05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

415. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Halldór S. Magnússon:

Herra forseti. Það virðist nú þegar greinilegt, að það verða allfjörugar umr. um þetta mál hér. Ég vil í tilefni af þessum umr. aðeins segja þetta:

Sú regla, sem stjórn Byggðasjóðs hefur sett um lánveitingar til kaupa á fiskiskipum, á einungis við um fiskiskip. Sú regla er enn fremur ekki án undantekninga, eins og dæmin reyndar sanna. Ég tel rétt að upplýsa hv. þm. um það, að Byggðasjóður hefur gert undantekningu, að því er þá reglu varðar, um lánveitingu til kaupa á fiskiskipum, sem keypt hafa verið til staða í Reykjaneskjördæmi, ef sérstaklega hefur verið ástatt um atvinnumál í viðkomandi byggðarlagi. Ég tel það hins vegar alls ekki í samræmi við við stefnu Byggðasjóðs, sem sé að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og stuðla að því að efla atvinnulíf á þeim stöðum, þar sem það er veikt. Ég tel það hins vegar alls ekki í samræmi við stefnu og anda laga um Byggðasjóð, að Byggðasjóður verði almennur fjárfestingarlánasjóður, sem láni án tillits til atvinnuástands og byggðarsjónarmiða á hverjum stað.

Í þessu sambandi vil ég enn fremur vekja athygli á því, að í stjórn Byggðasjóðs hafa á undanförnum fundum farið fram umræður um það, hvort ekki væri ástæða til að taka til endurskoðunar lánareglur Byggðasjóðs, og þá hafa umræður fyrst og fremst hneigst í þá átt, að ástæða væri til að þrengja enn frekar lánareglur Byggðasjóðs, heldur en að útvíkka þær. Ég get fullkomlega tekið undir þetta sjónarmið og hef marglýst því á fundum sem stjórnarmaður í stjórn Byggðasjóðs. Ég tel, að það sé fullkomin ástæða til þess fyrir stjórn Byggðasjóðs að vera öllu íhaldssamari um lán til kaupa á fiskiskipum en stjórnin hefur verið, og þess vegna sé fullkomlega ástæða til að fara að meta meira en gert hefur verið í einstökum tilvikum, hvort um brýnt atvinnuspursmál sé að ræða fyrir það byggðarlag, sem í hlut á. En höfuðatriðið er, að það er alls ekki rétt, sem hér hefur verið sagt, að stjórn Byggðasjóðs hafi markað þá stefnu að útiloka einhver ákveðin kjördæmi eða einhver ákveðin byggðarlög frá því að geta fengið lán úr Byggðasjóði. Það hefur ekki verið gert. Það hefur að vísu verið sett sem almenn regla, að ákveðin svæði skuli ekki hljóta lán, en undantekningar heimilaðar frá þeirri reglu, þegar brýna nauðsyn ber til.