ríkisstj. sjái ástæðu til þess að vera við umr. hér í hv. Nd., hvort það sé meining ríkisstj. að láta framlög og lánveitingar til þessara framkvæmdaþátta í sveitum, þ.e. íbúðarhúsa og byggingar gróðurhúsa, étast upp í eldi verðbólgunnar og verða að engu.

Rétt áðan var verið að útbýta tveimur frv. frá hæstv. ríkisstj. Enda þótt ekki hafi gefist tími til að skoða þau frv. svo að nokkru nemi, sést þó strax, að þar er gert ráð fyrir því að færa þau framlög, sem um er rætt í því frv., sem ég hér er að mæla fyrir, úr höndum Landnáms ríkisins til annarra aðila: annars vegar framlög til gróðurhúsa til Búnaðarfélags Íslands, og greiðist það framlag út eftir jarðræktarlögum, og á hinn bóginn framlög til íbúðarhúsa í sveitum til Stofnlánadeildar landbúnaðarins, og skulu þau þaðan greidd út. Hér skal ekki vikið að þessum efnisbreytingum. Til þess gefst væntanlega tími, þegar þessi frv. koma hér til 1. umr. Hins vegar sést einnig á þessum frv., að þar er gert ráð fyrir óbreyttu framlagi til þessara tveggja framkvæmdaþátta. Enda þótt hæstv. ríkisstj. sjái nú ástæðu til að leggja fram sérstök frv., sem m.a. kveða á um, hvernig með þessi framlög skuli farið á næstunni, sér hún ekki ástæðu til að gera neinar till. um hækkanir á þeim. Þar með birtir hún þá stefnu sína, að þau skuli standa óbreytt og étast upp af eyðingarmætti verðbólgunnar, sem geisar undir handarjaðri hæstv. ríkisstj.

Ég tel eðlilegt að freista þess, að fá því framgengt hér á hv. Alþ., að framfylgt verði þeirri venju, sem fyrrv. hæstv. ríkisstj. hafði við meðferð þessara mála, sem sé þá að, hækka þessi framlög nokkurn veginn til samræmis við verðlagsbreytingar, sem þá voru. Fáist það ekki fram, er það staðfesting á því, sem ætla má, eftir því sem birtist í frv. hæstv. ríkisstj., sem lögð eru fram hér í dag, að það sé stefna hennar að draga með hjálp verðbólgunnar í landinu úr þeirri aðstoð, sem bændastéttin fær til þess að byggja yfir sig, og þá um leið að draga úr þeirri aðstoð, sem hið opinbera veitir til þess að koma áfram mannvirkjum til gróðurhúsaræktar. Þetta virðist vera sú stefna, sem núv. hæstv. ríkisstj. ætlar sér að starfa eftir.

Ég skal ekki á þessu stigi, vegna þess að enginn hæstv. ráðh. er hér viðstaddur til andsvara, fara fleiri orðum um það, sem virðist vera stefna ríkisstj. í þessum efnum. Ég vil þó vonast til þess, að hún ráði ekki það miklu hér á hv. Alþ. og að sanngirni og dómgreind Alþ. sé svo mikil, að það láti ekki þessa stefnu ríkisstj. ráða, heldur afgreiði mál þetta með hliðsjón af því, sem lagt er til í því frv., sem við þrír sjálfstæðismenn höfum hér flutt og er algerlega í samræmi við það, sem gert var í tíð fyrrv. ríkisstj., sem kennd var við viðreisn og var stundum nefnd því nafni með háðsmerki fyrir aftan af hv. talsmönnum Framsfl.

Ég tel ekki ástæðu til, herra forseti, að eyða fleiri orðum að þessu sinni til að mæla fyrir þessu frv., en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. landbn.