05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2462 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

415. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég efast um, að mér dugi tvær mínútur til að leiðrétta margvíslegan misskilning, sem virðist koma fram bæði hjá stjórnendum Byggðasjóðs og öðrum þeim, sem eðlilega láta sér annt um þann sjóð. Ég ætla mér nú að reyna það samt. Ég hef ekki gagnrýnt reglur Byggðasjóðs almennt. Það er aðeins sú regla, sem sett hefur verið í sambandi við viðbótarlán til skipakaupa, sem við Reyknesingar teljum, að sé algerlega óhæf, og þá fyrst og fremst á þeirri forsendu, að með því að setja slíkar reglur varðandi skipakaup er verið að segja, að allar verstöðvar í Reykjaneskjördæmi, verstöðvar eins og Grindavík, Sandgerði, Vogar, Hafnir og Keflavík, séu einhvers konar annars eða þriðja flokks verstöðvar. Ég hef aldrei getað skilið, að það sé neinn eðlismunur á þessum verstöðvum og öðrum verstöðvum, sem eru eitthvað svolítið fjær Reykjavík, og jafnvel verstöðvum á Norður-, Vestur- og Austurlandi. Ef hins vegar væri sett sú regla, að því er varðar stuðning við fiskiskipakaup, að þar sem verstöð stendur höllum fæti, sé réttlætanlegt að veita viðbótarlán, þá er það allt annars eðlis en hitt að setja ákveðin kjördæmi í bann hvað þetta varðar.