05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2454 í B-deild Alþingistíðinda. (2265)

415. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Fyrirspyrjandi (Stefán Gunnlaugsson):

Herra forseti. Á þskj. 399 hef ég lagt fram fsp. til hæstv, forsrh. um lánveitingar úr Byggðasjóði, svo hljóðandi:

„1. Hver er heildarfárhæð lánveitinga úr Byggðasjóði árin 1972 og 1973 og skipting hennar eftir tegundum lána og landshlutum bæði árin?

2. Hverjar eru lánaúthlutunarreglur Byggðasjóðs?“

Það er skoðun margra, að mikils óréttlætis gæti í lánaúthlutunum Byggðasjóðs eftir landshlutum. Landshluti eins og Reykjaneskjördæmi hefur verið ákaflega afskiptur hvað lánveitingar úr þessum sjóði áhrærir. Slíkt misrétti sem ástæða er til að ætla, að eigi sér stað í þessum efnum, verður að afnema að mínum dómi. Meiri hl. stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins, en sú stjórn tekur ákvarðanir um lánveitingar úr Byggðasjóði, eins og kunnugt er, afsakar þetta ráðslag með því að vísa til 29. gr. l. um Framkvæmdastofnun ríkisins, en þar segir m.a., að hlutverk Byggðasjóðs sé að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum. Þessu markmiði hugðist meiri hl. stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins ná með því að setja það fráleita ákvæði í lánaúthlutunarreglur vegna fiskiskipakaupa, að einungis væri heimilt að veita lán vegna fiskiskipa á svæðinu frá Akranesi vestur, norður og austur um land til Þorlákshafnar, að báðum stöðum meðtöldum, svo og í Vestmannaeyjum. M.ö.o.: það átti að útiloka einn landshluta, Reykjanes, frá lánafyrirgreiðslu úr þessum sjóði.

Ég var á fundi stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins, þar sem ég á sæti sem varamaður, þegar frá þessum lánareglum var gengið 27. mars s.l., og mótmælti þeirri fráleitu reglu að ætla að útiloka einn landshluta, Reykjaneskjördæmi, frá fyrirgreiðslu úr þessum sjóði og greiddi einn stjórnarmanna atkv. gegn slíkri tilhögun og lét fylgja svo hljóðandi bókun: „Tel ástæðulaust, að skilgreint sé með þeim hætti, sem gert er í 1. gr. starfsreglnanna, hvar þau fiskiskip skuli staðsett, sem heimilt er að veita lán til.“ Það kemur væntanlega í ljós í svari hæstv. ráðh. hér á eftir, hvort þessi fáránlega lánaregla er enn við lýði. Að fiskiskip sé staðsett eða skrásett á einum stað eða öðrum, þarf ekki í sjálfu sér að vera ákvarðandi um, hvort það út af fyrir sig stuðli að eflingu atvinnulífs á viðkomandi stað, þótt svo geti að sjálfsögðu verið í ýmsum tilfellum, þar sem fiskiskip leggja oft upp fiskafla á öðrum stöðum, jafnvel að staðaldri, en þar sem þau eru staðsett eða skrásett, þegar þau eru keypt. Út frá því sjónarmiði einu er sú regla fráleit að ætla að útiloka íbúa Reykjaneskjördæmis frá fyrirgreiðslu um lán úr Byggðasjóði til fiskiskipakaupa. Auk þess er svo hitt, að þessi stefna Byggðasjóðs hefur orðið til þess, að endurnýjun fiskiskipaflota Reyknesinga hefur orðið með öðru leitt til þess, að vart hefur orðið við atvinnuleysi, t.d. í Keflavík, þar sem 90 manns voru skráðir á atvinnuleysisskrá í s.l. mánuði. Slíkt er með öllu óviðunandi, að fyrirtæki þar, sem gætu bætt úr þessu ástandi, fá ekki sömu fyrirgreiðslu og sambærileg fyrirtæki, sem staðsett eru annars staðar á landinu.