06.03.1974
Neðri deild: 73. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2552 í B-deild Alþingistíðinda. (2345)

252. mál, jarðræktarlög

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. sagði, eins og rétt er, að þetta frv. á þskj. 440 er tengt öðru frv., sem hér er á dagskránni, á þskj. 441, þar sem lagt er til. að Landnám ríkisins verði lagt niður. Í þessu frv. um breyt. á jarðræktarl. er gert ráð fyrir því, að greiðslur til gróðurhúsa á garðyrkjubýlum, sem hafa farið fram hjá Landnámi ríkisins, verði eftirleiðis greiddar af Búnaðarfélagi Íslands, eins og jarðræktarstyrkurinn yfirleitt er. Má segja, að þetta sé ekki mikilvæg breyting ein út af fyrir sig, en það má einnig segja, að hún sé ástæðulaus. Þetta hefur farið vel fram frá Landnáminu, enda ekki undan því kvartað, heldur er þetta gert, eins og hæstv. ráðh. sagði, vegna þess að fyrirhugað er að leggja Landnám ríkisins niður og flutt stjfrv. um það. Ég efast um, að meiri hl. sé á hv. Alþ. fyrir því, að það verði gert. Eitthvað mun stjórnarliðið vera skipt, a. m. k, sýnist það vera, þegar athugaðar eru brtt. frá~ hv. meiri hl. landbn. í Ed. um jarðræktarlagafrv. Í frv. til jarðalaga er gert ráð fyrir því, að Landnám ríkisins verði lagt niður, en meiri hl. landbn. í Ed. leggur til, að sá kafli í frv. til jarðalaga, sem kveður á um að leggja Landnámið niður, verði felldur úr frv. Þeir, sem að þessum brtt. standa, eru formaður Búnaðarfélags Íslands, hv. 1. þm. Vesturl., og fleiri hv. framsóknarmenn. Ég get ekki ímyndað mér, að þeir, sem hafa flutt þá brtt. í Ed., geti staðið að því að samþykkja frv. hæstv. landbrh. um, að Landnám ríkisins verði lagt niður. Þetta ber dálítið einkennilega að, og er ekkert skrýtið, þótt varalandbrn. kveðji sér hljóðs til þess að gefa hv. þingheimi skýringu á þessu. Slíkt hefur tæplega komið fyrir áður, að mál bæri að með þessum hætti, að það væri flutt stjfrv. um að leggja niður eina stofnun í annarri d., en í hinni d. komi stjórnarliðar með till. um, að það skuli ekki gert.

Sannleikurinn er sá, að hæstv. landbrh. hefur flutt nokkur frv. um landbúnaðarmál á þessu þingi. Hæstv. ráðh. hefur flutt frv. til jarðalaga, sem er í Ed. og hv. meiri hl. landbn. hefur flutt nokkrar brtt. við. Þetta frv. til jarðalaga hefur verið til umsagnar hjá ýmsum aðilum víðs vegar um land. Það var sent til umsagnar búnaðarsamböndunum, Sambandi ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtökunum. Umsagnir um þetta frv. hafa komið og verið mjög neikvæðar. Hefur margt verið fundið frv. til foráttu. í öllum þessum frumvörpum er gert ráð fyrir því sem sjálfsögðum hlut, að Landnám ríkisins verði lagt niður, án þess að fylgi virðist vera fyrir því á Alþingi.

