05.03.1974
Sameinað þing: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2466 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

226. mál, leiga og sala fasteigna

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að leggja örfá orð í belg. Ég tel, að þessar fsp. frá hv. þm. Ragnari Arnalds snerti ákaflega veigamikinn þátt og marga aðila í þjóðfélaginu. Við höfum sinnt mjög hag byggjenda, þeirra sem reisa sér húsnæði, en hlutur leigjenda hefur verið fyrir borð borinn. Þess vegna tel ég þessar fsp. einmitt sérstaklega mikilvægar, því að ég tel. að stjórnvöld ættu nú að reyna að sinna fremur hag leigjenda en gert hefur verið á undanförnum árum.

Hagur leigjenda er vissulega ekki góður í verðbólguþjóðfélagi, því að eins og kunnugt er, hagnast þeir, sem reisa sér hús og leggja fé í húsnæði, óbeint á verðbólgunni, en þeir, sem leigja sér húsnæði, gera það ekki og standa því mjög illa að vígi.

Hæstv. félmrh. var mjög jákvæður í sambandi við þau atríði, sem hér bar á góma, t.d. um 3. liðinn, þ.e. húsaleigugjöld verði frádráttarbær við álagningu tekjuskatts. Ég er sannfærður um, að ríkið mundi ekki skaðast neitt við það, því að þá kæmi hin raunverulega húsaleiga betur fram. Hæstv. félmrh. benti á, að þetta væri eiginlega mál hæstv. fjmrh. En ég vil beina því til hans, að þetta er verkefni hans nánast og væri því vert, að hæstv. félmrh. beitti sér fyrir þessari úrbót sem raunar öðrum, sem þarna koma fram. Ef hæstv. félmrh. gerði nú verulegt átak til þess að styðja og bæta hag leigjenda, hefði hann ekki til einskis setið í ráðherrastóli.