05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2488 í B-deild Alþingistíðinda. (2304)

213. mál, beislun orku og orkusölu á Austurlandi

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Fátt eða ekkert hefur borið hærra í umr. undanfarna mánuði en orkumálin og hinn mikla vanda, sem þjóðir heims eiga við að etja í þeim efnum. Vandamálið hefur borið að fljótar og harkalegar en menn varði, sérstaklega vegna átaka fyrir botni Miðjarðarhafs. En ljóst má vera, að um var að ræða tímaspursmál, hvenær vandann bæri að höndum, þar sem olíuuppsprettur heims eru ekki óþrjótandi orkulindir. Arabaþjóðir mundu hvort sem er fyrr en seinna hafa orðið sparsamari og dýrseldari á olíu sína. Eini munurinn er sá, að nú fá olíuneytendur skemmri tíma til aðlögunar hinum breyttu aðstæðum en ella. Þess vegna er nú skyggnst til allra átta eftir nýtanlegri og sem hagkvæmastri orku.

Á fundi Norðurlandaráðs nýverið var rætt um samvinnu Norðurlandaþjóða á þessu sviði. Íslendingar þurfa a.m.k. ekki að vera þiggjendur á því sviði, en ljóst er, að við þurfum mjög að hugsa ráð okkar í því sambandi, og er alveg óþarft að fara rasandi að neinu, hver sem í hlut á, hvort heldur eru frændur vorir á Norðurlöndum eða aðrir.

Okkur hefur lengi verið ljóst, að við ættum mikinn auð fólginn í fallvötnum okkar. Aðeins örlítið brot af virkjanlegu vatnsafli hefur enn verið virkjað. Veldur þar að sjálfsögðu mestu um fjármagnsskortur, en einnig deyfð og lítil sinna við að leita að kaupendum að orku okkar. Þess má geta, að um árabil hafði Noregur sérstakan sendiherra í förum milli þjóða heims að leita eftir aðilum, sem vildu fjárfesta í Noregi, og þá sérstaklega þeim, sem álitlegastir voru kaupendurnir að orku til stóriðju. Ekki minni maður en Trygve Lie gegndi slíku sendiherrastarfi um hríð fyrir Norðmenn.

Engum orðum verður hér farið um þá afturhaldsmenn, sem legið hafa á því lagi að reyna að telja Íslendingum trú um, að þeir, sem lögðu áherslu á að leita slíkra kaupenda með stóriðju staðsetta í landinu fyrir augum, væru með því að tefla sjálfstæði þjóðarinnar í hættu, enda er svo að sjá sem þeir séu nú annarrar skoðunar, þegar þeir halda sjálfir um stjórnvölinn. Fyrrv. ríkisstj. gerði stórátak í þessum efnum með virkjun Þjórsár og byggingu álversins í Straumsvík. Var þó á brattann að sækja vegna harðrar andstöðu úrtölumanna, raunar hinna sömu sem nú bera sig að við að leita sömu ráða. Ljóst er þó, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur illa ávaxtað þann arf, sem hún tók við af fyrrv. ríkisstj. í orkumálum. Af reynslu þessa vetrar ráðum við, að í velflestum landshlutum hefur haldið við hreint öngþveiti í orkumálum, og er nú mál til komið að taka rösklega til höndum.

Stefnan í orkumálum þyrfti að vera tvíþætt: Í fyrsta lagi beislun orku til almenningsþarfa, aukið öryggi með smærri virkjunum og sem mestri samtengingu orkuveitna. Í öðru lagi stórvirkjanir með orkusölu til stóriðju fyrir augum aðallega, en þó almenningsnota eftir því sem þörf krefur. Mikill markaður er enn innanlands fyrir raforku og fer vaxandi. Stefna þarf að því, að á þeim svæðum, þar sem jarðvarma nýtur ekki við, verði íbúðarhúsnæði hitað með raforku.

