06.03.1974
Efri deild: 71. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2541 í B-deild Alþingistíðinda. (2335)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég sé nú, að hv. 2. þm. Reykv. hefur ekki heldur áttað sig á því, um hvað þetta frv. raunverulega snýst, að hér er um það að ræða að staðfesta með lögum samkomulag, sem þeir aðilar hafa gert með sér, sem hafa lögum samkv. rétt til þess að ákveða fiskverð um áramót. Hann talar hér um það, að ég sem ráðh. sé að beita sérstöku stjórnskipunarvaldi og sérstakri pólitík. Það er ekki ég, sem hef ákveðið þetta, heldur hafa aðilar gert með sér samkomulag, sem óskað er eftir staðfestingu á. Ef hann þarf að finna eitthvað sérstaklega að því, þá ætti hann að beina skeytum sínum til annarra en ríkisstj. Hún aðeins fellst á það og þykir réttlátt að staðfesta þetta, eins og gert hefur hér verið margsinnis áður, þegar þessir aðilar hafa gert með sér samkomulag. Þetta ætla ég, að hv. þm. skilji, a.m.k. þegar búið er að benda honum á það, þó að hann kannske kjósi að halda áfram að stagast á einhverju öðru.

Þá segir hv. 2, þm. Reykv., að það sé eins og fyrri daginn, hér sé aðeins um það að ræða að gera bráðabirgðaráðstafanir, en ekki um heildarráðstafanir að ræða. Hér er, eins og ég sagði, verið að staðfesta samkomulag, sem var miðað við bæði ákvörðun á fiskverði og ákveðinn rekstrargrundvöll, sem var aðeins til tiltekins tíma, til maíloka. Hér var ekki verið að gera almennar ráðstafanir að öðru leyti. Ég hygg, að það séu fáir, sem treysta sér til þess, miðað við þær aðstæður, sem við búum við nú í dag, að segja til um það, hvaða ráðstafanir skuli gilda út allt árið, hvað þá lengra fram í tímann, varðandi m.a. rekstraraðstöðu þeirra, sem mjög verða að byggja á olíuverði. (Gripið fram í.) Já, ég ætlaði einmitt að koma að því, af því að þessi hv. þm. fór þar auðvitað rangt með eins og í öðrum greinum. Það er því sjálfsagt að upplýsa hann um það. Það er ekki rétt, eins og hann hefur lesið í Morgunblaðinu, að það hafi verið lofað að hafa óbreytt olíuverð út allt árið. Það er auðvitað rangt. Hv. þm. verður að passa sig á því og reyna að trúa með gætni því, sem stendur í því blaði. Hið rétta var samt sem áður birt víða, og hann hefði getað aflað sér upplýsinga um það. Það, sem ríkisstj. sagði í sinni yfirlýsingu í sambandi við þetta samkomulag, var á þessa leið:

Ríkisstj. telur, að við ákvörðun almenns fiskverðs hinn 1. júní n.k., þegar næst byrjar verðlagstímabil, beri að stefna að því, að rekstrargrundvöllur þorskveiðibáta raskist ekki í meginatriðum frá því, sem við er miðað við fiskverðsákvörðunina um áramótin 1973–74.“

Síðan heldur áfram: „Hækki olíuverð frá því, sem við er miðað um áramót, umfram það, sem fiskverðshækkun, annar tekjuauki eða létting gjalda fyrir útgerðina getur staðið undir með eðlilegum hætti, þyrftu að koma sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja rekstur þorskveiðiskipa, sem landa afla sínum hérlendis, á síðari helmingi ársins, og munu verða gerðar ráðstafir í þeim efnum, eftir því sem nauðsynlegt kann að reynast.“

Það, sem hér er sagt er það, að sá grundvöllur, sem samið var um um áramótin varðandi rekstrarafkomu fiskibátsins, sem lagður er til grundvallar, væri þannig, að stjórnvöld viðurkenna, að það þurfi að tryggja hliðstæða afkomu og þar var samíð um, komi í ljós við næstu fiskverðsákvörðun, að útgerðin geti ekki sjálf með eðlilegum hætti staðið undir gjöldum sínum. Ef einhver gjöld hafi komið til, sem fara þar fram úr, verði að gera ráðstafanir til þess, að þessari útkomu verði náð. En sem sagt, það getur enginn sagt um það á þessu stigi, hvað verður olíuverðið þá né annar rekstrarkostnaður. Við getum ekki heldur sagt um, hvað verður þá gildandi fiskverð á okkar útflutningsmörkuðum eða hverjar aðrar tekjur hafa komið til hjá útgerðinni. En hitt er viðurkennt, að það verði að reyna að ná þeim jöfnuði, sem gengið var út frá í þessum samningi. Það var auðvitað skýrt tekið fram af hálfu ríkisstj. á þessum tíma, að hér væri ekki nein skuldbinding um niðurgreiðslu á olíuverði út allt árið eða aðrar slíkar ráðstafanir. Það yrði að fara eftir aðstæðum þegar þar að kæmi.

