06.03.1974
Efri deild: 71. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2528 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

250. mál, vélstjóranám

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Þegar ég mælti í hv. d. fyrir nokkru fyrir frv. á þskj. 276 um breyt. á l. um Hótel- og veitingaskóla Íslands, gat ég þess, að í vændum væru tvö svipuð frv. um að veita fulltrúum nemanda setu í skólanefndum framhaldsskóla. Þau liggja nú fyrir og eru á þskj. 438 og 439. Frv. á þskj. 438 fjallar um breyt. á l. nr. 67 frá 1966, um vélskólanám, og frv. á þskj. 439 fjallar um breyt. á l. nr. 55 frá 1971, um fiskvinnsluskóla. Frv. eru að öllu leyti hliðstæð. Vil ég leyfa mér að mæla fyrir þeim báðum í senn og geri mér vonir um, að engir sjái ástæðu til aths. við, að sá háttur sé á hafður.

Þessi frv. fela það í sér, að skipun skólanefnda við skólana, sem í hlut eiga, Vélstjóraskólann og Fiskvinnsluskólann, sé færð til samræmis við það fyrirkomulag, sem á nokkrum undanfarandi árum hefur orðið að reglu í framhaldsskólum, sem sé að fulltrúar kjörnir af nemendum eigi sæti í skólanefnd eða skólastjórn, eftir því sem við á. Þessi skipan hefur komist á smátt og smátt, ýmist í heilum flokkum framhaldsskóla eða í einstökum sérskólum, eftir því sem löggjöf um þá hefur komið til endurskoðunar.

Nú er þróunin svo langt komin í þessu efni, að í þeim skólum, sem eftir eru, mega nemendur teljast lakar settir og búa við rýrari rétt en jafnaldrar þeirra í öðrum skólum. Því hefur þótt rétt að bera fram frv. um þessa einu breytingu á l. um nokkra skóla, að nemendur þeirra fái aðild að skólanefnd.

Þessu fyrirkomulagi fylgir nokkur breyting á tveim atríðum varðandi skólanefndirnar, annars vegar um skipunartíma þeirra, hins vegar hversu málum sé ráðið til lykta í þessum nefndum. Þykir einsætt, að fulltrúar nemenda séu ekki skipaðir til lengri tíma en eins árs, þótt fulltrúar annarra aðila, sem í skólanefndunum sitja, hafi þann skipunartíma, sem áður hefur ríkt, að jafnaði 4 ár. Þá verður tilkoma nýs fulltrúa í nefndunum, fulltrúa nemenda, til þess, að þar er ekki lengur um oddatölu nefndarmanna að ræða. Til þess að ráða málum til lykta, ef atkvæði verða jöfn, er kveðið svo á, að atkvæði formanns ráði úrslitum.

Ég vil leyfa mér að leggja til. herra forseti, að eftir þessa umr. verði málum þessum báðum, á þskj. 438 og 439, vísað til hv. menntmn.