Það er skoðun mín, að næg örugg og ódýr raforka sé einn mikilvægasti þátturinn í að ná æskilegu byggðajafnvægi í landinu. Nauðsynlegt er þó að láta ekki hreppasjónarmið ráða ferðinni um staðarval orkuvera, heldur hagkvæmnisjónarmíð. Með dreifikerfinu siglum við fyrir þau sker, að skipti höfuð máli, hvar orkuverum er valinn staður.

Önnur sjónarmið ráða ferðinni hvað staðarval snertir. Ég vil þó benda á, að mikið fljótræði væri að binda meginhluta virkjanlegrar orku Suðurlands í stóriðju, þar sem ljóst má vera, að hennar verður þörf í miklum mæli til almennra þarfa á langmesta þéttbýlissvæði landsins. Fyrir nokkrum árum gerðu sérfróðir menn sér ljóst, að geysileg vatnsorka var í boði til virkjunar á Austurlandi. Árið 1970 var hafist handa um rannsóknir og þær stundaðar af krafti á árunum 1970 og 1971. Árið 1972 dró mjög úr þeim, og má heita, að þær hafi lagst af með öllu á árinu 1973.

Hér er skýrt dæmi um sinnuleysið og framtaksleysið á sviði orkumála. Allar forrannsóknir benda þó til, að þarna sé þeirra kosta völ um virkjun vatnsafls, sem glæsilegastir verða að teljast í landinu. Í áætlun um forrannsóknir á vatnsorku á Íslandi, sem Orkustofnun birti í ágúst 1969, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Svo er í áætlun þessari nefnt svæðið meðfram norður- og austurbrún Vatnajökuls, þaðan sem gert er ráð fyrir að safna vatni í eina stóra virkjun, Austurlandsvirkjun, við innanverðan Fljótsdal. Hér er um að ræða nýtingu á upptakakvíslum Jökulsár á Fljótsdal, Brú og Fjöllum í einu lagi auk smærri áa í grenndinni. Virkjun þessi yrði hin langstærsta hér á landi. Áætluð vinnslugeta er um 8 þús. gwst. á ári og uppsett afl um 1 millj. kw. Í megindráttum er hér um að ræða að sameina í eina virkjun þrjár virkjanir, sem áður voru hugsaðar á þessum slóðum, þ.e. tvær í Jökulsá á Brú og ein í Jökulsá í Fljótsdal, en að auki er gert ráð fyrir að safna vatni af hálendinu austan Vatnajökuls og leiða það í Jökulsá í Fljótsdal og sækja vatn í upptakakvíslar Jökulsár á Fjöllum og veita því yfir í Jökulsá á Brú. Fallhæð Austurlandsvirkjunar er um 600 m. Þessi mikla fallhæð veldur því, að hver kílólítri vatns ofan virkjunarinnar geymir mikla orku, og því getur það svarað kostnaði að leiða vatn langan veg til nýtingar, sem ekki borgar sig við lægri fallhæðir.“

