07.03.1974
Efri deild: 72. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2574 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

257. mál, hússtjórnarskólar

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. til I. um heimilisfræðaskóla, sem fram er lagt á þskj. 446, er verk nefndar, sem skipuð var 29. nóv. 1971 til þess að endurskoða gildandi lög um húsmæðrafræðslu og Húsmæðrakennaraskóla Íslands. Þessa n. skipuðu Steinunn Ingimundardóttir skólastjóri, samkv. tilnefningu skólastjóra húsmæðraskólanna ,og var hún skipuð formaður n., Björn Halldórsson skrifstofustjóri, skipaður samkv. tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga, Halldóra Eggertsdóttir formaður kennarafélagsins Hússtjórnar ,skipuð samkv. tilnefningu þess félags, Sigríður Haraldsdóttir kennari, skipuð samkv. tilnefningu Kvenfélagasambands Íslands, og Vigdís Jónsdóttir skólastjóri Húsmæðrakennaraskóla Íslands, skipuð án tilnefningar.

Ástæðan til, að þessi n. var sett á laggirnar og henni falið þetta hlutverk, var fyrst og fremst sú, að eins og hv. alþm. mun fullkunnugt, hefur nú um nokkurt skeið verið mjög dræm aðsókn víða að húsmæðraskólum og kvennaskólum. Sums staðar hefur verið gripið til þess ráðs að halda uppi í þessum menntastofnunum tímabundnum námskeiðum, og hefur fengist allgóð aðsókn að þeim viða. En sums staðar hefur þess ekki þótt kostur, og þá hafa þessir skólar starfað með mjög fámennum námsmannahópum. Húsmæðraskólarnir eru reknir í sameiningu af ríki og héruðum, og þegar það blasir við, að aðsókn er mun minni en kennaralið gæti annast, verða að sjálfsögðu fjárhagsbyrðarnar tilfinnanlegri, bæði fyrir ríki og þá sér í lagi heimaaðila, sem víðast eru sýslusjóðir, sem eru, eins og kunnugt er, allfjárvana til að mæta þeim verkefnum, sem á þeim hvíla.

Þegar þessi n. var skipuð, var allra manna mál. að það væri á mörkunum, hvort verjandi væri að halda uppi kennslu í sumum húsmæðraskólunum vegna nemendafæðar. Menn hafa nokkuð bollalagt um orsakir þessa, en þar er skemmst af að segja, að allra ræður koma þar niður, að meginástæðan sé breyttir þjóðfélagshættir, atvinnuhættir og heimilishættir, sem geri ekki eins eftirsóknarvert og áður þótti fyrir ungar stúlkur að leita sér þeirrar menntunar, sem húsmæðraskólarnir veita. Þegar svona var komið, þótti einsýnt, að áður en gripið yrði til úrræða, væri rétt, að hópur þeirra manna, sem kunnugastir eru starfi og rekstri þessara skóla, bæri saman bækur sínar og legði á ráðin, hvað vænlegast væri til að koma þessum skólastofnunum á heilbrigðari og lífvænlegri grundvöll en fyrir liggur. Árangur af nefndarstarfinu er þetta frv. og annað, sem fyrir liggur á þskj. 445 og verður rætt hér á eftir.

Það er kjarni þeirra nýmæla, sem lagt er til að lögfest verði með frv. til l. um heimilisfræðaskóla, að skólar þessir, húsmæðraskólarnir, verði lagaðir að þörfum tímans á þann hátt, sem útskýrt er í greinum frv. Lögð er til sú meginbreyting á rekstri skólanna, að þeir verði ríkisskólar að fullu. Þetta þykir eðlilegt, bæði vegna þess breytta hlutverks, sem skólunum er ætlað, og þó ekki siður vegna þess, að reynslan sýnir á síðari árum, að það er algerlega undir hælinn lagt, hvort aðsókn að skólunum er úr þeim héruðum, sem að þeim standa. Það er miklu frekar, að þar blandist nemendahópur úr öllum landshlutum. Síðan verður aðsóknin og reynslan að sýna, hve víða er verjandi að halda uppi þeim skólum, sem gert er ráð fyrir í frv.

