05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2460 í B-deild Alþingistíðinda. (2274)

415. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Það er stundum vandlifað. Ég heyri ekki betur en minn ágæti sessunautur hafi gert sitt til að sproksetja mig svolítið, en ég sagði í stuttu máli, að stjórn Byggðasjóðs hefði þá meginreglu að lána ekki í Reykjaneskjördæmi og til Reykjavíkur. Ég notaði að vísu orðið útilokaður í þessu sambandi, en þó held ég, að ég hafi sagt það þannig, að ég hafi reynt að draga svolítið úr orðinu. En ég held, að eftir standi aðalatriði þessa máls, að stjórn Byggðasjóðs er nokkuð einhuga um það og væri ákaflega óeðlilegt að láta undan ég vil segja nokkuð áköfum kröfum margra Reyknesinga um að fara að lána almennt úr Byggðasjóði inn á Reykjanessvæðið. Ég tel og ég vona, að stjórn Byggðasjóðs standist slíka ásókn, því að það er áreiðanlega ekki í samrætni við markmið laganna um Framkvæmdastofnun, ef þannig yrði að unnið. — Þetta vil ég láta verða mín síðustu orð um þetta efni.