05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2464 í B-deild Alþingistíðinda. (2280)

226. mál, leiga og sala fasteigna

Félmrh. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Spurt er í fyrsta lagi: „Mun félmrh. eiga frumkvæði að því, að sett verði lög um leigu og sölu fasteigna í samræmi við þáltill., sem vísað var til ríkisstj. 6. apríl 1973?" Þeim hluta þessarar spurningar, sem tekur til lagasmíðar um leigu fasteigna, mun ég svara undir næsta lið. Hvað viðvíkur setningu laga um sölu fasteigna, heyrði sá málaflokkur samkv. lögum nr. 47 1938, um fasteignasölu, undir atvinnumrn., en nú eftir skiptingu þess rn. undir dómsmrn., og fellur því lagasetning á því sviði undin dómsmrh., en ekki mig.

2. liður fsp. er svo hljóðandi: „Er ráðherra hlynntur því, að sett verði ákvæði um hámarksleigu íbúðarhúsnæðis?“ Þessari spurningu vil ég svara játandi, enda þótt mér sé vel ljóst, að torvelt muni reynast að setja í lög almenn ákvæði um hámark húsaleigu, sem verði virt í framkvæmd. Reynslan af húsaleigulögunum frá 1943, nr. 39, og l. um hámark húsaleigu frá 1952, nr. 30, var á þann veg, að ég hygg, að það muni nú vera fáir, sem séu fýsandi þess að vekja upp aftur húsaleigunefndirnar til að meta húsaleigu og til að hafa eftirlit með því, að hámarksákvæðum um húsaleigu verði fylgt. Að mínu viti er eina skynsamlega leiðin í dag til þess að gera eitthvað raunhæft í þessum málum sú að veita sveitarstjórnum, sem þess kynnu að óska, heimild til þess að setja ákvæði um hámark húsaleigu í hlutaðeigandi sveitarfélögum, t.d. eins og gert var í bráðabirgðaákvæði l. nr. 39 1943, og er það mál til athugunar í félmrn. Kemur þá jafnframt til greina að taka fleiri atríði inn í slík heimildarlög heldur en beint hámark húsaleigu. Þar gæti t.d. líka verið um að ræða ákvæði um nýtingu húsnæðis, sem víða er mjög ábótavant um.

Í þriðja lagi er spurt: „Vill ráðherra beita sér fyrir því, að húsaleiguútgjöld verði frádráttarbær við álagningu tekjuskatts?“ Ég vil svara þessu hiklaust játandi. Ég tel, að engum, sem um þessi mál hugsar, geti blandast hugur um, að mikil bót í þessu efni mundi hljótast af því, ef l. um tekju- og eignarskatt yrði breytt þannig, að leigutaka yrði heimilað að draga leigugjald fyrir íbúð á fullu verði frá skattskyldum tekjum. Slíka ráðstöfun mundi ég vilja styðja, hvaðan sem hún kæmi fram og hvernig sem hún væri fram borin. Ákvæði í þá átt mundu svo jafnframt, eins og einnig kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, tryggja betur framtal leigutekna leigusala en nú er. En í þessu sambandi kemst ég ekki hjá að minna á það, að þar sem lög um tekjuskatt heyra undir fjmrh., verður að sjálfsögðu að koma til hans kasta um forustu af hálfu ríkisstj., ef slíkar breytingar verða á l. um tekjuskatt að hennar tilhlutun.

Í fjórða og síðasta lagi er spurt: „Verða ráðstafanir gerðar af hálfu Húsnæðismálastofnunar ríkisins til að tryggja, að íbúðir, sem byggðar hafa verið í Breiðholti í þágu láglaunafólks af Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar, séu ekki misnotaðar í hagnaðarskyni?“ Þessu vil ég hiklaust svara játandi, að það sé fullur vilji, bæði hjá húsnæðismálastjórn og félmrn., til þess að fyrirbyggja þetta. Reglugerð hefur verið gildandi um þessi efni frá 23. apríl 1968, þar sem lagt er bann við leigu á íbúðum, sem byggðar eru af Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar í Breiðholti, nema til komi leyfi Húsnæðismálastofnunar ríkisins. Slík leyfi veitir stofnunin hins vegar ekki, nema íbúðareigandi geti sýnt fram á nauðsyn þess, að hann þurfi að dvelja utan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur um alllangt skeið af heilsufarsástæðum, vegna atvinnu sinnar eða af öðrum þeim ástæðum, sem stofnunin metur gildar. Á fundi húsnæðismálastjórnar 29. jan. s.l. voru þessar reglur að gefnu tilefni gerðar ítarlegri og m.a. sett eftirfarandi ákvæði:

1) Að leyfi yrðu ekki veitt til lengri tíma en 12 mánaða. Að þeim tiltekna tíma liðnum bæri íbúðareiganda að bjóða Húsnæðismálastofnun ríkisins forkaupsrétt að íbúð sinni, ef hann ætlaði ekki að flytja í íbúðina sjálfur.

2) Að íbúðareigandi, sem stæði í vanskilum við veðdeild Landsbanka Íslands vegna þeirra lána, sem hvíldu á íbúðinni, og Byggingarsjóð ríkisins, gæti ekki fengið leyfi til að selja á leigu íbúð sína. Sama gildir, þegar um er að ræða vanskil við sjóði, sem löglega hafa verið stofnaðir af íbúðareigendum.

3) Að árleg leiga fyrir íbúðir þessar skyldu ákveðin af húsnæðismálastjórn í janúarmánuði ár hvert. Skyldi höfð hliðsjón af vöxtum af lánum þeim, sem veitt væru til íbúða þessara úr Byggingarsjóði ríkisins, fasteigna- og brunabótaiðgjöldum af viðkomandi íbúð, svo og kostnaði, sem skiptist á hverja íbúð eftir stærð, vegna rekstrar á þeim hluta byggingar, sem er sameiginlegur fyrir allar íbúðirnar. Heimilt væri að áætla þennan kostnað.

4) Húsnæðismálastofnun ríkisins lætur gera sérstakt eyðublað fyrir leigusamninga og leigusölu á FB-íbúðum. Skal þar koma fram m.a., hver leigufjárhæðin skuli vera, hversu greiðslu skuli háttað, til hve langs tíma íbúðin sé leigð og hver uppsagnarfrestur skuli vera. Samningar þessir skulu úr gildi falla án uppsagnar að leigutíma liðnum. Leigusala er skylt að gera leigusamninga á það eyðublað, sem stofnunin lætur í té, og er óheimilt að víkja þar í nokkru frá þessum ákvæðum, án heimildar stofnunarinnar.

5) Leigusamningur skal gerður í þríriti, og skal hvor aðili halda sínu eintaki, en hið þriðja skal sent Húsnæðismálastofnun ríkisins.

Húsnæðismálastofnun ríkisins er heimilt að segja upp án fyrirvara öllum þeim lánum, sem veitt hafa veríð til íbúðar, brjóti íbúðareigandinn gegn þeim reglum, sem hér hafa verið settar. Reglur þessar voru settar með stoð í reglugerð nr. 122 23. apríl 1968. Með setningu þessara reglna tel ég, að húsnæðismálastjórn hafi gert hreint fyrir sínum dyrum varðandi reglur um þessi efni, og hef fulla trú á því, að hún muni fylgja þeim að fullu í framkvæmd.