Öllum, sem um málið fjalla, og hv. alþm. vafalaust ekki síður er kunnugt, hversu viðkvæm þessi mál eru á ýmsum stöðum, þar sem starfa húsmæðraskólar, margir með langan og nytsaman feril að baki. En ég held, að það sé orðið allra mál, að reynslan sýni, að engum sé til góðs, að barist sé við að halda uppi fleiri skólum en aðsókn réttlætir.

Vík ég þá að ákvæðum frv. um heimilisfræðaskóla.

Í I. kafla frv. er kveðið á um hlutverk þessa skóla, sem nefndur er heimilisfræðaskóli fyrir þá sök, að gert er ráð fyrir, að hann geti engu síður sótt karlar en konur. Einnig er kveðið á um starfstíma hans, 9 mánuði á ári, og sömuleiðis í 3. gr. um að stofna skuli til framhaldsnáms fyrir þá, sem hyggjast veita forstöðu mötuneytum og viststofnunum, eftir því sem ástæða þykir til.

Í 4. gr. eru ákvæði um inntökuskilyrðin, að þau séu lok skyldunáms, og síðan í 5. gr. um námsefnið.

Í 7. gr. er kveðið á um, að menntmrh. skipi skólastjóra að fengnum till. skólanefndar, og þykir það eðlilegur háttur að áorðinni þeirri breytingu, að þessir skólar séu alfarið ríkisskólar. Síðan er í 8. gr. ákvæði um skipun skólanefndar. Lagt er til. að auk formanns, sem skipa skal án tilnefningar, sitji í henni tveir menn eftir tilnefningu héraðssambands kvenfélaga í því byggðarlagi, sem í hlut á, tveir tilnefndir af landshlutasamtökum sveitarfélaga og loks einn tilnefndur af nemendum.

Í IV. kafla frv. eru í 13. gr. ákvæði um, að heimilisfræðaskólar skuli vera ríkisskólar, og í 14. gr. eru ákvæði um, hver sé stærð skóla, sem miða skuli við, hún sé hið minnsta fyrir 36–40 nemendur. Í verklegum greinum sé nemendafjöldi ekki lægri en 12 í hópi að jafnaði.

Í 15. gr. frv. er ákvæði um, að þegar fé er veitt til, skuli stofna 36 vikna handíðaskóla í tóvinnu, vefnaði, saumum og fleiri handiðum. Þykir best á fara, að sérkennsla í þessum greinum, sem mikla þýðingu hafa fyrir ýmiss konar listiðnað, auk þess sem unnið er til heimilisprýði, fari fram í sérstökum skóla, því að erfiðleikum þykir bundið að flétta þetta öðru námi í heimilisfræðaskóla, ekki síst vegna þess, að kennsla í þessum greinum krefst mun meiri kostnaðar við kennslutæki og búnað en kennsla í öðrum verklegum greinum heimilisfræðaskóla.

Svo er í 16. gr. ákvæði um, að eftir sem áður skuli heimilt að starfrækja í heimilisfræða- og handíðaskólum sérstök námskeið, eftir því sem tilefni gefst til.

Loks er í 19. gr. ákvæði um, hversu haga skuli yfirtöku ríkis á starfandi húsmæðraskólum, þegar óskað er af hálfu forráðamanna skólanna í héruðunum. Meðan slík yfirtaka hefur ekki átt sér stað, skal starfsemin fara fram eftir gildandi lögum. Loks er tekið fram í niðurlagi 19. gr., að yfirtöku ríkisins á eignum og skuldum skólanna fylgi ekki kvöð um, að þeir verði áfram reknir sem húsmæðraskólar, nema aðsókn að skólunum fullnægi því marki, sem nauðsynlegt telst til þess að halda skólastarfi uppi.

Ég legg svo til. herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.