05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2504 í B-deild Alþingistíðinda. (2310)

218. mál, verkleg kennsla í sjómennsku

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Fjarri er mér að draga úr slíkri till. eða öðrum, sem hafa komið fram á því sviði að auka menntun og reynslu þeirra manna, sem sjó stunda á fiskiskipum okkar Íslendinga. En undarlegt þykir mér, ef hægt er að flytja slíka till., sem fellur undir verklega kennslu sjómanna á hinum minni fiskiskipum sérstaklega, ef ekki er um leið haft í huga það sem auðvitað er grundvallarreglan og hlýtur að vera undirstaðan í sambandi við kennslu á þessum sviðum, þ.e. að kenna öryggi á sjó. En öryggi á þessum skipum verður ekki kennt, nema þar komi nokkur kostnaður til.

Við hlustuðum á það fyrir nokkrum dögum í Sþ., að það var ekki hægt að beita fullu öryggi, vegna þess að ekki hafði fengist fjárveiting frá fjárveitingavaldinu, þar sem hv. flm. og frsm. fyrir þessari till. m.a. á sæti. Það var ekki hægt að ná fjárveitingu fram til að mæta því öryggi, sem nauðsynlegt er á þessum skipum, sem hann mælti sérstaklega fyrir, að þyrfti að kenna unglingum að starfa á.

Við höfum haft aðra till. hér í dag í sambandi við það að gera nokkurs konar flotastöð í Flatey á Skjálfanda, gera þar sjóvinnubúðir. Það er gott, ef þetta verður ekki kallað einhvern tíma í framtíðinni Gulag eyja fangabúðirnar, þegar verður farið að flytja unglinga þangað til þess að vera þar.

Ég hefði álitið samt sem áður, að það mætti sameina þessar tvær till. og koma nokkuð á móti hv. flm., eins og þegar hefur legið fyrir hv. Alþ. árum saman, að við getum verið í sambandi við sjóvinnuna, með fljótandi skólaskip, sem getur farið á milli staða og kennt unglingum, verið 2–3 vikur á hverjum stað. Vera má, að staðarsjónarmiðin ráði svo miklu hjá þeim, að það verði endilega að ákveða þá. Ég held, að það þurfi ekki endilega. Verkleg kennsla í sjómennsku, eins og hv. flm. orðaði það, er góðra gjalda verð, og við eigum að styðja hana. En ég held, að við þurfum að skoða málið töluvert betur en fram kemur í tillögu hans.