06.03.1974
Efri deild: 71. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2529 í B-deild Alþingistíðinda. (2331)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv., sem flutt er til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin 11. jan. á þessu ári. Brbl. þessi voru sett til þess að leita eftir lagabindingu á samkomulagi, sem gert var í sambandi við verðákvörðun á loðnuafurðum og fiskverði almennt um áramótin. Frv. gerir ráð fyrir, að lagt verði sérstakt nýtt útflutningsgjald á loðnuafurðir, þ.e.a.s. á loðnumjöl, loðnulýsi og frystar loðnuafurðir til manneldis. Þessu gjaldi er síðan áætlað að verja á þann hátt, að fyrst og fremst verði það notað til að greiða niður verð á brennsluolíum til fiskiskipaflotans nú á vetrarvertíð, þannig að hægt sé að tryggja fiskiskipunum sama verð á brennsluofnum og hér var í gildi í nóvembermánuði s.l. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að 25 millj. kr. af þessu útflutningsgjaldi verði látnar renna til lífeyrissjóða sjómanna, og þá um leið leitað eftir samkomulagi við þá um að færa niður aldursmörkin í sambandi við eftirlaunagreiðslur til sjómanna úr lífeyrissjóðunum.

Það er gert ráð fyrir því, að þessi gjaldtaka, þetta nýja 5% útflutningsgjald á loðnuafurðum, muni nema í kringum 250 millj. kr., og mundu þá renna um 225 millj. kr. til verðlækkunar á olíu til fiskiskipaflotans á þessu tímabili, en 25 millj., eins og ég sagði, til lífeyrissjóða sjómanna.

Ástæðurnar til þess, að þessi leið var farin í sambandi við verðákvörðunina á sjávarafurðum nú um áramótin, voru þær, að þegar var þá skollin á mikil verðhækkun á brennsluolíum og ekki sýndust vera möguleikar á því að tryggja fiskiskipunum eðlilegan rekstrargrundvöll, miðað við þau skiptakjör, sem í gildi eru, ef útgerðin yrði látin borga að fullu það nýja og fyrirsjáanlega verð, sem vitað var um, að mundi verða á brennsluolíum. Þá var sem sagt samkomulag gert á milli aðila, sem störfuðu í Verðlagsráði sjávarútvegsins, um að ráðstafa nokkrum hluta af verðmæti væntanlegs loðnuafla á þennan hátt, að í stað þess, að annars hefði þessi fjárhæð að mestu leyti eða öllu leyti runnið í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, þá skyldi henni varið á þessu tímabili á þennan hátt, sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Frv. þetta er því í rauninni flutt til þess að staðfesta með l. það samkomulag, sem varð í yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins, þar sem þeir aðilar, sem raunverulega eiga það fé, sem hér er um að ræða, urðu sammála um að ráðstafa því á þennan hátt. Þrátt fyrir þessa gjaldtöku hefur verið unnt að tryggja mjög verulega verðhækkun á loðnu til fiskiskipanna og sjómanna frá því, sem áður var. Lætur nærri, að verð á loðnu til frystingar hafi hækkað um 100% frá árinu á undan og verð á loðnu til vinnslu í bræðslum hafi hækkað um 70–90% eftir því, við hvaða tíma er miðað á árinu. Hér var sem sagt um miklu meiri hækkun á þessum fiski að ræða til framleiðenda en var til annarra í sambandi við aðra fiskframleiðslu.

Það hefur verið bent á það í sambandi við þessa ákvörðun, að það gæti verið hæpið að færa á þennan hátt fjármuni frá einni framleiðslugrein yfir til annarrar, og ég er m.a. í þeim hópi, að ég tel, að það beri að fara mjög varlega í slíkum efnum og að meginreglan verði að sjálfsögðu að vera sú, að hver einstök framleiðslugrein verði að búa við sína eigin afkomu, njóta hennar, þegar hún er góð, en gjalda þess þá að einhverju leyti, þegar um rekstrarerfiðleika eða lakari afkomu er að ræða. Ég tel þó fyrir mitt leyti, að í þessu tilfelli hafi þetta verið fyllilega réttlætanlegt, þar sem þannig stóð á, að ein framleiðslugreinin skar sig þarna mjög úr frá öllum hinum. Hér var um miklu betri afkomu að ræða, meiri hækkun til framleiðslunnar en til allrar annarrar, og þó voru kjörin fyrir tvímælalaust betri en í öðrum greinum. Hægt var að trygg,ja þessari framleiðslugrein mjög góða afkomu þrátt fyrir þessa gjaldtöku, þannig að því varð ekki neitað, að hér yrði þrátt fyrir þetta um það að ræða, að nokkur hætta yrði á óeðlilegum tildrætti í sambandi við framleiðslustörfin. Enda hefur óneitanlega borið á því, að sú mikla hækkun, sem ákveðin var á verðinu á loðnu til fiskiskipa og sjómanna að þessu sinni, hefur orðið til þess, að fleiri hafa sótt eftir því að stunda þessa framleiðslu en fyllilega hafa aðstöðu til þess með góðu móti að stunda þessar veiðar á þessum árstíma. Það hafa sem sagt ýmsir hneigst til þess að sækja eftir þessu háa verði, sem ákveðið hefur verið, og fara frá annarri nauðsynlegri framleiðslu vegna þess, hve hér var um miklu betri afkomu að ræða en í öðrum framleiðslugreinum. En ég vil leggja áherslu á, að það, sem hér er um að ræða, er þó fyrst og fremst það, að fjármunum, sem annars, miðað við þá verðlagningu, sem samkomulag varð um, hefðu runnið í Verðjöfnunarsjóð, því að eftir sem áður rennur allmikið í Verðjöfnunarsjóð af þessari framleiðslu, — þeim er varið á þennan hátt og þeim er varið af eigendum þessa fjármagns samkv. þeirra eigin samkomulagi.

Þetta frv. hefur fengið afgreiðslu í hv. Nd., þar sem mjög sterk samstaða var um afgreiðslu málsins, og ég vænti að það geti einnig orðið í þessari hv. d. Ég tel ekki þörf á að hafa fleiri orð um þetta mál hér við 1. umr., nema sérstakt tilefni gefist til lengri umr. af minni hálfu, en vil óska eftir því, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. til fyrirgreiðslu.