Í megindráttum er tilhögun Austurlandsvirkjunar hugsuð sem hér segir: Jökulsá í Fljótsdal er stífluð við Eyjabakkafoss og þar myndað uppistöðulón. Inn í það lón, Eyjabakkalón, er safnað með jarðgöngum vatni frá smáám og lækjum á hálendinu austur af Vatnajökli. Úr Eyjabakkalóni er vatni veitt um skurði og göng eftir brún Fljótsdals norður í Gilsárvötn. Þar er myndað lón, Gilsárlón, með stíflum um lægðir í grennd vatnanna. Úr Gilsárlóni er vatnið leitt um jarðgöng um neðanjarðarstöð undir hlíð Fljótsdals og þaðan í Jökulsá í Fljótsdal. Fallið er um 600 m, sem er mesta fallhæð í nokkurri framtíðarvirkjun hér á landi. Þessi mikla fallhæð veldur mestu um stærð virkjunarinnar. Til samanburðar má geta þess, að fallhæð Búrfellsvirkjunar er aðeins um 120 metrar. Til þess að fá virkjun þessari meira vatn til vinnslu, er Jökulsá á Brú stífluð í Hafrahvammagljúfrum með 200 metra hárri stíflu. Í nálægar lægðir eru gerðar lágar aukastíflur. Við það myndast lón, Hafrahvammalón, sem nær fram undir Vatnajökul. Vatnsborð þess verður það hátt, að leiða má vatn úr því um jarðgöng yfir í skurðinn frá Eyjabakkalóni í Gilsárlón og það fyrir því, þótt dregið sé talsvert niður í Hafrahvammalóni til miðlunar. Er Jökulsá á Brú þar með veitt úr farvegi sínum austur í Gilsárlón. Til þess að auka vatnið enn meir er gert ráð fyrir að gera veitigarða yfir aura Jökulsár á Fjöllum suður að Vaðöldu skammt norðan jökulsins og beina þeim vatnsflaumi auranna til austurs og gegnum stuttan skurð eða göng austur í vatnsuppistöðu, Kreppulón, sem myndað er í farvegi Kreppu með því að stífla hana við Fagradalsfjall. Úr Kreppulóni er vatn leitt um jarðgöng 1 Sauðá, þaðan sem það fellur í Hafrahvammalón, vatnsuppistöðuna í Jökulsá á Brú. Með þessu eru upptakakvíslar Jökulsár á Fjöllum, Brú og Fljótsdal sameinaðar í eitt. Þessi samsöfnun vatnsins ásamt mikilli fallhæð myndar grundvöll Austurlandsvirkjunar.

Þrátt fyrir veitur þessar verður meðalrennslið inn í Gilsárlón nokkru minna, en að vísu ekki miklu minna en Þjórsá við Búrfell. Svo þurr eru vatnasvið þessara straumvatna. Rennsli Jökulsár á Fjöllum minnkar að sjálfsögðu við veituna austur, og minnkar virkjanleg orka hennar sem því svarar. En það vinnst upp nálægt því tvöfalt í Austurlandsvirkjun, þar eð sama vatnið nýtíst þar á um það bil tvöfalt hærra falli en í Jökulsá á Fjöllum. Þetta liggur í því, að efri hluti Jökulsár á Fjöllum, frá 300 m yfir sjó og upp úr, er litt fær til virkjunar. Athuganir, sem gerðar hafa verið á þessum kafla, benda eindregið til þess, að þær borgi sig alls ekki. Veldur erfið jarðfræði þar mestu um, en landslagið er einnig fremur illa til virkjunar fallið, en fallhæðin dreifist á langa vegalengd. Þrátt fyrir þessa rýrnun vatns er talið víst, að hagkvæmt sé að virkja Jökulsá á Fjöllum við Dettifoss.

Í till. þeirri, sem hér liggur fyrir á þskj. 367, er lagt til, að lokið verði hið fyrsta rannsókn á byggingu Fljótsdalsvirkjunar eða 1. áfanga Austurlandsvirkjunar, sem hér var getið. 1. áfangi Austurlandsvirkjunar er stíflun Jökulsár í Fljótsdal við Eyjabakkafoss. Í það miðlunarlón, Eyjabakkalón, yrði Kelduá veitt og fleiri ám, og er sú vatnsveita nefnd Hraunveita. Miðlunarlón á Eyjabökkum er talið vera 1100 gígalítrar eða 1100 millj. litrar. Úr Eyjabakkalóni yrði lagður veituskurður um 22 km veg í Gilsárlón. Er reiknað með, að sá skurður flytji um 50 rúmmetra vatns á sekúndu. Úr Gilsárlóni yrði vatnið leitt um jarðgöng nær lóðrétt um 600 m fall í orkuver staðsett í Fljótsdal nær miðja vegu milli Valþjófsstaðar og Hóls. Hagkvæmasta stærð þeirrar virkjunar er talin vera 230–240 mw. samkv. áætlun Orkustofnunar eða um 30–40 mw. stærri en Búrfellsvirkjun.

