06.03.1974
Neðri deild: 73. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2557 í B-deild Alþingistíðinda. (2347)

252. mál, jarðræktarlög

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. Hv. þm. segir, að ég, hafi flutt hér raunatölur. Hafi það verið, er það vegna þess, hvernig málið var tilbúíð af hendi stjórnvalda, því að ég hélt mig við þau frumvörp, sem liggja fyrir, bæði í þessari hv. d. og eins í hv. Ed.

Mér fannst satt að segja hv. þm. hafa tiltölulega lítið að segja eftir að hafa hlustað á það, sem hann kallaði raunatölu frá minni hendi. Hann var að tala um, að það hefði falist sparnaður í því, að jarðræktarstyrkurinn væri greiddur á einum stað, en ekki tveimur. Þetta er vitanlega alger misskilningur. Það hefur enginn sparnaður verið að því.

Hv. þm. talar um, að Búnaðarfélag Íslands hafi besta yfirsýn yfir jarðir ríkisins og það hafi hesta aðstöðu til að halda jarðaskrá. Ég efast ekkert um, að Búnaðarfélag Íslands vill gera þetta og gerir það eftir bestu getu. En ég held, að það sé enginn vafi á því, að Landnám ríkisins hefur gleggsta og nákvæmasta jarðaskrá. Og enginn vafi er á því, að það fólk, sem er fátt og vinnur við Landnám ríkisins, verður flutt í aðrar stofnanir. Starfsfólki verður ekki fækkað, vegna þess að það fólk, sem starfar við Landnám ríkisins, hefur haft nóg störf og hefur mikilvæg störf fram undan að vinna.

Hv. þm. talaði um, að Búnaðarþing hefði mælt með jarðalagafrv. Rétt er það, það gerði það. Það var meira að segja ekki nema einn maður á móti í fyrra og tveir eða þrír sátu hjá. En það eru ýmsir búnaðarþingsmenn, sem hafa nú áttað sig á því, að það þarf að laga ýmislegt í þessu frv. Og þótt ég beri virðingu fyrir Búnaðarþingi og vilji oft taka tillit til þess, þá tek ég meira mark á því, sem kemur frá bændunum sjálfum, utan úr hinum dreifðu byggðum.

Hv. þm. virtist vilja rengja það hér áðan, að Fjórðungssamband Norðlendinga og búnaðarsamböndin hefðu eitthvað við þetta að athuga. Ég vildi gera hv. þm. greiða, ef hann hefði ekki kynnt sér álit Fjórðungssambands Norðlendinga, og upplýsa, hvað það hefur við þetta að athuga. Það segir m.a. í áliti, sem það hefur sent frá sér:

„Það er vægast sagt ekki vammlaus vinnubrögð hjá n. þeirri, sem bjó frv. í hendur Alþingis, að hafa ekki formlega samráð við samtök sveitarfélaganna í einstökum landshlutum og við sýslunefndir. Í sumar var ekki höfð hirða á því að senda frv. til athugunar hjá ýmsum aðilum á milli þinga. Því verður að vara við öllum einstefnuakstri í meðferð þessara mála, sem getur stefnt árangri af samstarfi um þessi mál í tvísýnu.“

Þetta segir Fjórðungssamband Norðlendinga, og það segir miklu fleira, sem hv. þm. geta kynnt sér.

Það væri líka fróðlegt að vita, hvað Búnaðarsamband Suður-Þingeyinga hefur um þetta mál að segja, hv. síðasti ræðumaður er kunnugur þar. Stjórn Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga gerir tilteknar aths. við frv., en lýkur umsögn sinni með þessum orðum:

„Stjórn Búnaðarsambandsins telur valdsvið byggðaráða í frv. svo mikið og margþætt, að mjög þurfi til þessara löggjafar að vanda. Við teljum því rétt að fresta afgreiðslu jarðalagafrv. á yfirstandandi Alþ. til þess að tryggja sem besta samstöðu um meginstefnu þess, bæði frá búnaðarsamböndum, búnaðarfélögum og sýslunefndum. Það skiptir að okkar dómi minna máli, hvort löggjöf þessi verði afgreidd árinu fyrr eða síðar, nái frv. fram að ganga með einhuga stuðningi bænda í landinu, sem er forsenda fyrir því, að löggjöfin nái tilgangi sínum. Af þessu tilefni sendir stjórn Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga engar till. til breytinga á frv. að svo komnu.máli.“

Þetta er skýrt og ótvírætt hjá Búnaðarsambandi Suður-Þingeyinga og alveg eins ákveðið og hjá Fjórðungssambandi Norðlendinga. Mætti lesa upp fleiri umsagnir, sem eru í þessum tón. Er unnt annað en að hlusta á þetta og taka það til greina? Mér finnst það ekki.

Hv. þm. talaði um, að landnámsnefndirnar yrðu lagðar niður, þegar byggðaráðin tækju við. Landnámsnefndirnar hafa verið sama sem ólaunaðar, þær hafa ekki kostað neitt. En það er gert ráð fyrir, að byggðaráðin verði launuð, að hálfu af ríkinu og að hálfu af héruðunum. Og er það ekki að taka valdið frá heimamönnum, þegar byggðaráðin eru sett upp til höfuðs sveitarstjórnunum? Byggðaráðin eru sett yfir sveitarstjórnirnar. Orðaleikur um þetta sýnist mér alveg ástæðulaus, vegna þess að þetta er skýrt og ákveðið. Varðandi það, að skipulagslögin séu sérstök lög og geti komið á eftir, held ég, að það fari miklu betur á því, að þau komi samtímis og þessi löggjöf.

Ég sé svo, herra forseti, ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Mér finnst þetta allt liggja svo ljóst fyrir, að það sé ekkert vafamál um það, að þetta allt þurfi að endurskoða betur.