05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2461 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

415. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst þessar umr., sem hér hafa farið fram, nánast allundarlegar. Ég held, að það séu allir stjórnmálaflokkar, sem hafa lýst því yfir núna, að þeir vilji stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Það var lesið hér upp, að tilgangur Byggðasjóðs væri að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og að koma í veg fyrir, að lífvænlegar byggðir fari í eyði. Þetta mun vera megintilgangur sjóðsins. Nú hefur sjóðurinn farið út í það, og það er sjálfsagt réttlætanlegt frá þessum sjónarmiðum að veita lán út á fiskiskip. Það eru mjög mikilvæg atvinnutæki fyrir þær byggðir, sem standa höllum fæti. Hins vegar hefur hann þar farið út á mjög hálan ís, og væri sjálfsagt réttast fyrir hann að draga sem allra mest þar í land. Það má minna á, að það er margt fleira en fiskiskip, sem getur stuðlað að jafnvægi í byggð landsins, ákaflega margt, og það þarf ekki einu sinni að vera bundið við sjávarútveg og sjávarþorp. Margt er það í landbúnaði og iðnaði, sem getur stuðlað að þessu jafnvægi. Hitt er svo augljóst, að einhver mörk varð að draga. Og þegar Reyknesingar koma hér og telja upp, að þeir ættu að vera réttu megin við þessi mörk, þá kæmi auðvitað Reykjavik á eftir og þetta væri algjörlega flatt út. Hvernig væri það t.d., ef þeir, sem stunda landbúnað, segðu: Við þurfum viðbótarlán, við skulum fá þessi viðbótarlán til byggingar á ákveðnum svæðum? Ég held, að það væri ekki heillavænleg stefna. Ég held, að Byggðasjóður verði að hafa meginreglur, sem byggjast á þessum höfuðatriðum, og þannig nær hann ábyggilega best tilgangi sínum með því að útiloka sem mest af höfuðþéttbýli landsins.