05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2493 í B-deild Alþingistíðinda. (2305)

213. mál, beislun orku og orkusölu á Austurlandi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Við þm. Austf. könnumst vel við efni þessarar þáltill., vegna þess að við höfum unnið saman að þessum málum undanfarið, m.a. átt fund með hæstv. raforkuráðh. til þess að halda fram efni þess, sem stendur í 1. og 3. tölulið þessarar ályktunar, og lagt í því sambandi ríka áherslu á þann orkuskort, sem sýnilega verður mjög fljótlega á Austurlandi, og að leitað verði með sem mestum hraða nýrra skynsamlegra leiða til þess að bæta úr honum.

Við það, sem hv. flm. sagði um þessa liði, hef ég því raunar einu að bæta, að mér finnst vanta inn í þetta einn lið, sem við höfum bæði rætt okkar í milli og eins við hæstv. raforkuráðh., og það er, að athugað verði til fulls um hagkvæmni þess að tengja Austurland öðrum landshlutum, eða réttara sagt að fá tengilínu að norðan og austur eða að austan og norður eftir því, hvernig menn vilja orða það, sem sé að tengja raforkukerfi Austurlands raforkukerfi Norðurlands og þar með vonandi raforkukerfi landsins alls. Mér finnst þetta vera atríði, sem þyrfti að leggja sérstaka áherslu á, vegna þess að ég hef ekki trú á því, að raforkumál landsins komist í rauninni úr því öngþveiti, sem þau hafa siglt inn i, með öðru móti en því að tengja sem allra mest saman kerfin. Þegar það hefur verið gert, verður hægt að virkja eftir því sem hagkvæmast er fyrir heildina og leiða rafmagnið til og frá, eftir því sem skynsamlegast er. Og þá hverfur, held ég, nokkurn veginn öll hreppapólitík úr raforkumálum, sem óneitanlega hefur gert verulegt tjón í ýmsum dæmum.

Ég set ekki hér langa ræðu til þess að rekja kosti þess að tengja kerfin saman. Það hefur oft verið gert, en mér finnst, að það þyrfti að koma inn í þáltill. sem einn kröftugur liður að vinna með sem mestum hraða að því að komast að fullri niðurstöðu um þetta mál og hrinda því í framkvæmd.

Ég vil leggja áherslu á það með flm., að þessar leiðir allar til þess að efla raforkuframleiðsluna verði athugaðar sem flestar og með sem mestum flýti, því að hér liggur sannarlega mikið á.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um annan lið þáltill.: „að leitað verði eftir kaupanda raforku með stóriðju staðsetta á Reyðarfirði fyrir augum“. Ég er með því að gera Reyðarfjörð að iðnaðarmiðstöð og koma þar upp mögnuðum iðnaði, en ég vil, að sá iðnaður verði á vegum Íslendinga sjálfra. Ég tel það höfuðatriði, að sá iðnaður, sem þjóðin kemur upp framvegis, verði á vegum Íslendinga sjálfra, þannig að þeir hafi a.m.k. meirihlutaeign í þeim félögum, sem sett verða upp til að reka iðnað, og geti ráðið sjálfir þeim atvinnurekstri.

Ég hef enga trú á því, að dvergþjóð eins og Íslendingar, — og ég hef sagt það kannske 100 sinnum áður, — ég hef enga trú á því, að dvergþjóð eins og Íslendingar haldi raunverulegu sjálfstæði sínu, ef verulegur hluti af atvinnurekstri landsmanna verður á vegum útlendra aðila. Það er óhugsandi. Þess vegna verður að mínu viti að fylgja fast fram þeirri stefnu, að iðnaðurinn verði á vegum Íslendinga sjálfra. Við eigum svo mikla möguleika í sambandi við þessi mál. eftir að við höfum fært út landhelgina og tekið upp skynsamlega stefnu í atvinnumálum, að það á að vera hægt að koma þessu þannig fyrir.

Í annan stað álit ég, að við eigum ekki að koma upp mengunariðnaði, hvorki á Reyðarfirði né annars staðar. Við þurfum þess ekki. Við getum lifað án þess. í raun og veru er kannske hreint loft, ómengað vatn og viðkunnanlegt umhverfi ríkustu þættirnir í okkar þjóðarauði, ef við lítum rétt á málin. Og við erum ekki í neinu því hraki með bjargræðisvegi, að við þurfum að líta við því óráði að koma hér upp mengunariðnaði. Þess vegna eigum við að vera mjög vandlát með þann iðnað, sem við komum hér upp og notum raforkuna til þess að reka, — mjög vandlát.

Í sambandi við það, sem rætt er um okkar mikla vatnsafl og annað slíkt, þá vil ég taka undir það, sem hv. flm. sagði, að við eigum að fara okkur hægt um hríð í orkusölumálum. Það er sannarlega full ástæða til þess að taka undir þessi orð hv. þm. Í fyrsta lagi er það, að þær tölur, sem hér hafa verið notaðar um vatnsaflið, virkjanlegt vatnsafl, eru alveg úreltar orðnar. Þær eru settar upp gersamlega án tillits til umhverfissjónarmiða, alveg án tillits til þeirra. Þær eru beinlínis byggðar á því, að stórir hlutar landsins séu settir undir vatn, en engum dytti nú í hug að líta við að fara þannig að. Og þessar tölur eru notaðar enn. Ég tók eftir því, að forráðamenn landsins, sem komu fram í Norðurlandaráði, nota enn þessar tölur. En um þessi efni hefur m.a. formaður Landsvirkjunarstjórnarinnar, Jóhannes Nordal, sagt, að hann gerði ráð fyrir því, að það yrði e.t.v. að lækka þessar tölur um þriðjung, miðað við þau viðurkenndu sjónarmið í umhverfismálum, sem nú væru efst á baugi og mundu verða hér eins og annars staðar.

