05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2481 í B-deild Alþingistíðinda. (2299)

206. mál, viðlagasjóðshús

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 359 leyft mér að flytja till. til þál. um ráðstöfun viðlagasjóðshúsa. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að stuðla að því, að sveitarfélögum verði gefin kostur á því að kaupa innansveitar viðlagasjóðshús á kostnaðarverði, er þau verða auglýst til sölu nú á næstunni, enn fremur, að 80% söluverðsins verði lánað sveitarfélögunum með hagkvæmum kjörum, enda verði húsin nýtt sem elliheimili, sem íbúðir fyrir aldraða og öryrkja eða leigð þeim íbúum viðkomandi sveitarfélags, er hafa ekki efni á að koma sér upp eigin húsnæði.“

Hvers vegna viðlagasjóðshús? Þegar hörmungarnar dundu yfir í Vestmannaeyjum, stóðu uppi 1200–1300 fjölskyldur, sem urðu húsnæðislausar á einni nóttu. Þá var farin sú leið meðal annarra að flytja inn 550 hús til að skapa þessu fólki öryggi og gefa því kost á varanlegu húsnæði, þar eð búist var við, að langur tími mundi líða, uns þetta fólk ætti afturkvæmt til sinnar heimabyggðar. Þessi hús hafa verið sett niður í 20 sveitarfélögum á landinu, og í fjölda þessara hása búa nú Vestmanneyingar. En svo blessunarlega hefur tekist til, að nokkur fjöldi þeirra er nú á förum heim til Vestmanneyja aftur eða farinn, og þess vegna munu viðlagasjóðshúsin vera til ráðstöfunar til annarra nota.

Þarfir sveitarfélaganna fyrir leiguhúsnæði eru viðurkenndar. Það hefur verið nefnt hér á Alþ., að bygging leiguhúsnæðis á vegum sveitarfélaga væri þjóðþrifamál. Vitað er, að fjöldi sveitarstjórnarmanna hefur sýnt þessu máli mikinn áhuga, því að enda þótt milli 80 og 90% af fjölskyldum í þessu landi búi í eigin húsnæði, er það þó svo, að af ýmsum ástæðum eru vissir hópar þjóðfélagsins, sem jafnan þurfa að treysta á aðstoð og hjálp sveitarfélaganna til þess að geta búið í viðunandi húsnæði. Ég hef þá einkum í huga aldraða, öryrkja, ungt fólk, sem er að byrja búskap, fólk, sem ekki hefur efni á því að kaupa sér íbúðir á gangverði og þarf að búa í leiguhúsnæði í 5–10 ár, uns fjárhagurinn leyfir flutning í eigið húsnæði, og enn fremur sérfrótt fólk, sem kemur til starfa úti í sveitarfélögunum í stuttan tíma, vill ógjarnan kaupa sér húsnæði á stöðunum eða byggja, en þarf á húsnæði að halda. Er nauðsynlegt fyrir sveitarfélögin að geta útvegað slíku fólki leiguhúsnæði, annaðhvort á eigin vegum eða a.m.k. sjá til þess, að hægt sé að fá leiguhúsnæði innan sveitarfélagsins. Að öðrum kosti er líklegt t.d., að unga fólkið drífi sig burtu til staða, þar sem lausn þessa aðalframfærsluvandamáls er auðveldara, og enn fremur, að verr en ella gangi að fá kennara, heilbrigðisstarfsfólk og fleiri sérfróða aðila til starfa.

Varðandi aldraða hafa erfiðleikar þeirra hvað eftir annað verið ræddir hér á hv. Alþ. Öllum er ljóst, að húsnæði vantar fyrir aldrað fólk. Þótt þörfin sé e.t.v. mest fyrir hjúkrunarþurfandi aldraða, er þó allmikill fjöldi þeirra, bæði inni á stofnunum og í heimahúsum, sem gæti mjög auðveldlega búið í húsum slíkum sem þeim, sem hér er um að ræða, búið við skilyrði, þar sem þeim yrði séð fyrir sameiginlegri þjónustu og ýmis önnur þjónusta veitt, sem ekki er í venjulegum íbúðarhúsum. Þetta fyrirkomulag, að hafa aldraða í litlum íbúðarhúsum, þar sem þeir fá sérstaka fyrirgreiðslu og eftirlit frá sameiginlegri þjónustumiðstöð, hefur t.d. verið í framkvæmd í Ási í Hveragerði árum saman og reynst þar hið besta. Er því enginn efi á því, að hér er fyrir hendi mjög aðgengilegur möguleiki til að bæta stórlega úr húsnæðisörðugleikum aldraðs fólks.

