05.03.1974
Sameinað þing: 64. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2507 í B-deild Alþingistíðinda. (2314)

220. mál, starfsréttindi kennara

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Í till. þessari til þál. á þskj. 382 er lagt til, að Alþingi álykti að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að fræðsluyfirvöld haldi námskeið fyrir starfandi kennara á barna- og gagnfræðaskólastigi, sem hafi ekki kennararéttindi. Skal við það miðað, að þeir hafi verið settir um óákveðin tíma eða gegnt fullu starfi í a.m.k. 5 ár, enda mælir viðkomandi skólastjóri og fræðsluráð eða skólanefnd með því. Námskeið þetta skuli vera eitt sumar og haldið tvívegis a.m.k., sumurin 1974 og 1975. Að því loknu skuli viðkomandi kennari hafa full starfsréttindi á því stigi, sem hann kennir við.

Ástæðan til þess, að þessi till. er fram borin, er sú, að eins og ástandið hefur verið í skólamálum, hefur mikið skort á það, að kennarar með full starfsréttindi hafi fengist til þess að kenna við hina ýmsu skóla víðs vegar um landið. Þannig er nú talið t.d., að um 100 skólakennarar á barnaskólastigi hafi ekki full kennararéttindi, og sömu sögu er að segja úr gagnfræðaskólunum, að það er verulegur hópur kennara starfandi þar, sem ekki hefur lokið tilskildum prófum. Réttarstaða þessara kennara er mjög óörugg og nánast þannig í mörgum tilfellum, að kennararnir eru ráðnir frá ári til árs, en verða síðan að víkja, ef um stöðu þeirra sækir maður með full réttindi, jafnvel þótt þannig standi á, að nokkurn veginn megi segja með fullri vissu, að viðkomandi kennari muni ekki dveljast til langframa á þeim stað, sem um ræðir. Margir þessara réttindalausu kennara hafa rækt störf sin með mikilli prýði um árabil og beinlínis bjargað því, að unnt hefur verið að halda uppi skólastarfi. Þetta fólk hefur lagt mikið á sig í sjálfsnámi og að auki öðlast gegnum langt starf mikla reynslu og þekkingu, sem er áreiðanlega virði þó nokkurrar skólagöngu. Á hinn bóginn hlýtur það að vera skylda ríkisvaldsins að kosta nokkru til þess, að þeir menn, sem við kennslu fást, hafi nauðsynlega undirbúningskunnáttu og fræðslu, og sýnist sanngjarnt, bæði gagnvart nemendum og eins gagnvart þessum kennurum, að Alþingi taki af skarið um það, að þetta starfsfólk njóti þess, sem það hefur vel gert á liðnum árum, og efnt verði til sumarnámskeiðs fyrir það. Hér er um fullorðið fólk að ræða, sem mundi nota slíkt námskeið mjög vel og hafa mikið gagn af því. Þetta fólk mundi leggja sig fram um að geta notið alls þess, sem þar fer fram, og áreiðanlegt er, að það yrði auðvelt fræðsluyfirvöldum að leiðbeina þessu fólki um það, hvernig það gæti undirbúið sig, áður en námskeiðin hæfust, þannig að fólkið væri með á nótunum um það, sem þar væri að fara fram.

Að mínu áliti er það ekki sæmandi af ríkisvaldinu að nota starfskrafta þessa fólks, á meðan ríkisvaldið þarf á því að halda, en síðar meir, þegar fólkið er farið að reskjast, þá eigi kannske að kasta því út á kaldan klakann og láta það taka upp aðra atvinnu, sem það hefur ekki gegnt. Þá er önnur alvarleg hlið á þessu máli, og það er sú reynsla, sem orðið hefur af Kennaraháskólanum, síðan hann tók til starfa, með 7 ára nám að loknu landsprófi. Eins og Kennaraskólinn var áður, útskrifuðust þaðan um 200 kennaraefni á hverju ári og nægði þó ekki til þess að fullnægja eftirspurninni. Nú eru horfur á því, að fullærðir kennarar verði árlega frá 12 og upp í 20 á næstu árum, og þarf ekki mörgum orðum að fara um það, hvert stefnir í þessum efnum, að við erum síður en svo þannig á vegi stödd og það hefur ekki verið staðið þannig að, að við getum búist við fullmenntuðum kennurum í öll þau störf, sem losna, hvað þá að taka við störfum af þeim kennurum, sem vel hafa reynst á undanförnum árum.