Einmitt þessi atriði eru til þess fallin að opna augu okkar fyrir því, að við verðum að endurskoða öll þessi mál frá rótum í ljósi þeirra nýju viðhofa, sem eru búin að vinna sér fylgi og menn eru farnir að koma sér niður á. Það verður að endurskoða allar áætlanir um virkjanlegt vatnsafl á Íslandi frá rótum og þar með allar eldri fyrirætlanir um stóriðju og annað slíkt í því sambandi. Og það er ekki síst ástæða til að gera þetta vegna þess, að við hljótum að gera okkur ljóst, að það verður beinlínis sótt á að koma inn á okkur mengunariðnaði á næstunni. Það verður beinlínis sótt á að koma hér upp iðnaði, sem aðrir vilja vera lausir við.

Iðnrh. Svíþjóðar hefur nýlega lýst því yfir, að líklega væri það aðeins helmingur af ónotuðu vatnsafli, sem þeir vilja nýta frá umhverfissjónarmiði séð, og þannig mætti rekja. Norðmenn hafa endurskoðað allar sínar áætlanir í þessu tilliti frá sama sjónarmiði og lækkað áætlanir sínar um virkjanlegt vatnsafl út frá þessum viðhorfum.

Það verður auðvitað sótt á frá ýmsum stöðum að koma upp hér ýmsum iðnaði. Það verður áreiðanlega enginn vandi að fá erlenda aðila til þess að koma hér upp iðnaði á næstunni, það er alveg víst. En við verðum að vera mjög vandlát frá mínu sjónarmiði séð í þessum efnum og líta raunsætt og af fullri skynsemi á þessi mál og hafa þá ekki síst þau sjónarmið í huga, að við ráðum sjálfir yfir okkar eigin atvinnurekstri.

Það verða áreiðanlega ekki mikil vandkvæði fyrir okkur að fá fjármagn til þess að koma upp góðum iðnaðarfyrirtækjum á næstunni, án þess að þurfa að hafa þau í eigu erlendra aðila. Það er ekki um að villast, að það verður engum erfiðleikum bundið, eins og þessi mál eru að snúast og með jafngóða aðstöðu og við höfum í orkumálum, þótt við þurfum að endurskoða okkar eldri áætlanir. Þess vegna lít ég afar björtum augum á framtíðina, bæði í orkumálum og iðnaðarmálum.

Ég ætla algerlega að leiða það hjá mér að ræða smáglósur, sem hv. flm. var með í þessu sambandi um óraunsæi þeirra, sem hafa varað við ýmsu, sem gert hefur veríð. Ég vil ekki vera að blanda inn í þetta umr. t.d. um það, hversu raunsætt það var, að raforka væri að verða einskis virði, menn þyrftu að flýta sér að selja hana og koma upp sem flestum stóriðjuverum, áður en hún yrði einskis virði, o.s.frv. Við getum endalaust verið að kýta um slíkt, en ég mun ekki gena það og láta nægja að minna á, að við ættum að gera okkur grein fyrir því, að viðhorfin í þessum málum eru gerbreytt og við þurfum að endurskoða þetta allt frá rótum. Og eins og ég sagði áðan, tek ég mjög undir það, sem hv. þm. sagði um það, að við þurfum að fara okkur hægt um hríð í þessu;m málum, einmitt til þess að átta okkur á því, hvað raunverulega er að gerast.

Kosti eigum við mjög mikla í þessu, um það er ekkert að villast, og við ættum að geta komið hér á fót miklum iðnaði með stuðningi okkar orkulinda án þess að ganga of nærri landinu. Ég er sannfærður um, að það er hægt. En þá megum við náttúrlega ekki vera of ógætin í því að láta orkuna. Við verðum í því tilliti auðvitað fyrst og fremst að hugsa um okkar hag, hvað heppilegast yrði fyrir okkur að láta mikið af orku í þetta eða hitt, og ekki vakna upp við það einn góðan veðurdag, að við séum búin að ráðstafa allt of miklu af orkunni í það, sem við gjarnan vildum vera laus við og vildum heldur nota hana í annað, Við verðum einnig að gefa því góðan gaum, að orkunotkun til alls konar rekstrar og þarfa vex með tröllaskrefum og miklu hraðar en nokkur hefur getað gert sér grein fyrir. Þetta allt verður að hafa í huga.

Ég hef undanfarið stundum verið að hugsa um að flytja þáltill. í þá átt, að þessi mál yrðu öll endurskoðuð frá rótum í ljósi þessara nýju viðhorfa. Ég hef ekki gert það, enda hafa aðrir flutt hér mál, sem koma mjög nærri því að fjalla um það efni.