Hvers vegna skyldi það vera, að svo mikil áhersla er á það lögð að leggja Landnám ríkisins niður? Er það vegna þess, að Landnám ríkisins hafi starfað eitthvað illa, að það hafi ekki gegnt því hlutverki, sem til er ætlast? Nei, það er ekki vegna þess, það er viðurkennt. Er það vegna þess, að það sé dýrt í rekstri og það gæti verið sparnaður í ríkiskerfinu að leggja það niður og færa starfsfólkið inn í landbrn. eða Búnaðarfélag Íslands? Það er einnig sagt nei við því og það af hv. stjórnarliðum sjálfum. Hvers vegna þá að gera þetta? Ekki getur verið, að það eigi að hefnast á Landnámi ríkisins fyrir að hafa staðið vel í stöðu sinni, fyrir að hafa gegnt starfi sínu það vel. að félagssamtök úti á landi og bændur, sem viðskipti hafa haft við Landnámið, óska eftir, að það fái að starfa áfram. Starf Landnáms ríkisins er mikið fram undan, eins og kunnugt er, ekki síst í sambandi við skipulagsstörf og byggðaáætlanir. Má minna á, að hv. 1. þm. Vestf. hefur flutt þáltill. nú nýverið um að fela Landnámi ríkisins veigamikil verkefni. Ekki getur sá hv. stuðningsmaður hæstv. ríkisstj. ætlast til, að Landnám ríkisins verði lagt niður. Og kunnugt er það, að hv. þm. Hannibal Valdimarsson hefur farið góðum orðum um Landnám ríkisins fyrir að vinna ötullega að svokallaðri Inn-Djúpsáætlun, sem ekki er enn lokið. Tæplega getur sá hv. þm. ætlast til þess, að Landnám ríkisins verði lagt niður, áður en því verki verði a.m.k. lokið.

Það má því segja, að þetta beri allt saman undarlega að, og ekki furða, þótt hv. varalandbrh. skrifi og undirbúi sig undir það, sem hann ætlar að segja hér á eftir. Og það verður fróðlegt að hlusta á skýringar hv. vararáðh., þegar áhersla er á það lögð að leggja niður Landnám ríkisins þvert ofan í það, sem þeir óska, sem þess eiga að njóta og Landnám ríkisins starfar fyrir. Stjfrv. er lagt fram á sama degi og hluti af stuðningsliði hæstv. ríkisstj, gerir till. um það í annarri d., að Landnám ríkisins skuli ekki lagt niður. Hægri höndin veit ekki, hvað sú vinstri gerir.

Þetta frv. til breyt. á jarðræktarl. á þskj. 440 er táknrænt á annan hátt. Þar er lagt til, að styrkur til gróðurhúsa skuli vera óbreyttur frá því, sem verið hefur. Þrátt fyrir alla dýrtíðina, þrátt fyrir verðbólguna er ekki lagt til að gera neina breytingu þar á. Einhvern tíma hefði það þótt fréttnæmt, á meðan hæstv. ráðh: var í stjórnarandstöðu og á meðan hv. vararáðh. var aðeins varaþm. hér á Alþ. í stjórnarandstöðu. Þegar þessir hv. þm. töluðu um landbúnaðarmál í stjórnarandstöðu, var það í öðrum tón en nú kveður að. Og það er ekki skrýtið, þótt það sé gert mikið úr flutningi slíkra frv. sem þess, sem hér um ræðir.

Það er í sjálfu sér ekki ástæða til að ræða þetta frv. meira, og það er sennilega ekki ástæða til að fara heldur mörgum orðum um það frv., sem er á dagskránni hér næst á eftir, vegna þess að það eru litlar líkur til, að það nái fram að ganga. Þeir hv. þm., sem hafa látið skoðanir sínar í ljós, sem er gagnstæður vilja hæstv. landbrh., munu tæplega greiða atkv. alveg þvert ofan í það, sem þeir hafa lagt til á sama tíma og frv. er lagt fram. Í þessum frv. öllum, frv. til jarðalaga, frv. um að leggja Landnám ríkisins niður, frv. um breyt. á jarðræktarl., að greiðslur til gróðurhúsa fari fram í Búnaðarfélaginu, en ekki hjá Landnámi ríkisins, frv. til ábúðarlaga, í öllum þessum frv. er gert ráð fyrir því sama, að Landnám ríkisins verði lagt niður. í öllum þessum frv. er ákvæði að finna, sem bændur eru á móti, og í öllum þessum frv. má finna misbresti, sem þarf að lagfæra. Þess vegna er eðlilegt, að þessum frv. verði öllum vísað til ríkisstj. til frekari endurskoðunar. Hv. minni hl. landbn. í Ed. hefur skilað nál. við frv. til ríkisstj. til endurskoðunar í samráði við Landnám ríkisins, í samráði við skipulagsstjórn ríkisins og í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga.

