06.03.1974
Efri deild: 71. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2551 í B-deild Alþingistíðinda. (2340)

190. mál, útflutningsgjald af loðnuafurðum

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er ekki beint þessu máli viðvíkjandi, sem ég sá mig knúinn til að segja nokkur orð, heldur útreikningar hæstv. sjútvrh. hér í hv. d., er hann gerði áðan lítið úr þeim vanda, sem smærri skuttogararnir standa frammi fyrir. Ég lít svo á, að þessi ummæli hæstv. ráðherra hafi verið sögð í nokkru fljótræði og hafi ekki við rök að styðjast. Þvert á móti held ég, að það hafi sýnt sig víðs vegar úti um landið í þeim plássum, þar sem ráðist hefur verið í kaup á skuttogurum, að þar hafa orðið miklir erfiðleikar á því að halda togurunum úti, og í sumum tilfellum hefur verið vafamál, hvort togararnir séu jafnvel í þann veginn að stöðvast.

Ég viðurkenni, að það var mikil bjartsýni ríkjandi í sumum þessara kauptúna, þegar ráðist var í skuttogarakaupin, og þetta hafði í för með sér mikla bjartsýni og ánægju þeirra manna, sem þar bjuggu. En þeim mun meira verður líka höggið, ef svo fer, að selja verður þessa skuttogara burt frá stöðunum, eins og nú litur jafnvel út fyrir að fara kunni.

Ég álít, að það sé ekki hægt að ýta þessu vandamáli á undan sér öllu lengur. Þetta vandamál kom upp strax á s.l. sumri, og mér er kunnugt um það, að útvegsmenn höfðu haft tal af sjútvrh. um þessi efni. Ég held ég fari rétt með það, að strax á s.l. hausti og síðan hafi komið upp erfiðleikamál vegna þess einmitt, að rekstrargrundvöllur þessarar útgerðar er ekki nógu traustur, og vegna þess, að það er fyrirsjáanlegur mjög verulegur hallarekstur á þessum togurum nú á þessu ári, svo að nemur allverulegum og ég vil segja mjög háum upphæðum. Ég álít, að ríkisvaldið verði að hlaupa þarna undir bagga með einhverjum hætti.

Ég vil líka segja það, að þetta getur komið mjög þungt við suma landshluta, eins og t.d. Norðurl. eystra, þar sem nú hefur mjög verið þrengt að togbátunum. Ég vil einnig benda á það, að frá síðustu áramótum hefur t.d. nótaveiðin verið bönnuð, en við vitum, að yfir sumarmánuðina hafa nótabátarnir einmitt fært mjög verulegan hluta aflamagnsins í frystihúsin, og sumir smáútgerðarmenn eru svo bölsýnir að segja, að þar með verði rekstrargrundvellinum kippt undan þessum bátum, ef þessi veiði verði algjörlega stöðvuð, en ég ætla ekki að fara út í það núna. En það er sannarlega kvíðvænlegt, eins og ástandið er í útvegsmálunum almennt, t.d. á Norður- og Norðausturlandi.

Ég verð að vona, að hæstv. sjútvrh. hafi ekki meint það bókstaflega, sem hann sagði hér áðan, að það væru fyrst og fremst stóru skuttogararnir, sem þyrftu á einhverri aðstoð að halda. Ég held, að í mörgum tilfellum þurfi smærri skipin það einnig, og þar eru í húfi heil byggðarlög, að frystihúsin þar hafi nægilegt hráefni og fólkið vinnu.