Ég vil í þessu sambandi geta þess, sem vel er gert. Nú er starfandi á vegum fræðsluyfirvalda og undir umsjón Kennaraháskólans kennaranámskeið, bréfaskóli, fyrir réttindalausa kennarar eiga erfitt um vik að nýta bréfaskólvissum skilyrðum. Ætlunin er, að námskeiðið haldi áfram næsta sumar og verði þá um tveggja mánaða skeið. Hefur komið í ljós, að ýmsir kennarar eiga erfitt um vik að nýta bréfaskólann sem skyldi, m.a. vegna þess, að kennarar hafa ekki getað dregið úr kennslu eins og þeir hefðu kosið vegna brýnnar þarfar við þær kennslustofnanir, þar sem þeir starfa, þannig að það hefur sýnt sig, að þetta fyrirkomulag hefur ekki reynst jafnvel og vonir stóðu til, þótt að sjálfsögðu sé það rétt, að sumir kennaranna hafa getað staðið við að leysa þau verkefni, sem þeim hafa verið send. Ég álít, að reynslan af þessu námskeiði sýni okkur, að við eigum að stefna að því að reyna að hafa námskeiðin lengri að sumrinu til og búa þannig um, að úr þessu verði samfellt nám, sem hægt sé að ganga að eins og hverri annarri vinnu, en ekki eins og verið hefur, að slíta kennarana frá kennslunni með bréfaskóla, þó að það sé, eins og ég sagði, miklu betra en ekkert slíkt væri.

Ég vil taka það skýrt fram, að tilgangurinn með þessum tillöguflutningi er ekki sá að gera lítið úr því, að kennarar komi vel menntaðir til starfa. Það, sem hér er verið að leggja til, er að kennurum, sem ekki hafa kennararéttindi, en eru þó starfandi kennarar og hafa verið um margra ára skeið, takist að fá kennararéttindi, enda hafi þeir áður setið kennaranámskeið, lokið tilskildum prófum og fræðsluyfirvöld, annaðhvort skólanefnd eða fræðsluráð auk skólastjóra, mæli með því, að þessir kennarar fái heimild til að sitja kennaranámskeiðið. Það er rétt, að það hefur verið á undanförnum árum nokkur hópur af fólki, sem hefur farið úr einum skólanum í annan og ekki fests í sessi, og hér er ekki lagt til, að það fólk fái að sitja þessi námskeið. Hér er miðað við það, að viðkomandi hafi kennt, eins og ég sagði, 5 ár í fullu starfi eða verið settur um óákveðinn tíma. Það á að vera nægileg trygging fyrir því, að einungis hæfir kennarar sæki viðkomandi námskeið og fái skipun í stöðu:r sínar eftir þau.

Ég vil að lokum aðeins segja það, að það hefur lengi verið baráttumál t.d. Landssambands framhaldsskólakennara að fá botn í kennaramálin, eins og þau eru, og ég álít, að til þess að hægt sé að setja fyllstu kröfur um starfsréttindi kennara, eins og komið hefur til tals, sé nauðsynlegt, að þessi undirbúningur hafi áður farið fram.

Ég vil svo að lokum aðeins lýsa þeirri skoðun minni, að ég álít, að það geti ekki komið til greina, að menn, sem gegna sömu störfum svo að árum skiptir, séu flokkaðir í mismunandi launaflokka eftir þeirri menntun, sem þeir hafa upphaflega hlotið. Ég álít, að við eigum að stefna að því, að menn, sem gegna sömu störfum, fólk, sem er látið gegna sömu stöðum og er þar af leiðandi frá sjónarmiði ríkisvaldsins hæft til að gegna þeim, eigi að bera jafnmikið úr býtum.

Ég legg svo til, að umr, um þessa þáltill. verði frestað og henni vísað til allshn.