Samband ísl. sveitarfélaga hefur margt við jarðalagafrv. að athuga, vegna þess, eins og sveitarstjórnirnar segja, að það er verið að draga valdið frá heimamönnum og flytja það yfir til annarra. Skipulagsstjórn ríkisins hefur vitanlega margt við þetta að athuga, vegna þess að jarðalögin og skipulagslögin þurfa að fylgjast að. Í okkar tækniþróaða þjóðfélagi þarf allt land að verða skipulagsskylt, og það þarf að teikna þetta allt upp og gera ráðstafanir, áður en ráðist er í mannvirki og framkvæmdir, til þess að horft sé fram í tímann og það, sem unnið er, sé unnið skipulega og án þess að spilla nokkru. Þess vegna er ekki tímabært að afgreiða jarðal., nema skipulagsl. fylgi með. Ábúðarl. þarf einnig að endurskoða í samræmi við þær breyt., sem gerðar verða á þessum l. Frv. til l. um heykögglaverksmiðjur ríkisins, sem einnig er hér til umræðu, kemur einnig við Landnám ríkisins. Hæstv. ráðh. sagði hér við 1. umr. um það mál, að það mætti vel athuga að breyta því í það horf, sem ég lagði til, að heimamenn hefðu stjórn heykögglaverksmiðjanna áfram, eins og er nú, því að með því nýtist sá kunnugleiki og þekking, sem heimamenn hafa, og með því móti verður stjórnarkostnaðurinn miklu minni en ef farið er að setja upp eina stjórn með skrifstofubákni í Reykjavík. Það er þess vegna áreiðanlega best að skoða þessi mál öll betur.

Það þarf að fyrirbyggja jarðabrask, eins og boðað er fjarðalagafrv. En það gerist ekki með því að setja upp 23 byggðaráð og taka valdið frá sveitarstjórnunum. Það gerist ekki með því að setja upp eitthvert bákn, sem kostar bæði ríkissjóð og héruðin stórfé. Jarðabrask er helst hægt að fyrirbyggja með því að efla vald sveitarstjórnanna og tryggja það, að sveitarstjórnirnar geti haft sem sterkust ítök og ráð á því, hvernig farið er með jarðirnar í sveitarfélaginu. Ég held, að það sé enginn vafi á því, að besta ráðið til að fyrirbyggja braskið væri að setja strangari ákvæði í ábúðarl. heldur en nú eru, um það, að hver sem á jörðina, þá sé skylt að byggja hana til ábúðar með hæfilegum leigukjörum, ekki svo háum, að búinu sé ofvaxið að standa undir þeim greiðslum, heldur með hæfilegum kjörum. Ef það væri komið í lög, held ég, að viljinn og óskin að eignast land, sem á engan hátt gæti rentað sig, hlytu að minnka.

Það er eðlilegt, að þessi löggjöf öll sé endurskoðuð. Tímarnir eru alltaf að breytast. Það má segja, að það sé yfirleitt venjan að endurskoða mikilvæga lagabálka, ekki síst þá, sem snerta beint atvinnuvegina, á 5–6 ára fresti. Þess vegna er eðlilegt, að landbúnaðarlöggjöfin og ýmsir þættir hennar komi til endurskoðunar nú í sambandi við það, sem hér er á ferðinni. En það er miklu mikilvægara að gefa sér góðan tíma til endurskoðunarinnar heldur en flaustra henni af. Það skiptir litlu máli, hvort þessi frumvörp verða að lögum á þessu ári eða t.d. næsta ári. Verði þessum frv. öllum vísað til ríkisstj. með ósk um, að þau verði endurskoðuð í samráði við þá aðila, sem ég áðan nefndi, má setja það inn í nál., að endurskoðuninni skuli lokið fyrir næsta haust og þá geti næsta Alþ. tekið málið til meðferðar og frv. yrðu þá lögfest á árinu 1975. En þá væri búið að sniða af þeim öllum þá agnúa, sem menn kvarta nú yfir og stynja undan. Margir bændur kvíða fyrir þessu. Fjórðungssamband Norðlendinga, búnaðarsamböndin, sveitarstjórnarsamböndin, Búnaðarsamband Suðurlands og fleiri aðilar óska eftir því, að þessi mál verði endurskoðuð betur. Hér er vitanlega aðeins eitt mál til umr., en ég held, að miðað við það, hvernig þetta ber allt saman að, verði mér fyrirgefið, þótt ég hafi farið út fyrir dagskrármálið.