Þótt háspennulína yrði lögð í byggð niður Fljótsdal og yfir Fagradal, er þar aðeins um 60 km leið að ræða. Á þessu svæði er veðráttan með þeim hætti, að mjög litlar líkur eru á, að raflínur lægju undir áföllum veðráttunnar vegna. Þá er þess að geta, að Austurlandsvirkjun er staðsett á því landssvæði, sem ásamt Miðnorðurlandi og Vestfjörðum verður að teljast öruggast með tilliti til hvers konar náttúruhamfara.

Að öðru leyti vísa ég til grg. með till. og eins hvað varðar staðsetningu stóriðju í Reyðarfirði, en þar segir m.a., að „Reyðarfjörður er sá eini af Austfjörðum, sem er í góðu vegasambandi við Fljótsdalshérað og þar með Egilsstaðaflugvöll. Héraðið er mjög góður landbúnaðarbakhjarl fyrir það þéttbýli, sem skapast í kringum slíka stóriðju. Nýi hringvegurinn kemur til með að tryggja nokkuð öruggar vetrarsamgöngur við þéttbýli Suðvesturlands. Hafnarskilyrði við Reyðarfjörð eru ákjósanleg, hafíshætta lítil sem engin. Frá sjónarmiði samgangna er því Reyðarfjörður með Egilsstaði og Fljótsdalshérað í bakgrunni mjög vel settur. Landrými er meira í Reyðarfirði en víðast hvar annars staðar á Austfjörðum, en slíkt er nauðsynlegt fyrir þéttbýlismyndunina. Einnig mundi háspennulínulögn frá Fljótsdal til Reyðarfjarðar vera ein sú stysta, sem völ er á. Aðeins Breiðdalsvík og Vopnafjörður geta keppt við Reyðarfjörð um landrými, en flestar aðrar aðstæður eru á hinn bóginn Reyðarfirði í vil.“

Ekki þarf að fara mörgum orðum um hina miklu og brýnu þörf, sem er á raforku. Þess má aðeins geta, að til viðbótar því, sem rætt er um sölu á meginhluta þessarar orku til þessarar stóriðju, bíða ótal verkefni úrlausnar, sem mikillar orku er þörf við. Vil ég þar nefna alla frekari nýtingu sjávarafurða, nýtingu landbúnaðarafurða, enn fremur það mikilvæga verkefni, sem er heyverkun, og mætti vel hugsa sér, að í náinni framtíð mundi vera hægt að beita raforku til þurrkunar á fóðri. Við eigum í Fljótsdal mikið land, t.d. í Vallanesi eina 400 ha., sem eru góðir undir ræktun. Mætti hugsa sér, að mætti fá af þeim eina 20 þús. hestburði eða svo. Fyrir öllu þessu þurfum við að hugsa, svo að við getum dregið stórlega úr þeim rándýru fóðurbætiskaupum, sem nú eru tíðkuð, held ég megi segja milli 20 og 25 kr. kg, og sem mest beita okkur fyrir því að styðjast við innlent fóður, enn fremur með tilliti til þess, að ekki veiti sveltandi heimi af því, að til annarra hluta en að fóðra íslenskan búsmala verði kornbirgðir heims notaðar.

