05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (2262)

235. mál, Norðurlandsáætlun í samgöngumálum

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég get því miður ekki á þessu stigi gefið endanlegar upplýsingar um þau atriði, sem hv. fyrirspyrjandi spurði um. Ég sendi þessa fsp. til Framkvæmdastofnunarinnar og fékk hjá henni mjög stutt svar, þar sem segir:

Varðandi fsp. frá Lárusi Jónssyni um gerð Norðurlandsáætlunar í samgöngumálum. Sami þm. átti aðild að till. til þál. um að hraða gerð samgönguáætlunar fyrir Norðurland. Óskaði allshn. Sþ. umsagnar um þá till. Fylgir ljósrit af svarbréfi hér með. Og þetta svarbréf, sem er dags. 7. febr. 1974 og er til allshn. Sþ., er svo hljóðandi:

„Með bréfi, dags. 25. jan., hefur allshn. óskað umsagnar um till. til þál. um að hraða gerð samgönguáætlunar fyrir Norðurland. Í þessu sambandi vill stofnunin upplýsa, að unnið hefur verið að samningu samgönguáætlunar Norðurlands í heild á undanförnum mánuðum. Voru áætlunardrög til umræðu á fundi stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar 29. jan. s.l. Var þá ákveðið að taka skiptingu ársáfanga vegamálaþáttarins 1974 og í frumdrögum fyrir 1975 til meðferðar á næsta stjórnarfundi. Ýmsar grundvallarákvarðanir um umfang, stærð og áfangaskiptingu áætlunarinnar þarf að taka, áður en lengra er haldið. Til þess að ráða þeim málum til lykta hefur Framkvæmdastofnunin nú ritað samgrn., forsrn. og fjmrn. það bréf, sem hér fylgir í afriti. Er þar óskað skjótra viðræðna um þessi mál, svo að unnt sé að flýta endanlegri samningu áætlunarinnar.“

Bréf þau, sem þarna er vitnað til, eru í athugun í ráðuneytunum, en endanlegar viðræður og ákvörðunartaka hefur ekki enn farið fram. Framkvæmdastofnunin telur sér því að svo komnu á þessu stigi ekki unnt að gefa frekari svör við fsp. um, hvað líði gerð Norðurlandsáætlunar í samgöngumálum.

Óhætt er að segja, að það hefur verið unnið mikið verk í þessu efni, og þau frumdrög, sem liggja fyrir í rn., eru þess eðlis, að ég get ekki farið að birta neitt úr þeim hér, enda yrði það allt of langur lestur. Það eru auðvitað mörg atriði þar, sem er óskað eftir nánari ákvörðun á, áður en endanlega verður gengið frá ýmsum atríðum varðandi þá stefnu, sem á að vinna eftir nánar við þessa áætlunargerð. En hún er umfangsmikil og tekur langan tíma, og er ekkert óeðlilegt við það, þar sem hér er um að ræða áætlun, sem hugsað er, að nái yfir æðimörg ár.

Ég vona, að það verði alveg á næstunni hægt að ganga frá þessu í rn. Hafa annir, sem öllum þm. er kunnugt um, mætt t.d. sérstaklega á hæstv. samgrh. að undanförnu, og þess vegna hefur þetta aðeins dregist.

Í öðru lagi er spurt: Má búast við, að vegaþáttur áætlunarinnar verði tilbúinn fyrir árin 1974 og 1975, þegar Alþ. fær almenna vegáætlun til meðferðar á næstunni?“ Ég vil segja já við þeirri spurningu. Það er að því stefnt og það er mín ákveðin von, að það verði hægt. Hvað valdi töf á þessu, það fer ég ekki nánar út í að skýra, ef annars á að segja, að hér sé um töf að ræða.