05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2460 í B-deild Alþingistíðinda. (2273)

415. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að það væri í sjálfu sér fráleitt, ef ætti að útiloka skip skrásett á Reykjanessvæðinu frá því að geta hlotið viðbótarlán úr Byggðasjóði, því að eins og flestum er kunnugt, mun Reykjanessvæðið eða Suðurnesin frá gamalli tíð og enn í dag vera eitt af aðalútgerðarsvæðum landsins með mikla fjárfestingu í landi til þess að vinna úr sjávarafla, sem einhvern veginn þarf að tryggja. En eins og hér hefur komið fram og var raunar ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, hefur þessi regla ekki verið undantekningarlaus hjá Byggðasjóði. Eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, er nýlega búið að veita úr Byggðasjóði 5% lán út á togara, þar sem eigendurnir eru búsettir í Höfnum og á Keflavíkur-Njarðvíkursvæðinu, og ég vil taka undir það, að mér finnst ekki á nokkurn hátt hægt að gera upp á milli umsókna. Mér er kunnugt um, að þegar liggur fyrir umsókn um viðbótarlán úr Byggðasjóði út á skuttogara, sem á að kaupa til Njarðvíkur og Keflavíkur, og ég fæ ekki séð, með hvaða rétti slíkri umsókn yrði neitað, eftir að nýverið er búið að afgreiða aðra svipaða umsókn.

Ég treysti því, að stjórnendur Byggðasjóðs láti ekki til þess koma.