En hvað verður þá gert, þegar kemur að næsta verðtímabili? Því get ég ekki svarað. Ég treysti mér ekki til þess, og ég efast um, að það geti nokkur maður sagt það, m.a. vegna þessa, að þá verður að meta það, úr hvaða tekjum útgerðin hefur þá að spila og hvaða þýðingarmiklar breytingar hafa þá orðið á rekstrarútgjöldum, sem ekki var búið að taka tillit til við áramót. Það verður sem sagt að biða að taka ákvarðanir um það. Mér er vel kunnugt um, að fulltrúum útgerðarinnar var ljóst, að annað væri með öllu útilokað. Þeir vita ekki sjálfir, við hvaða fiskverð ætti að miða eða við hvað þeir geta sætt sig, þegar að þeim tíma kemur. Þeir áskilja sér allan rétt til að bíða fram að þeim tímamörkum til þess að sjá, hvernig aðstæður verða þá. En hitt er eðlilegt, að útgerðin geri kröfu til þess að ná nokkurn veginn jöfnuði í rekstri sínum.

Þá sagði hv. 2. þm. Reykv., að hér væri um sams konar aðgerð að ræða og þá, sem gerð var með lögum 1968, þegar hlutaskiptakjörunum var breytt. Þetta er auðvitað alrangt. Mér er vel kunnugt um það, að við fiskverðsákvörðun nú um áramótin komu fram mjög stífar kröfur um það, m.a. frá fulltrúum útgerðarinnar, að fá fram breytingar á hlutaskiptakjörunum. Því neituðu fulltrúar sjómanna algerlega, sögðust ekki taka það í mál. Þeir gerðu sér auðvitað fulla grein fyrir því, eins og allir gera, sem eitthvað þekkja til þessara mála, að það er vitanlega allt önnur gerð að breyta hlutaskiptakjörum eða fallast á það, að tiltekna fjárhæð, sem átti að renna í geymslusjóð, mætti nota í því skyni, sem hér er um að ræða. Á því er auðvitað grundvallarmunur. Svo getur hv. 2. þm. Reykv. og aðrir slíkir leikið sér að tala um það, að fulltrúar sjómanna við þetta samningaborð hafi staðið að því að ræna sjómenn, eins og hann sagði hér. (Gripið fram í). Já, „ræna sjómenn“. Það var orðalagið sem hv. þm. getur auðveldlega fundið á spólunni, ef bann lætur leika hana fyrir sig aftur (Geir H: Ég var að nota orðalag hæstv. ráðberra). Kannske það hafi verið. En þá hefur hann fundið það á einhverjum einkennilegum stað, ef hann ætlar að halda því fram að ég hafi talað um það.

Þá spurði hv. 2. þm. Reykv., hvort líkur væru á því, að áætlaðar tekjur af þessu 5% útflutningsgjaldi kynnu að nema minni upphæð en ráðgert hefði verið og mundi því þurfa að afla sérstaklega viðbótartekna við þær, miðað við þær horfur, sem nú væru á loðnuvertíðinni. Ég tel, að það sé alveg öruggt, að það verði ekki, nema þá að verði miklu meira verðfall á mjölinu en búist er við í dag. Þá sýnist mér, að þar sem aflinn mun nú vera kominn yfir 360 þús. tonn, en áætlað var, að aflinn mundi verði í kringum 400 þús. tonn eða nokkru minni en hann var í fyrra, eftir þessum áætlunum og einnig miðað við það, sem búið er að frysta, og þá verðflokka, sem frystir hafa verið, þá sýnist mér, að það sé engin hætta á því, að ekki náist a.m.k. sú upphæð, sem áætluð var til þess að standa undir þessari olíuniðurgreiðslu. Því geri ég ekki ráð fyrir því, að það þurfi að fara í neina nýja tekjuöflun af þeim ástæðum. Hitt getur hæglega komið til, að það þurf að gera býsna erfiðar ráðstafanir til þess að tryggja afkomu útgerðarinnar á síðari hluta ársins. Það skal ég ekkert um segja.

Ég vil svo aðeins að lokum leggja áherslu á það, að málið er þannig, eins og ég hef bent á hér áður: Hér er um það að ræða að fá staðfestingu á samkomulagi, sem réttir aðilar hafa gert með sér, en hefur ekki verið upp á þá þvingað á einn eða neinn hátt af hálfu ríkisvaldsins. Þetta var vandi, sem þeir stóðu frammi fyrir, og þeir kusu að hafa þennan hátt á. Að sjálfsögðu hefðu þeir þegið að leggja þessa fjármuni í Verðjöfnunarsjóðinn og eiga hann, ef ríkissjóður hefði viljað bjóða þeim að láta þá hafa þessa upphæð annars staðar frá. En um það var ekki að ræða, svo að þeir urðu að leysa mál sín á þann hátt sem þeir gerðu sem ábyrgir aðilar. Og ég tel, að þessi lausu þeirra hafi verið mjög eðlileg miðað við allar kringumstæður.