Að undanförnu hafa menn velt mjög vöngum yfir, með hvaða hætti mætti tryggja fullnýtingu þess áfanga Lagarfossvirkjunar, sem nú er í smíðum. Ljóst er, að þar verður miðlun að koma til. S.l. haust varð vatnsþurrð slík í Lagarfljóti, að virkjunin hefði aðeins nýst að 1/6 eða 1/7 hluta. Öll vatnsmiðlun í Lagarfljóti sjálfu hefur í för með sér, að dýrmætu landi verður sökkt undir vatn, eða svo virðist öllum dómbærum mönnum vera. Allra annarra ráða verður að leita, áður en á slíkt ráð er brugðið. Miðlun á Eyjabökkum leysir alveg þennan vanda. Vatnsmagn þessa 1. hluta Austurlandsvirkjunar er nokkurn veginn nákvæmlega það, sem Lagarfossvirkjun þarfnast til þess að skila fullum afköstum. Einnig skal ekki gert lítið úr möguleikum til aukinna fiskræktarskilyrða í Lagarfljóti, sem þessi framkvæmd mundi skapa, því að á því sviði á Lagarfljót að öllum líkindum ótrúlega mikla framtíð fyrir sér og þverár þess. Að finna kaupendur að orkunni, eins og nú háttar í orkumálum umheimsins, ætti að vera auðvelt og samningakostir hinir hagstæðustu. Er þó enn góður tími og nægur til að vinna að þeim þætti málsins, þar sem mikið verk er fyrir höndum, áður en orkuframleiðsla getur hafist, enda er á hinn bóginn rétt að fara sér ögn hægt um hríð í orkusölumálum. Skynsamlegast virðist að sjá aðeins til, hvernig setjast muni til í þeim grugguga polli, sem orkumál öll eru nú í. Þó þarf hagstæður orkusölusamningur að vera fyrir hendi, samtímis því sem lokaákvörðun er tekin um virkjunarframkvæmdir.

Vík ég þá að þriðja og síðasta lið tillögugerðarinnar, sem er, að hraðað verði rannsóknum á hagkvæmni virkjana í Fjarðará og Geithellnaá. Um nauðsyn þess vísa ég til þess, sem ég áður sagði um nauðsyn hraðra framkvæmda við smærri virkjanir til að bæta úr hinni brýnu orkuþörf. Í frumáætlun um virkjun Geithellnaár, sem verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsens gerði í júní 1973, er ert ráð fyrir 5.5 mw, virkjun í Geithellnaá í Álftafirði. Áætlaður stofnkostnaður, miðað við verðlag þá, var 296 millj. kr. Af áætluninni má marka, að virkjun þessi virðist að mörgu leyti vera hagstæð. Með virkjun Geithellnaár er sérstaklega haft í huga að tengja hana orkuveitu Smyrlabjargaár, en vegalengd þaðan til Hafnar í Hornafirði er mæld eftir þjóðvegi 71 km, en til Djúpavogs um 29 km. Óþarft er að rifja hér upp það neyðarástand, sem varð í orkumálum í Austur-Skaftafellssýslu s.l. haust. Sú saga mun endurtaka sig, ef ekki er flutt orka annars staðar frá. Raunar gildir það um allt Austurland, að þar má ekkert út af bera, svo að ekki leiði til stórfellds ófarnaðar, auk þess sem meginhluti núverandi orku er rándýr dísilorka.

Um Fjarðará í Seyðisfirði er það að segja, að áratugir eru liðnir síðan hafist var handa um rannsókn á virkjun hennar. Raunar var hún með fyrstu ám, sem virkjaðar voru, í smáum stíl til rafmagnsöflunar fyrir Seyðisfjörð. Árið 1947 bentu verkfræðingarnir Höskuldur Baldvinsson og Sigurður Thoroddsen á Fjarðará sem ákjósanlega til virkjunar. Töldu þeir, að með tveimur virkjunum í Fjarðará mætti fá um 5 þús. kw. orku. Ítarlegar mælingar og rannsóknir aðrar munu liggja fyrir um virkjun árinnar, og ætti því að taka skamman tíma að ganga úr skugga um hagkvæmni virkjunar þar.

Ég legg svo að lokum mikla áherslu á nauðsyn þess, að till. þessi fái sem greiðastan framgang, svo að hefjast megi handa hið allra fyrsta um þau brýnu verkefni, sem tillögugerðin fjallar um. Ég vil svo, herra forseti, leggja til. að umr. um till. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.