Hvaða fólk er nú þetta, sem hér er um að ræða? Þetta aldraða fólk er fólkið, sem fæddist um og eftir aldamótin, fólkið, sem fermdist í heimsstyrjöldinni fyrri eða í lok hennar, fólkið, sem hóf starfsferil sinn gjarnan fyrir fermingu eða á fermingaraldri, þegar Ísland var nýlenda, hóf starfsferil sinn í fátæku, nær örbirgu þjóðfélagi, þar sem m.a. húsnæði var mjög ófullkomið. Og þetta er fólkið, sem hefur unnið landi sínu í meira en hálfa öld, og fólkið, sem hefur stuðlað að allri þeirri uppbyggingu, sem hefur orðið í þessu landi, m.a. á svæði íbúðarhúsnæðis, frá því í lok fyrri heimsstyrjaldar. Þetta fólk býr nú sumt af því í kjallarakompum, á háaloftum og í öðru óaðgengilegu húsnæði og býr þar vegna þess, að það hefur ekki efni á því að búa í því góða húsnæði, sem almenningur í þessu landi býr í. Mér finnst, að ef það er rétt, sem ég held, að við eigum kost á því að leysa þennan vanda gamla fólksins að verulegu leyti með því að nýta þessi hús fyrir þetta fólk, þá eigum við að finna leiðir til að gera það. Og ég tel, ef vilji væri fyrir hendi, bæði hjá opinberum aðilum, hjá sveitarfélögum og hjá Viðlagasjóði, að þá ætti þessi lausn að vera tiltölulega auðveld. Varðandi öryrkja gildir raunverulega hið sama og um þarfir þeirra öldruðu, að öðru leyti en því, að öryrkjarnir eru frekar fjölskyldufólk, en hins vegar eru það aðilar, sem vegna fjárhagsörðugleika, vegna takmörkunar á vinnugetu geta ekki aflað sér þeirra tekna, sem almenningur í þessu landi getur, og því ekki búið í eigin dýru húsnæði, þarf þess vegna mjög á leiguhúsnæði að halda. Þetta fólk ásamt öldruðum eru þeir aðilar þjóðfélagsins, sem bæði hér og erlendis búa yfirleitt í lélegasta húsnæðinu, fólk, sem sveitarfélögin gjarnan þurfa að sinna og sjá til þess, að búi í viðunandi húsnæði eins og aðrir í þjóðfélaginu.

Á síðasta þingi voru samþ. breytingar á l. nr. 30 frá 12. maí 1970, um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Þar var húsnæðismálastjórn heimilað að veita lán til byggingar leiguíbúða á vegum sveitarfélaga, og má lánsupphæð nema allt að 80% af byggingarkostnaði húsanna, lánstíminn 33 ár og vextir þeir sömu og af aðallánum Húsnæðismálastofnunarinnar. Reiknað var með því, að á næstu 5 árum yrði lánað út á allt að 1000 leiguíbúðir. Hefur verið leitað álits sveitarfélaga um ósk þeirra í þessu efni, og kom í ljós við fyrstu könnun, að beiðnir bárust frá 49 sveitarfélögum um lán samkv. þessari heimild, og þarna var um yfir 1072 íbúðir að ræða. Hins vegar þurfa íbúðarhúsabyggingar alllangan tíma til undirbúnings, og er ólíklegt, að mörg sveitarfélög verði reiðubúin til að hefja undirbúning að þessum byggingarframkvæmdum á þessu ári. Einmitt vegna þess hefur komið til tals að flytja inn íbúðarhús. Aftur á móti álit ég það varla ráðlegt. Við höfum gert nokkrum sinnum tilraunir til þess að flytja inn hús. Það hefur venjulega verið gert undir einhverjum erfiðum og annarlegum kringumstæðum, og þótt þau hafi komið að góðu haldi, hefur reynslan venjulega orðið sú, að þau hafa orðið jafndýr og síst betur búin en hús, sem við byggjum hér sjálfir. En þessi hús eru nú hér fyrir hendi, og þau hafa gengt sínu mikilvæga og merka hlutskipti. Þá kemur að því, að við þurfum að ráðstafa þeim og að mínu viti á þann heppilegasta hátt, sem hægt er. Og þá lít ég svo á, að þarna sé möguleiki til þess að tvennu leyti, að þau geti komið að góðu haldi, í fyrsta lagi til þess að leysa úr bráðum vanda og í öðru lagi, að Viðlagasjóður geti fengið það verð, sem hann þarf fyrir þessi hús, og fengið sina peninga á þeim tíma, sem honum hentar.

Ég legg svo til, herra forseti, að till. verði að umr. lokinni frestað og vísað til allshn.