06.03.1974
Neðri deild: 73. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2556 í B-deild Alþingistíðinda. (2346)

252. mál, jarðræktarlög

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég fyrir mitt leyti fyrirgef hv. 1. þm. Sunnl., þó að hann fari vítt og breitt, svo hryggur var hann og sár yfir því, hvernig landbúnaðarmálin væru nú komin, þegar þau væru ekki lengur í hans höndum, það væri mikil raunasaga, hvernig væri farið með þessi mál.

Ég kem hér upp aðeins til að leiðrétta mjög lítinn misskilning, sem ætti að vera hægt að átta sig á. Það var einfaldlega þetta: Það var óþarfi, að það væri tekið fram í tvennum lögum, Landnám ríkisins skyldi lagt niður, það nægir að taka það fram í einum lögum. Nm. í hv. landbn. Ed. vissu, að þetta frv. var væntanlegt, þeim var gert það ljóst, og þess vegna mátti nema þetta úr jarðlagafrv. Það er mjög eðlilegt, að þetta verði gert með sérstökum l., vegna þess að það kann að vera, að menn blandi þessu nokkuð saman, jarðlagafrv. og þeirri ákvörðun að leggja niður Landnám ríkisins, og er eðlilegt, að það sé tekið sem sjálfstæð ákvörðun.

Að öðru leyti voru ekki rök eða atriði í ræðu hv. 1. þm. Sunnl., sem ég nenni að fara að rekja lið fyrir lið. Hann spurði, hvort það ætti að vera sparnaður að leggja Landnámið niður. Hann svaraði því engu, færði a.m.k. engin rök að því, að það væri ekki sparnaður að því. Það má þó til að taka einstök dæmi benda á, að það var verulegur sparnaður að því og hagræði að greiða jarðræktarframlög hjá einum aðila, en ekki tveimur, eins og gert var. Á sama hátt má ætla, að það sé sparnaður að því, að sami aðili og lánin veitir, þ.e.a.s. Stofnlánadeild landbúnaðarins greiði byggingarstyrk. Það má líka benda á það, að Búnaðarfélag Íslands, sem safnar langmestu af gögnum Frá bændum árlega, eins og fóðurbirgðaskýrslum og jarðræktarskýrslum, það á langhægast með að halda jarðaskrá. Þannig má rekja þetta lið fyrir lið.

Þó að ég beri fulla virðingu fyrir stofnuninni Landnámi ríkisins og hafi enda verið í stjórn hennar um nokkurt árabil og þykist þekkja störfin og söguna vel, finnst mér nú tímabært að gera þessa skipulagsbreytingu og er viss um, að hún er landbúnaðinum til góðs og til hagræðis. Mér finnst sjálfsagt að líta á það raunsætt, þó að menn kunni að sjá eftir nafni góðrar stofnunar, sem ágætir menn hafa stýrt lengi.

En í sambandi við jarðlagafrv. og reyndar fleira, sem hv. 1. þm. sagði hér, var margt dálítið skrýtið. Hann fór ekkert nákvæmlega með staðreyndir. Hann var ekkert að gera með það, þó að Búnaðarþing sé tvisvar búið að fjalla um jarðlagafrv. og mæla með því, ekki einróma, með einu mótatkv. á síðasta Búnaðarþingi, og einnig með frv. um heykögglaverksmiðjur, og var þá alveg ljóst, að hverju stefndi með Landnám ríkisins. Það er kannske reynsla fyrir því, að í hans augum sé stofnun eins og Búnaðarþing ekki mikils virði og það séu aðrar raddir, sem hann hlustar frekar á í landbúnaðarmálunum, því að hann var að tala um fólk, sem styndi undan þessum voðalegu áformum núv. landbrh. um yfirleitt öll landbúnaðarmál. Þetta væri allt saman voðalegt í hans höndum, fannst manni.

Hv. 1. þm. Sunnl. talaði annars vegar um, að það ætti að koma upp stórum báknum, eins og 23 byggðaráðum, en nefndi ekki, að það á að leggja niður jafnmargar landnámsnefndir, og hvort verður meira bákn, er ekki gott að segja. Sennilega verður stærð þessara aðila í beinu hlutfalli við verkefni þeirra. Byggðaráðin verða ekkert meiri bákn en þau hafa verkefni til að vinna. Og hann sagði, að Fjórðungssamband Norðlendinga hefði mælt gegn þessu og fleiri fjórðungssambönd. Mér er kunnugt um, að það var ekki stjórn Fjórðungssambands Norðlendinga, sem mælti gegn þessu, heldur framkvæmdastjóri þess. Hafi Búnaðarsamband Suðurlands mælt gegn því, þykir mér einkennilegt, hvernig fulltrúar þess á Búnaðarþingi greiða atkv. Samband ísl. sveitarfélaga getur þess, að ekki megi setja svona skipulagsleg atriði inn í jarðalög. Það er ekkert minnst á það, að í l. um Landnám ríkisins er kveðið á um, að það eitt, stofnun í Reykjavík, sem er stjórnað af mönnum kjörnum af Alþ., sem sagt miðstjórn, eigi að stjórna skipulagsmálunum í sveitum. En þegar talað er um, að ráð, sem eru úti í héruðunum, eigi að taka þátt í skipulagningu, þá er sagt, að verið sé að taka valdið burt frá sveitunum. Þetta finnst mér allt snúa öfugt í munni þessara manna. Jarðalögin eru ekki skipulagslög í þeim skilningi, að það geti ekki verið önnur skipulagslög við hliðina á þeim. Þau eru lög, sem ná til landbúnaðar landsins og hvernig með skuli fara, og er ekki dregið vald frá sveitarfélögunum. Það eru byggðaráðin, sem eiga að vera sveitarfélögunum til halds og trausts. Sveitarfélögunum er gert miklu auðveldara að komast yfir jarðirnar en nú er og trygging fyrir því. Þetta er því flest, eins og ég hef áður nefnt, öfugt og raunatala mikil.